Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 13:56:31 (4256)

[13:56]
     Kristinn H. Gunnarsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Eins og aðrir þingmenn sem hér hafa tekið til máls í þessari umræðu, þá undrast ég þann hægagang sem hér er allt í einu orðinn á þessu máli sem áður þurfti slíkan forgang í meðförum þingsins og sérstaklega þingnefndar að menn gripu til þess ráðs að beita alveg sérstöku ofbeldi til þess að koma í veg fyrir að málið stöðvaðist í nefndinni nægilega til þess að þingmenn gætu skoðað það og kynnt sér. Ég verð því að segja það að ég er mjög undrandi á þessari afstöðu forseta sem ég að vísu skil þannig í ljósi þeirra upplýsinga að þetta sé gert í samráði við umhvrh., sem sé vegna þess að það er umhvrh. sem óskar eftir því að umræðan fari ekki fram núna heldur verði annað mál tekið á undan.
    Maður hlýtur að velta því fyrir sér: Hvers vegna vill hæstv. umhvrh. ekki að þetta mál, þáltill. um skipun rannsóknarnefndar, verði rætt núna heldur síðar? Sérstaklega í ljósi þess að í gær var lagt til að þetta yrði eina mál á þriðja og síðasta fundi á þeim degi sem var nokkuð fyrirséð að yrði haldinn eftir kl. 5 þegar landsmenn eru hættir að geta fylgst með sjónvarpsútsendingum héðan frá Alþingi. Getur það verið að það séu áform umhvrh. með stuðningi forseta að reyna að leiða þetta þingmál þannig að það verði til umræðu utan þess tíma þegar landsmenn eiga þess kost að fylgjast með umræðu í gegnum sjónvarp? Er hæstv. umhvrh. hræddur við að mæta okkur í umræðu um þetta mál í viðurvist þjóðarinnar? Eða vill hann ræða málið hér á nánast lokuðum fundum?