Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 23:40:11 (4286)



     Forseti (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Forseti vill í tilefni af athugasemdum hv. 3. þm. Vesturl. upplýsa hv. þm. um að oft hafa Íslendingar þurft að starfa á nóttunni þegar brýn nauðsyn krefur og þurfa enn að gera. Ég trúi því að hv. þm. séu reiðubúnir til að feta í fótspor þess dugnaðarfólks sem er tilbúið að leggja á sig mikilvæg störf í þágu þjóðarinnar og vilji ekki skorast undan þegar mikil þörf er á eins og núna. Það eiga aðeins sex hv. þm. eftir að ljúka ræðum sínum og ég vona að hv. þm. sýni þá almennu tillitssemi að gefa þeim kost á að flytja ræður sínar við samfellda umræðu sem hlýtur að vera réttlætismál þegar svo stendur á. Það er hárrétt hjá hv. þm. að það er stutt til þingloka og þess vegna getur það komið fyrir að við þurfum að ræða málin á nóttunni og ég vil eindregið hvetja hv. þm. til þess að vera reiðubúnir að feta í fótspor þeirra Íslendinga sem það gera gjarnan þegar mikið liggur við eins og nú.