Náttúruvernd

94. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 01:34:03 (4309)


[01:34]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að það mál sem ég bar upp áðan sé upplýst þar sem hv. 2. þm. Austurl. upplýsti það og tók þar með ómakið af hæstv. forseta að enginn sjálfstæðismaður væri í húsinu og ég tel að það sé rétt. Ég reyndi að finna á skjánum einhverjar upplýsingar en það vill nú svo til að skjárinn er auður, ég veit ekki nákvæmlega hvað það merkir eða hvort það ber að leggja mjög djúpa merkingu í það. ( Gripið fram í: Það merkir að það er enginn sjálfstæðismaður við.) A.m.k. tókst mér ekki að fá þessar upplýsingar með öðruvísi en að biðja um þær úr þessum stóli. ( Gripið fram í: Það er ágætt að vera laus við þá.) Ég tel að þetta mál sé upplýst.
    Hér er kallað fram í að það sé ágætt að vera laus við þá. Ég er ekki alveg sammála og ég rökstuddi það. Ég hef ákveðnar spurningar. Ég veit ekki hvort röðin er að koma að mér eða ekki en ég hef rökstuddan grun um það og mun færa rök fyrir því þegar röðin kemur að mér að þeir séu efnislega ósammála grundvallaratriði sem í frv. sem er aukin miðstýring umhvrn. Þetta er mál sem ég tel útilokað að ræða nema hér séu einhverjir sjálfstæðismenn við. Ég vil því í mestu vinsemd beina þessu til hæstv. forseta sem ég vona að sé farinn að átta sig á því að hér er ekki mjög mikil gleði ríkjandi yfir þeirri stefnu forseta að ætla að halda áfram fundi. Ég vil benda hæstv. forseta á það að hann ásamt a.m.k. tveimur öðrum þingmönnum sem hér eru staddir á að vera mættur á fund klukkan 8.30 í fyrramálið í sjútvn. Venjan er sú og einkum í ljósi þeirrar gagnrýni sem sjútvrh. hefur haft á nefndina að það væri ágætt að mæta vel sofinn á fundi. Nú hefur sjútvrh. sakað sjútvn. um það að vera að reyna að hvetja hann til að brjóta lög. Ég held að það væri ljómandi gott ef við sem eigum að vera mætt á sjávarútvegsnefndarfundi í fyrramálið reyndum alla vega að ná svefni það sem eftir er nætur þannig að við komum sæmilega skýr í kollinum og þetta komi ekki fyrir aftur ef ásakanir hæstv. sjútvrh. eiga við rök að styðjast.