Framtíðarnýting Safnahússins

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:57:54 (4243)



[18:57]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegur forseti. Mig langar að þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu í þinginu og ekki síður þakka ég hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Mér sýnist að þetta mál sé í hefðbundnum farvegi. Það er

mjög vandmeðfarið að undirbúa þá ákvörðun hvað fari í Landsbókasafnshúsið. Þetta er fallegt hús og friðað jafnt utan sem innan og þess vegna er alveg nauðsynlegt að fara mjög varlega þegar tekin er ákvörðun um nýtingu þess.
    Það fer ekki hjá því að ég hallast helst að því að þarna verði einhvers konar bókasafn en ég vil ekki draga neinar línur þar um en tel að Árnastofnun væri afskaplega vel sett í þessu húsi og miðað við þær aðstæður sem hún býr við núna þá er öllum ljóst að þar verður að gera á bragarbót. Þess vegna hefði ég talið að sú hugmynd að setja Árnastofnun í Landsbókasafnið væri hin merkasta hugmynd. En ég treysti hæstv. menntmrh. mjög fyrir því að undirbúa þetta mál og taka ákvörðun þarna um.