Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 23:16:40 (4278)

[23:16]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég hef reynt að fylgjast með framgangi þessa máls í gegnum þingið og ég verð að segja að allur málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar í þessu máli hefur valdið mér miklum vonbrigðum. Í sjálfu sér sé ég ekkert eftir því þó að hlutverki Náttúruverndarráðs sé breytt og hef reyndar margsinnis lýst því yfir í Alþingi að ég telji að það hafi þurft og þurfi að gera þó ekki sé út frá öðrum forsendum en þeim að stjórnsýslulega séð er Náttúruverndarráð hálfgerður bastarður í kerfinu eins og það er í dag og mun ég koma að því síðar.
    Það sem veldur mér hins vegar vonbrigðum er að mér finnst svipurinn á málinu ekki nógu góður. Hann ber allan keim af miðstýringu og í stað Náttúruverndarráðs og þess hlutverks sem það hafði stjórnsýslulega séð kemur Landvarsla ríkisins sem er þá annað miðstýrt apparat. ( KE: Enn þá miðstýrðara.) Enn þá miðstýrðara, segir hv. þm. Kann að vera en þó hefur það fram yfir Náttúruverndarráð að mínu mati að hafa þó í raun rétta stjórnskipulega stöðu, þ.e. að lúta ríkisstjórn og Alþingi sem Náttúruverndarráð gerir því

miður ekki.
    Það sem ég sakna hins vegar mest í þessu frv. og þessum málatilbúnaði er að finna ekki þann anda sem mér finnst að eigi að einkenna umræðu um náttúruvernd í dag og þeir sem hafa náð bestum árangri hvað það snertir eru allir sammála um að þurfi að vera. Það er ekki sá andi sem hefur svifið yfir vötnum Náttúruverndarráðs sem hefur verið: Vér einir vitum og vér einir erum færir um að umgangast þetta land. Við náum aldrei árangri á þessu sviði öðruvísi en með þeim hætti að við gerum og reynum að virkja sem flesta landsmenn sem náttúruverndarfólk.
    Ég hef stundum í þessu sambandi tekið litla dæmisögu úr íslensku þjóðlífi. Það er íslensk jeppamenning sem fyrir nokkrum áratugum, 20--25 árum, var á miklum villigötum, einkenndist af töffurum sem spændu upp um fjöll og firnindi og skildu eftir sig ljót sár í landinu. Þá voru uppi nokkuð háværar kröfur um það að banna umferð þessara farartækja utan vega. Sjálfsagt hefði sjálfsagt verið hægt að fara þá leið og þá værum við enn þann dag í dag að eltast við töffara sem létu ekki segjast. Það var hins vegar góðu heilli ekki gert og það sem hefur gerst þar er það sem ég vil kalla siðbót innan frá. Þessir aðilar tóku málin í eigin hendur og skipulögðu sig í samtökum sem hafa góða umgengni við landið að leiðarljósi og ég efast um að við höfum í annan tíma á jafnskömmum tíma eignast eins marga virka náttúruverndarsinna og í kringum þetta. Það sama má raunar segja um snjósleðaferðirnar og þann stóra hóp sem hefur í ferðum á þeim kynnst töfrum íslenskrar náttúru. Mér hefur hins vegar oft og tíðum fundist að þeir sem eru lengst á hinum pólnum séu þeirrar skoðunar að aðrir megi ekki umgangast landið en sú elíta sem telur sig eina hafa til þess burði og þá helst ekki nema berfætt. Eins og ég sagði, því miður er ekki þessi andi í þessu frv. Áfram er byggt á miðstýringu. Áfram er byggt á því að það sé miðstýrt kerfi sem eigi að hafa vit fyrir okkur.
    Virðulegur forseti. Við þingmenn í Norðurl. e. höfum fylgst á umliðnum árum með afar sérstöku máli í tengslum við þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum sem lýtur að því að duglegur hópur af ungu fólki í Héraði hefur haft áhuga af því að taka helminginn af túnunum í Ási, sem Náttúruverndarráð á og stendur á austurbakka Ásbyrgis, og koma þar upp golfvelli og maður skyldi nú halda að þessu hefðu allir tekið fagnandi. Það gerðu flestir aðilar en þar hefur þó verið einn þrándur í götu og það er Náttúruverndarráð. Það hefur vægast sagt verið skondið að fylgjast með vörn Náttúruverndarráðs í málinu.
    Fyrstu viðbrögðin voru þau að golfvellir væru í sjálfu sér lífshættulegir og af lýsingum að dæma var eiginlega ekki hægt að ætla annað en við golfvelli lægi fólk í valnum í stórhópum. Það var kannski hægt að sansa einhverja á að svo væri nú ekki.
    Þá kom næsta vörn. Hún var sú að samkvæmt alþjóðlegum stöðlum um þjóðgarða mætti ekkert gera þar, mest sem mætti gera til dægradvalar væri að skipuleggja gönguleiðir. Allt umfram það samræmdist því ekki. (Gripið fram í.) Það var nokkuð fljótlegt að finna dæmi þess, bæði vestan og austan hafs að inni í þjóðgörðum væru golfvellir. Þá var að finna eitthvað nýtt. Ég man eftir einum fundi sem við þingmenn kjördæmisins áttum með formanni og framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs. Þá var því borið við að það væri ekki víst að grassvörður í íslenskum túnum væri góður til þess að byggja á golfvelli. Bestu rökin fannst mér samt þau þegar Náttúruverndarráð vildi fara að hafa vit fyrir þessu unga fólki þarna og kom með tölulegar upplýsingar um að þetta yrði allt of dýrt og það mundi aldrei geta rekið þetta. Svona hefur verið farið úr einu víginu í annað og þó að ljóst sé að allir heimaaðilar séu málinu fylgjandi, ljóst sé að þetta sé að fullu samræmanlegt við starfsemi þjóðgarðsins, þó að ljóst sé að hæstv. núv. umhvrh. sé málinu fylgjandi kemst það ekki fram vegna þess að mátturinn og dýrðin er Náttúruverndarráðs. Það eru mál af þessum toga sem að mínu mati eru stórhættuleg fyrir skipulag náttúruverndar hér á landi og eru til þess fallin að grafa undan því sem ég er vissulega sammála að þarf að vera til staðar, eitthvert yfirvald í þessum málaflokki. En málatilbúnaður af þessum toga er ekki til þessa fallinn. Þannig stendur þetta núna.
    Náttúruverndarsinnar, þeir ,,einu og sönnu``, segja að nú þegar menn séu lausir við búskap þarna eigi landið bara að hverfa til síns uppruna aftur, það eigi ekkert að gera. Við

