Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 14:20:49 (4267)


[14:20]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Hér talar formaður einnar mikilvægustu nefndar í þinginu, efh.- og viðskn., Jóhannes Geir, og ég verð að segja alveg eins og er að ég varð nokkuð undrandi á ræðu hans því að ef ætti að fylgja því sem hann telur eðlilegt í efh.- og viðskn. sem fjallar um skattamál, efnahagsmál og fjölmargt annað þá væru vinnubrögðin þannig í nefndinni að stjórnarmeirihlutinn legði fram brtt. við skattamál og alla efnisþætti málsins og þær væru aldrei ræddar í nefndinni heldur færi bara nokkrum mínútum síðar fram atkvæðagreiðsla um að taka málið út. Það var það sem gerðist í þessu máli, hv. þm. Það þýðir ekkert fyrir þingmanninn að hrista höfuðið yfir því vegna þess að hann var ekki í umhvn. og var ekki viðstaddur.
    Hér er verið að fara inn á þær brautir að brtt., ítarlegar og langar, eru lagðar fram í nefndinni af fulltrúa ráðherrans og það gefast ekki einu sinni 5 eða 10 mínútur til að ræða þær heldur er málið umsvifalaust tekið út. Og að vitna svo í nefndarálitið og segja að þær séu skýrðar þar er auðvitað að halda því fram að útskýringar meiri hluta á þingi dugi sem eintal. Það gerir það ekki, hv. þm., og það eru rökin fyrir því að hafa verið um áratugi, meira en 100 ár hér í þinginu, að mæla eigi einnig fyrir nefndaráliti til þess að umfjöllun geti farið fram í heyranda hljóði eins og sagt var á Alþingi 1845, í heyranda hljóði til þess að umræðan sé á jafnréttisgrundvelli. Það eru rökin fyrir því að mælt sé fyrir nefndarálitum vegna þess að þeir sem t.d. utan þingsins eru og ég tala nú ekki um á sjónvarps- og tækniöld hafa auðvitað engan aðgang að þingskjölum sem hér liggja fyrir í

kannski 1--2 sólarhringa og geru gefin út í mjög takmörkuðu upplagi, enda þingmönnum bannað að senda þau þskj. út nema í mjög takmörkuðu upplagi. Og þingið er ekki bara vettvangur þingmannanna, hv. þm., heldur vettvangur þjóðarinnar til þess að vega og meta hluti. Og það eru rökin fyrir því að útskýra einnig nefndarálit í framsöguræðu sem er sérstaklega varin þannig, hv. þm., ég bið hv. þm. að hlusta, sem er sérstaklega varin þannig í þingsköpum að hafa meiri rétt hvað tíma snertir og þátttöku í umræðunni heldur en aðrir þingmenn þannig að ég er satt að segja dálítið undrandi á því að jafnágætur þingmaður og hv. 6. þm. Norðurl. e. skuli ekki skilja þau rök sem liggja að baki því að á þingi ber að flytja efnislega framsögu fyrir meiri hluta.