Framtíðarnýting Safnahússins

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:54:13 (4241)


[18:54]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er við hæfi að menn ræði framtíðarnotkun þessa sögufræga og fallega húss sem Safnahúsið er. Menn hafa talað í þá veru að það sé einsýnt að það verði tekið undir einhvers konar bókaiðju eða fræðaiðju sem tengist bókum og bókasöfnum. Ég vek eftirtekt á því að hæstv. menntmrh. undirstrikaði að það væri ekki búið að taka nokkra ákvörðun um þetta. Ég vil þess vegna halda því til haga að starfsmenn Náttúrugripasafnsins hafa varpað fram þeirri hugmynd að þetta hús yrði notað undir Náttúrugripasafnið. Það er á hrakhólum með húsnæði eins og menn vita og var eitt sinn til húsa einmitt í Safnahúsinu. Ég tel nauðsynlegt að menn gleymi ekki þessu í iðu umræðunnar. Menn eru væntanlega að hugsa um að vernda arfleifðina sem best þegar þeir tala um að nota húsið undir bókasafn en ég vek eftirtekt á því að við eigum líka annars konar arfleifð og sú er náttúrulegs eðlis og við þurfum líka að gæta hennar.