Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lausnar kjaradeilum

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 13:41:37 (4325)


[13:41]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég get auðvitað ekki komið í veg fyrir það að hv. þm. lýsi yfir furðu sinni, það er hans mál. En svarið varð auðvitað að vera samkvæmt sannleikanum. Ég vil hins vegar til þess að fyrirbyggja allan misskilning láta það koma fram að auðvitað hafa launþegasamtökin átt viðtöl við fulltrúa ríkisvaldsins og auðvitað hafa atvinnurekendasamtökin átt viðræður við ríkisvaldið. En það hafa engar sameiginlegar kröfur komið fram og ég tel að það sé forsenda til þess að hægt sé að ræða um aðgerðir ríkisvaldsins í tengslum við kjarasamninga að það komi fram sameiginlegar kröfur.
    Í öðru lagi er það ljóst að fjmrn. hefur slegið á og reiknað út þessar kröfur og við erum í viðbragðsstöðu hvenær sem er, en það liggur í eðli kjarasamninga að ekki sé verið af hálfu ríkisvaldsins að gefa út einhver boð um það fyrir fram hvernig það hyggist leysa samninga á milli aðila á vinnumarkaði og ég veit að hv. þm. sem er reyndur úr fyrri ríkisstjórnum skilur það.