Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 14:26:51 (4270)


[14:26]
     Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það var vikið að þeim sem hér talar sérstaklega af ræðumanni sem fékk að flytja sitt mál eðlilega og átölulaust sem ég geri enga athugasemd við og mér finnst að hér sé vikið að það þýðingarmiklu máli að virðulegur forseti geti unnt okkur þingmönnum að reifa það fyrir hæstv. forseta. Ég tel að það sé afar mikill misskilningur að fara að ræða um störf Alþingis út frá einhverjum pappír í þingtíðindum. Hér var af hv. 8. þm. Reykn. réttilega að því vikið að þingið fer fram í heyranda hljóði og á að fara fram í heyranda hljóði og það er allt annað mál það sem snýr að einhverjum skrifræðistriðum sem varðar prentun á þingmálum. Auðvitað erum við ekki að biðja um það að nefndarálit séu lesin upp frá orði til orðs heldur að það sé flutt efnisleg framsaga fyrir mikilvægu máli, bæði fyrir þingmenn almennt og fyrir þá sem á hlýða, áheyrendur hér á þingpöllum og þá sem fylgjast með málum úti í samfélaginu.
    Þetta er auðvitað grundvallaratriði og ef formenn nefnda fara að tíðka það að stytta sér leið út frá einhverjum skrifræðissjónarmiðum í sambandi við frágang á þingtíðindum,

þá er kannski næsta lítil ástæða til að vera að halda uppi þinghaldi í heyranda hljóði, sýnist mér. Ég vil vekja athygli á því sem ætti að vera sjálfsagt mál að það skiptir auðvitað verulegu máli margt af því sem kemur fram í framsögu nefndarmanna eða þeirra sem annast framsögu fyrir nefnd og nefndarálitum þar sem sú túlkun kemur næst nefndarálitinu sjálfu hinu prentaða í sambandi við álitaefni sem upp kunna að koma varðandi þau lög sem kunna að verða sett á grundvelli þessa álits. Þetta eru því mjög mikilvæg efnisatriði að ræða að mínu mati og ég get ekki látið því ómótmælt að það sé vikið að því í framhaldi af þeim eindæmum sem hér gerðust að mínu mati þegar hér er hrist fram úr ermi á 3--4 mínútum framsaga fyrir fjölda brtt. á stjfrv. eins og gerðist áðan.