Skýrsla um stöðu EES-samningsins

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 13:51:11 (4330)



[13:51]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Hvað er hér að gerast? Hæstv. utanrrh. hefur gert það að sínu máli á þessu kjörtímabili að fá fram samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Hér stendur hann svo örfáum mánuðum eftir að þessi samningur var samþykktur og segir: Hann er auðvitað máttlausari nú vegna þess að við höfum tapað ferðafélögum meðal EFTA-landanna. Það sem hann er að segja er að samningurinn er auðvitað afar lítils virði. Við erum þar gjörsamlega máttlaus aðili og afrek hæstv. utanrrh., þetta stóra afrek á kjörtímabilinu er því einfaldlega fallið niður með hliðum hans sjálfs og eftir stendur ekki neitt. Og það er ekki sérkennilegt þó að hæstv. ráðherra grípi svo til þess einasta haldreipis sem hann hefur. Án þess að segja að þetta hafi allt verið vitleysa, þá segir hann núna: Við verðum að ganga í Evrópusambandið. Hann á auðvitað enga kosti til að bjarga sér eftir alla þá orku, tímaeyðslu og orðaflaum sem við eyddum í þetta mál sem er svo þegar upp er staðið eftir örfáa mánuði frá samningnum einskis virði.