Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 14:11:10 (4263)


[14:11]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hef staðið í þeirri meiningu, ég hef talið hingað til að framsaga fyrir málum hér á Alþingi frá nefnd sé til þess að gera þingheimi grein fyrir viðkomandi máli og rökstyðja sínar tillögur því að það er nú svo að þó að nefndarmönnum séu mál sæmilega kunn, þá eru þeir ekki einir um afgreiðslu mála heldur er einmitt framsaga og greinargerð fyrir málum hér í þinginu til þess að þingheimi megi vera ljóst hvað er á ferðinni, þingmenn séu settir inn í málavöxtu. Og þegar er staðið þannig að þessu máli

að það er tekið út úr nefnd með mjög óvanalegum hætti, þá skyldi maður ætla að framsögumaður þyrfti m.a. að skýra það og þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í nefndinni og hvers vegna þessi afar óvenjulegi háttur var viðhafður í þingnefnd. Svo kemur framsögumaður meiri hlutans hér og svarar nánast skætingi, að þetta sé eitthvert einkamál mitt að kynna mér viðkomandi þingmál og það varði ekki aðra. Það er sannarlega ekki útlit á því að hér fylgi mikið hugur máli, enda er það ljóst að þessi vinnubrögð, sem hæstv. umhvrh. stendur fyrir og sendir fram þennan hv. talsmann sinn í nefndinni, njóta ekki allsherjarhrifningar. Ég er viss um það að þau njóta engrar allsherjarhrifningar stjórnarliða hér á Alþingi. Það væri a.m.k. fróðlegt að heyra það hvort það sé einhver almennur stuðningur við vinnubrögð af þessu tagi og málafylgju eins og hér á sér stað, að lítilsvirða þingið þegar gerð er grein fyrir mjög veigamiklu máli, hvaða skoðun sem menn hafa á brtt nefndarinnar og frv. í heild. (Forseti hringir.)
    Ég tel þetta mjög alvarlegt, virðulegur forseti, hvernig hér er á máli haldið af talsmanni meiri hluta umhvn. þingsins.