Framtíðarnýting Safnahússins

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:46:18 (4238)


[18:46]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það getur nú varla verið neinn einkaréttur þingmanna Reykvíkinga að hafa áhuga á nýtingu Safnahússins. En hv. þm. spyr hvort tekin hafi verið ákvörðun um framtíðarnýtingu Safnahússins við Hverfisgötu og ef svo er hver sú ákvörðun sé.
    Svarið við fyrri lið fyrirspurnarinnar er nei. Ákvörðun hefur ekki verið tekin en það er unnið að undirbúningi hennar og ég skal greina frá því í stuttu máli.
    Á fundi ríkisstjórnarinnar 8. nóv. sl. var samþykkt tillaga mín um að ríkisstjórnin fæli menntmrh. að skipa þriggja manna nefnd með fulltrúum frá forsrn., menntmrn. og fjmrn. til að athuga og leggja mat á framkomnar tillögur og gögn um framtíðarnýtingu Safnahússins við Hverfisgötu. Skyldi nefndin skila áliti til menntmrh. sem síðan legði tillögu sína fyrir ríkisstjórn. Eftir að tilnefning fulltrúa hafði borist var nefndin skipuð og eiga sæti í henni ráðuneytisstjórar forsrn. og fjmrn. ásamt ráðuneytisstjóra menntmrn. sem veitir nefndinni forustu. Húsameistari ríkisins starfar með nefndinni.
    Nefndinni er samkvæmt skipunarbréfi og í samræmi við framangreinda samþykkt ríkisstjórnarinnar falið að athuga og leggja mat á tillögur og gögn sem fyrir liggja um framtíðarnot Safnahússins og skila með hliðsjón af þeirri athugun áliti til menntmrh. um hvaða hlutverk skuli ætla húsinu eftir að aðalstöðvar Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns eru fluttar þaðan. Taka skal mið af friðunarákvæðum sem um húsið gilda. Það er óskað eftir að í áliti nefndarinnar komi fram mat á kostnaðarþáttum sem tengjast tillögum um framtíðarhlutverk hússins svo og áætlun um tíma sem þyrfti til að koma á nýrri skipan.
    Ég sagði í svari við fsp. á sl. ári að það væri æskilegt að ákvörðun lægi fyrir áður en brottflutningi Landsbókasafns úr húsinu lyki og sú skoðun mín er að sjálfsögðu í fullu gildi enn þá. En það er rétt að minna á að Þjóðskjalasafn hefur enn afnot af nokkrum hluta Safnahússins og það er fyrirsjáanlegt að svo þurfi að vera um skeið á meðan ólokið er nauðsynlegum framkvæmdum í byggingum Þjóðskjalasafnsins við Laugaveg. Einnig er enn þá nokkur ritakostur á vegum Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns, varðveittur í Safnahúsinu.
    Ég vil líka geta þess að þjóðskjalaverði hefur með bréfi frá ráðuneytinu verið falið að hafa á hendi umsjón með Safnahúsinu frá 1. mars nk. þar til öðruvísi verður ákveðið.
    Ég get bætt því við að ég vonast til að nefndin sem hefur verið skipuð ljúki störfum sem fyrst. Ég vona að það geti orðið fyrir lok marsmánaðar án þess að ég vilji fullyrða um það hvort svo verði en ég hef óskað eftir því að nefndin skili áliti fyrir lok mars.