Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 13:45:50 (4250)

[13:45]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Það væri æskilegt að hæstv. umhvrh. væri hér í salnum þegar þessi umræða fer fram.
    Nú er það þannig, virðulegi forseti, með 2. mál á dagskrá að meiri hluti umhvn. beitti atkvæðamagni í nefndinni til að taka málið út úr nefndinni án þess að okkur gæfist tækifæri til að ræða þær brtt. sem höfðu verið lagðar fram. Það voru satt að segja mjög óvenjuleg vinnubrögð í umhvn. þar sem nefndarmenn, m.a. sá sem hér stendur, hafa yfirleitt kappkostað á þessu kjörtímabili að vera ekki að fjalla um umhverfismál eftir skiptilínunum stjórn eða stjórnarandstaða, heldur reynt að taka afstöðu á grundvelli þeirra efnisþátta sem fyrir liggja. Engu að síður var gengið í það af fulltrúa Alþfl. í nefndinni að krefjast akvæðagreiðslu um að frv. um náttúruvernd yrði tekið út úr nefndinni án þess að tækifæri gæfist þar til þess að skoða þær brtt. sem fulltrúi Alþfl. lagði fram í nefndinni. Það er þess vegna ljóst, virðulegi forseti, að því miður var meðferð nefndarinnar á frv. um náttúruvernd á þann veg að hér verður að fara fram í þingsalnum að verulegu leyti sú umræða sem ella hefði farið fram í nefndinni. Þetta vildi ég að hæstv. forseti vissi.
    Síðan hefur það gerst með 3. dagskrármálið, embættisfærslu umhvrh., að það er nánast að verða einsdæmi í þingsögunni og er alltaf sífellt að safnast fleiri og fleiri einkenni í þá sögu. Við þekkjum öll að ríkisstjórnarmeirihlutinn ætlaði sér að fella málið hér við 1. umr. en það tókst ekki. Síðan var þess krafist í nefndinni að það fengi enga umfjöllun þar. Síðan er málið sett í gær eitt mála á dagskrá fundar sem átti að vera í gær, það var ekkert annað mál á dagskránni, hæstv. forseti. Nú, allt í einu kemur það í ljós að það er ekki lengur brýnt að hafa þetta mál í forgangsröð, embættisfærsla umhvrh., heldur er það sett á eftir máli sem ljóst er að mun verða lengi rætt hér í þinginu. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forseta: Er þetta gert samkvæmt ósk hæstv. umhvrh. eða er það forseti sem einn og sér algjörlega án nokkurra tilmæla hefur tekið þessa ákvörðun um röð mála á dagskránni í dag? Ég tel afar brýnt, virðulegur forseti, að fá skýr svör við því.