Náttúruvernd

94. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 01:01:05 (4295)


[01:01]
     Jón Kristjánsson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Mér þykja það nokkur tíðindi ef hafðar eru uppi hótanir að skera niður umræður af hendi hæstv. forseta. Ég man einu sinni hér fyrir nokkuð mörgum árum þegar ég sat í þessum stól að á kvöldfundi orðuðu einhverjir óþolinmóðir menn við mig að beita þessari grein. Ég fór að kanna það --- mér fannst þetta heldur óyndisleg uppástunga --- hvenær henni hefði verið beitt síðast. Það var 30. mars 1949. Mér þætti nokkur tíðindi ef það væri farið að beita þessari grein í þessu máli. Hins vegar vil ég spyrja: Hver gegnir störfum forsrh. í veikindaforföllum hæstv. forsrh., getur forseti upplýst það? Ég spyr. Er ekki hægt að fá svör við því, herra forseti? Ég spyr vegna þess að ég get ómögulega skilið hvers vegna verið er að hamast í þessu máli á næturfundi vegna þess að hæstv. forsrh. hefur látið hafa það eftir sér í viðtali við eitt virðulegt blað hér í bæ í síðustu viku --- þar stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Davíð bendir á að fáir dagar séu eftir af þinghaldi og ef ekki sé sæmileg sátt um

afgreiðslu einstakra mála verði þau ekki afgreidd. Hann vill fremur að þingstörf verði í anda málfundar en lagasetningarvettvangs því það er hluti af verkefnum þingsins að vera málstofa og þó honum finnist kjaftagangurinn oft of mikill þá sé ágætt skömmu fyrir kosningar að þingið einkennist af skoðanaskiptum.``
    Síðan segir hann, innan gæsalappa: ,,Ég hef alltaf haft þá skoðun að afgreiða eigi færri frv. en fleiri.``
    Ég er svo sem ekki (Forseti hringir.) að telja eftir mér að . . .


    ( Forseti (GunnS) : Ég verð að biðja hv. þm. um að virða það að hans ræðutími er úti um fundarstjórn forseta.)
    hafa hér málfund að ósk hæstv. forsrh. en ég biðst . . .


    ( Forseti (GunnS) : Ég verð að biðja hv. ræðumann að ljúka máli sínu strax.)
    undan því á næturfundi að hafa uppi slíkan málfund en er fús til þess að degi til.