Fullgilding Haag-sáttmálans um málefni barna

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 13:53:50 (4332)

[13:53]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. dómsmrh. Á ráðstefnu Barnaheilla um mannréttindi barna 29. okt. sl. upplýsti hæstv. dómsmrh. að verið væri að leggja lokahönd á það verk að fullgilda Haag-sáttmálann frá 25. okt. 1980 um einkaréttarleg áhrif á brottnámi barna til flutnings milli landa. Ég hef spurt hæstv. dómsmrh. utan þingsalar um framgang þessa máls og hann hefur tjáð mér að því miður muni þetta mál tæplega komast á dagskrá á þessu þingi, bæði vegna þess að það er ekki frágengið að fullu og vegna þess skamma tíma sem eftir lifir þings. Það er mjög slæmt að vita af því, en úr því verður sjálfsagt ekki bætt úr þessu.
    Annað mál þessu tengt var afgreitt út úr allshn. með góðri sátt nú í morgun, en það voru breytingar á barnalögum sem hníga að hluta til í sömu átt og þessi samningur. Í athugasemdum við 2. gr. þess frv. er raunar tekið fram að ætlunin sé að fullgilda Haag-samninginn af Íslands hálfu. Og nú vil ég spyrja hæstv. dómsmrh.: Til hvaða ráðstafana hyggst hæstv. ráðherra grípa til þess að tryggja framgang þessa máls

þannig að ekki þurfi að koma til neinna frekari tafa við fullgildingu Haag-sáttmálans í upphafi næsta þings?