Skýrsla um stöðu EES-samningsins

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 13:49:55 (4329)


[13:49]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Þær ályktanir sem hv. þm. dregur af umræðum í Evrópuþinginu eru villandi og það er algjörlega ástæðulaust að hafa uppi einhverjar efasemdir um það að EES-samningurinn sé í gildi, hann er staðfestur. Það eru engir tilburðir um að segja honum upp. Ummæli einstakra þingmanna um það að við núverandi kringumstæður hefði Evrópusambandið ekki haft vilja til þess að gera slíkan samning er annar hlutur sem og ummæli einstakra þingmanna um það að þetta er óvenjulegur samningur í ljósi þess að hann er ,,dínamískur``, breytilegur og einstök aðildarríki áður í EFTA, nú aðilar að Evrópusambandinu hafa flutt sig hinum megin við borðið. Eftir standa færri ríki þannig að EFTA-stoðin er veikari en áður. Um það er ekkert meira að segja. Þetta eru sögulegar staðreyndir. Það er ekkert sem íslensk stjórnvöld þurfa að gera til þess að eyða efasemdum um EES-samninginn. Hann er í gildi, hann er virkur. Spurningin er einfaldlega um það hvort áhrif okkar á grundvelli samningsins séu nú minni en var vegna þess að við njótum ekki atbeina upphaflegra bandalagsþjóða okkar í EES.