Náttúruvernd

94. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 01:11:13 (4299)

[01:11]
     Finnur Ingólfsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Mér er alveg fyrirmunað að skilja þennan óskaplega þvergirðingshátt hjá hæstv. forseta við stjórn fundarins í kvöld.
    Hv. stjórnarandstöðuþingmenn sátu á fundum í nefndum í kvöld, eins og í hv. heilbr.- og trn., og gerðu ekki athugasemdir við það þó að þingfundur stæði yfir á sama tíma og það ætti núv. hæstv. forseti að vita að þetta gerðu hv. stjórnarandstöðuþingmenn án þess að gera athugasemdir. Nú þegar óskað er eftir því að umræðu verði frestað um málið í nótt fyndist mér það ekki til mikils mælst þó hæstv. forseti yrði við slíkri ósk að gefa málinu góðan tíma. Eins og hæstv. forseti hefur ítrekað í umræðunni hvað eftir annað þá er þetta náttúrlega alls ekki góður tími til að ræða málin að næturlagi. Þetta er tími sem gert var ráð fyrir að málið yrði ekki á dagskrá þar sem gengið var út frá því að það yrði bara um kvöldfund að ræða. Nú er komið fram yfir miðnætti, klukkan er farin að ganga tvö og ekki leikur nokkur vafi á að þetta er orðinn næturfundur og það var ekki gengið út frá því þegar þingfundur hófst í dag að um næturfund yrði að ræða. Því er farið fram á það við hæstv. forseta að nú verði fundi frestað og málið tekið fyrir síðar og því gefinn góður tími til umræðu og langur tími til umræðu eins og ég skil hæstv. forseta að hann vilji gera það þannig að öll sjónarmið komi fram. En það er farið fram á það að umræðunni verði frestað á þessari nóttu.