þekkjum það sem höfum staðið í einhverri ræktun hvað það tekur gamalgróin tún mörg ár að breytast aftur í lyngmóa eða hvað sem þarna var áður en því miður var þetta viðhorfið. Í staðinn fyrir að fagna því að áhugasamt fólk vilji koma með starfsemi, að mínu mati mjög náttúruvæna, koma með líf og fjör inn í þjóðgarðinn leggjast menn á allan hátt á móti þessu. Þetta er að mínu mati afar sorglegt dæmi um starfsemi yfirvalda í náttúruverndarmálum, ekki síst vegna þess að það vita allir sem hafa fylgst með að hönnun og uppbygging golfvalla í dag byggist á því að fella þá sem best að náttúru sinni og í raun að bæta landið. Ein hugmynd og ein tillaga Náttúruverndarráðs var sú að menn gætu bara farið með þetta út á Jökulsáraurana og grætt þá upp af því að mönnum væri svo mikið í mun að koma þessari starfsemi á.
    Virðulegur forseti. Það liggur fyrir að það er mjög vaxandi áhugi almennings um allt land til náttúruverndar og til landgræðslu. Við getum nefnt fjölmörg dæmi. Landbn. heimsótti fyrir rúmu ári áhugasamt og stórhuga fólk í Öræfasveit sem þar er búið að girða af stór svæði til uppgræðslu. Stórhuga aðilar norður í Þingeyjarsýslu eru að byrja að græða upp Hólasand sem er að vísu umdeilanlegt hvort er það verkefni á því svæði sem er brýnast en að mínu mati er engin ástæða til þess að leggja stein í götu þeirra sem vilja stuðla að slíku.
    Ég nefndi áðan samtök jeppaeigenda, 4x4, sem víða um land standa fyrir landgræðslustörfum. Það er þetta starf sem við þurfum að örva og efla. En mér finnst vanta inn í þetta frv. hvatningu í þá veru.
    Virðulegur forseti. Nú liggur ekki fyrir enn þá hver verða afdrif þessa frv. á þessu þingi og ég vil kannski segja að því miður stefnir allt í það að þessu kjörtímabili ljúki án þess að takist að endurskoða og breyta lögum um Náttúruverndarráð. Ég tel það í sjálfu sér miður en hlýt hins vegar að varpa allri ábyrgð á hæstv. ríkisstjórn og hæstv. umhvrh. hvað það snertir. Tækifærin hafa verið næg til þess að vinna að þessum málum og ef hefði verið staðið á annan hátt að.
    Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns að í grundvallaratriðum er ég sammála því að breyta verksviði Náttúruverndarráðs og færa það yfir til hins rétta stjórnvalds sem hlýtur að mínu mati að vera umhvrn. En ég ítreka það sem ég hef einnig sagt að það er miður að ekki skuli um leið vera stigin ákveðin skref til valddreifingar, ekki bara til nýrrar stjórnsýslu heldur ekki síður niður til grasrótarinnar, sem er kannski, virðulegi forseti, ágætis samlíking hvað þetta snertir þegar við ræðum um náttúruvernd og meira kapp lagt á það að virkja þá stóru hópa náttúruverndarfólks sem hvarvetna eru í þjóðfélagi okkar. Ekki síst vegna þess að það er nú einu sinni þannig að það eru ein af forréttindum þess að búa í þessu landi og vera Íslendingur að eiga greiðan aðgang að náttúru landsins og að mínu mati ber að stuðla að því að sem flestir hafi tækifæri til þess.