Náttúruvernd

94. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 01:24:32 (4304)


[01:24]
     Jón Kristjánsson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvaða samkomulag hafi verið gert um fundarhald á þessum degi sem nú er reyndar liðinn og kominn nýr dagur. Það er náttúrlega alveg ómögulegt að það sé látið í veðri vaka að það verði kvöldfundur og síðan sé haldið áfram í rólegheitum fram á nóttina þegar þingmenn reikna með að fundi ljúki um miðnættið. Það hefur komið fram að nefndarfundir hafi verið boðaðir í fyrramálið. Nefndarfundir hafa verið boðaðir á þingtíma í dag alveg án hiks og ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi verið viðstaddur fundi um þinghaldið í gær. Hér hafa komið óskir frá formönnum þingflokka, m.a. frá formanni þingflokks Framsfl., um að fundi verði frestað. Þeirri ósk hefur ekki verið svarað. Ég vil inna eftir því hvort það á ekki að taka tillit til þeirra óska sem fram hafa komið eða a.m.k. gera fundarhlé og ræða málin. Það er það allra minnsta sem hægt er að fara fram á.
    Ég hlýt að benda á það virðingarleysi við Alþingi og málið í heild að ekki skuli nokkur einasti þingmaður frá öðrum stjórnarflokknum vera viðstaddur umræðuna. Það er ekkert leyndarmál að það er enginn sjálfstæðisþingmaður staddur í húsinu. Það er satt að segja með ólíkindum hvernig hv. stjórnarþingmenn hundsa umræður í þinginu dagana langa.