Staðan í kennaradeilunni með hliðsjón af afgreiðslu grunnskólafrumvarpsins

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 14:23:41 (4346)


[14:23]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Það eiga sér stað viðburðir á hv. Alþingi nánast í hverri viku. Mál eru illa unnin í nefndum sem gengur þvert á þá fyrirætlan sem fólst í nýjum þingskapalögum um að gera nefndir virkari og stytta umræður í þinginu.
    Maður veltir því fyrir sér hvernig bregðast skuli við og hver sé ástæðan, hvort ástæðan sé kannski sú að hv. þingmenn sem hafa ekki reynslu af þingstörfum eru gerðir að formönnum í nefndum. Mér hefur dottið í hug, hæstv. forseti, hvort það þyrfti kannski að efna til námskeiða í upphafi kjörtímabils til þess að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.
    Það er eins og hagsmunir hjá meiri hluta nefnda eða hugsanirnar séu þessar: Við höfum meiri hlutann. Það er bara tímasóun að vera að halda þessa fundi til þess að nefndin reyni að komast að sameiginlegri niðurstöðu. En það er hins vegar staðreynd að það ríkir nokkuð góð samstaða hjá þjóðinni vil ég meina um það að grunnskólinn verði færður að fullu yfir til sveitarfélaganna. En það er ekki sama hvernig það er gert. Af hálfu hæstv. menntmrh. og formanns menntmn. finnst mér nánast eins og það sé beinlínis lagt sig fram um að láta þetta mistakast. Samt er sagt í hinu orðinu að það þurfi að gera þetta í sátt við hagsmunaaðila, sátt við þá sem málið varðar.
    Hæstv. menntmrh. sagði t.d. aðspurður á fundi í menntmn. í gær að hann hefði aldrei haft frumkvæði að fundi með formönnum kennarafélaganna. Ég vil halda því fram að mannleg samskipti séu helmingurinn af því að ná saman um mál og ræða hæstv. menntmrh. áðan fullvissar mig enn frekar um það að hæstv. menntmrh. áttar sig ekki á mikilvægi þessara mannlegu samskipta. Það kemur mér reyndar á óvart vegna þess að ég þekki hæstv. menntmrh. svolítið persónulega og hélt að hann gæti alveg átt til takta sem gætu leitt til árangurs á þessu sviði. En það gerist að þegar tveir sólarhringar eru í verkfall kennara ákveður formaður menntmn., hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, að nýta sér meirihlutavald í hv. menntmn. til að taka út grunnskólafrv. og jafnframt að reyna að stefna að því að það verði að lögum á þessu þingi.
    Fulltrúar stjórnarandstöðunnar reyndu bæði með góðu og illu að sýna henni fram á að þetta væri eins og að kasta sprengju inn í þær samningaviðræður sem fara fram á milli ríkisvaldsins og kennara, fyrst og fremst vegna þess að réttindamál kennara eru óleyst og svo má líka benda á að það hafi verið tekið mjög lítið tillit til aðfinnslu kennarafélaganna um frv. Málið var engu að síður afgreitt í andstöðu við fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna. En ég vil reyndar segja það að það voru fremur rislágir hv. þm. stjórnarflokkanna sem tóku þátt í þessari afgreiðslu með hv. þm.
    Sveitarfélögin hafa lýst því yfir að þau vilja fá rekstur grunnskólans að fullu. Formaður Sambands ísl. sveitarfélaga sagði hins vegar á fundi með hv. menntmn. að hann hefði engar sérstakar áhyggjur af því þó að þetta gerðist ekki með lögum núna. Hins vegar þar sem málið væri það langt á veg komið mundi það ekkert stranda. Þessir aðilar, bæði sveitarfélögin og kennarar, settu fram skilyrði eða fyrirvara um samþykkt þess að grunnskólinn flyttist og því miður, hæstv. forseti, þá er vinnsla málsins ekki komin það langt

í þessari viku að ég get ekki séð að grunnskólafrv. verði afgreitt sem lög frá Alþingi.