Framtíðarnýting Safnahússins

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:59:22 (4244)


[18:59]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Eins og ég sagði þá mun nefndin sem nú er að störfum fara yfir allar þær hugmyndir sem komið hafa fram á undanförnum árum um framtíðarnýtingu Safnahússins og ákvörðun hefur ekki verið tekin.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagðist vænta þess að húsið yrði ekki nýtt til neins annars en sem bókasafn og þá væntanlega fyrir Landsbókasafnið og það má vel vera að svo verði. Ég bendi hins vegar á að það hefur verið byggt nýtt hús fyrir Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn og það liggur þess vegna ekkert svo sem fyrir að Safnahúsið verði nýtt áfram fyrir hið nýja Landsbókasafn. Það er bara eitt með öðru sem kemur þarna til athugunar. Að sjálfsögðu hafa komið fram hugmyndir um að stofnun Árna Magnússonar verði þarna til húsa, Náttúrugripasafnið eins og hv. umhvrh. nefndi og allar aðrar hugmyndir eins og ég sagði sem þarna hafa verið settar fram verða athugaðar af nefndinni.
    Hv. fyrirspyrjandi fagnaði því að ákvörðun hefði ekki verið tekin um eitthvað sem hún hefði ekki getað sætt sig við. Það kynni nú svo að fara að ákvörðunin yrði þannig að hv. þm. gæti ekki sætt sig við hana. Það verður þá að hafa það. En þetta er allt saman sem sagt til athugunar.
    En ákvarðanir geta breyst. Ég er hér með bréf í höndunum sem er skrifað 12. mars 1971 og undirritað af þáv. menntmrh., Gylfa Þ. Gíslasyni. Bréfið er til þjóðskjalavarðar. Þar er sagt frá fundi sem þeir höfðu átt, landsbókavörður, þjóðskjalavörður og þáv. háskólarektor, um að Þjóðskjalasafnið skyldi fá til sinnar starfsemi allt Safnahúsið við Hverfisgötu þegar Landsbókasafnið flytur í hina fyrirhuguðu þjóðarbókhlöðu og ,,ákveður ráðuneytið hér með`` eins og segir í bréfinu, með leyfi forseta, ,,að svo skuli vera.``


    En þetta hefur nú breyst m.a. vegna þess að Þjóðskjalasafnið hefur fengið sérstakt húsnæði til afnota inn við Laugaveg eins og menn þekkja.