Skýrsla um stöðu EES-samningsins

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 13:42:54 (4326)

[13:42]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það mætti eflaust spyrja margra spurninga í lok kjörtímabilsins um öll þau mál sem

virðast vera í lausu lofti þegar þessi hæstv. ríkisstjórn lýkur störfum. Undanfarið hafa verið fundir bæði utanríkisráðherra og forsætisráðherra Norðurlandanna um framtíð norræns samstarfs og er það vel þar sem ráðherrar hittast með fullri virðingu hver fyrir annars þjóð og ræða það samstarf við breyttar aðstæður.
    Annað er uppi á teningnum þegar um er að ræða Evrópusamstarfið og ég beini því fyrirspurn minni til hæstv. utanrrh. hvort til standi að fara frá þessu þingi án þess að gefa þinginu skýrslu um hvernig komið er fyrir samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í kvöldfréttum í gær mátti heyra umræðu frá Evrópuþinginu þar sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er kallaður skrímsli. Þar taka til máls menn eins og Willy De Clercq og Gary Titley, sem er formaður okkar í samstarfsnefnd Evrópusambandsins og EFTA, og þeir segja skýrt og skorinort að það verði að draga úr áhrifum Noregs, Íslands og þessara fáu EFTA-landa sem eftir eru og menn segja berum orðum að samningurinn sé út af fyrir sig einskis virði lengur.
    Nú er formaður okkar í EFTA-nefndinni ekki staddur hér og hefur það komið fyrir áður þannig að það er erfitt að fá nokkrar upplýsingar um þessi mál. Á vettvangi hins háa Alþingis er nær engin vinna lögð í þetta starf þannig að við sem eigum að heita að sitja í nefnd um þetta samstarf, og ekki einni heldur tveimur, fáum engar upplýsingar um það sem er að gerast þarna suður í Evrópu. Fundum hefur auðvitað fækkað og við höfum minni og minni tök á að fylgjast með framgangi mála þar. Ég ætla því að leyfa mér, hæstv. forseti, að spyrja hæstv. utanrrh.: Telur hann að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sé þegar einskis virði? Og hvernig ætla menn að bregðast við því áður en þessi ríkisstjórn fer frá völdum?