Staðan í kennaradeilunni með hliðsjón af afgreiðslu grunnskólafrumvarpsins

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 14:57:28 (4354)


[14:57]
     Björn Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Það er mjög bagalegt þegar jafnmikilvæg mál og þessi verða bitbein vegna formsatriða en mér finnst að hv. stjórnarandstæðingar hafi frekar beint athygli sinni og gagnrýni að formsatriðum en efnisatriðum. Vissulega geta formsatriðin skipt mjög miklu máli og afgreiðsla mála úr nefndum er oft mjög viðkvæmt mál og ber að vanda hana eins og kostur er. En aðalatriðið í þessu máli er það að í hv. menntmn. kom aldrei fram sá efnislegi ágreiningur sem ætti að valda því að menn vildu ekki að þetta mál næði fram að ganga. Ég tel að meðferð nefndarinnar á málinu hafi verið þess eðlis og nægileg tækifæri hafi gefist til þess í málsmeðferðinni að koma fram með efnistriði sem leiddu þá í ljós hvort unnt væri að nálgast málið þannig að samkomulag tækist en hin efnislegu ágreiningsefni voru mjög léttvæg að mínu mati og menn hafa alla tíð í þessu máli fest sig frekar við formsatriði.

    Nú er það svo að auðvitað skiptir máli með hvaða hætti grunnskólinn er fluttur yfir til sveitarfélaganna, hvernig staðið er að réttindamálum kennara og hvernig staðið er að tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga í tengslum við málið. Það sem við í meiri hlutanum í hv. menntmn. gerðum var að bæta inn í lokaákvæði frv. texta sem tengir þessi mál öll saman þannig að komið var til móts við þessa gagnrýni og tekið á henni og þannig gengið frá málum að það er með engu móti unnt að halda því fram að að þessu formstriði hafi ekki verið hugað af nefndinni eins og tillögur meiri hlutans bera með sér.
    En þá eru fundin út önnur ádeiluefni sem snerta ekki málið sjálft, kjaradeilu kennara, en það kom fram hjá kennurum að þeir geta samið um kaup sitt og kjör hvað sem líður frv. en hv. stjórnarandstæðingar kjósa þá að tengja þetta við kjaradeiluna og áður hafa þeir kosið að tengja það við hvernig ráðherrar stóðu að skipun nefndar sem undirbjó málið á prýðilegan hátt. Það deilir enginn um að málið hefur verið vel lagt fyrir. En efni málsins er það að menn eru sammála um að það sé skynsamlegt skref að flytja grunnskólann yfir til sveitarstjórnanna. Það er dapurlegt að vegna annarra atriða skuli menn standa nú í þessum deilum og ætla að reyna að koma í veg fyrir að þessi stóri áfangi náist. Einhver verður að stíga fyrsta skrefið. Einhvern tíma verður að stíga fyrsta skrefið. Með þessu er fyrsta skrefið stigið, skapaðar forsendur fyrir því að menn geti tekið á tekjuskiptingarmálunum, skapaðar forsendur fyrir því að menn geti tekið á réttindamálunum þannig að menn viti um hvað málið snýst og Alþingi á náttúrlega að stíga fyrsta skrefið með ákvörðun sinni. Alþingi á ekki að hengja sína ákvörðun og enginn vilji kom fram í hv. menntmn. sem gekk út á það að ákvörðun Alþingis ætti að hanga á ákvörðunum einhverra annarra. Þvert á móti ætti að vera skýrt hvað Alþingi hefði ákveðið. Með þessu frv. eins og það liggur fyrir og brtt. hv. menntmn. er vinnulagið ákveðið, efni málsins er ákveðið án þess að Alþingi sé að ganga á rétt nokkurs sem þarf að koma að málinu. Mér finnast þessar málsástæður hv. stjórnarandstæðinga því frekar veigalitlar um leið og ég tek undir það með þeim að auðvitað kann formið og afgreiðsla mála úr nefndum að skipta máli í umræðum og í starfsháttum á Alþingi en þegar um stórmál er að ræða verðum við líka að geta vikið slíkum atriðum til hliðar og vikið að efni málsins og séð og litið á það hvernig við greiðum úr því og um það var ekki neinn stór ágreiningur og ég vil segja næsta lítill ágreiningur í hv. menntmn., ágreiningur sem vafalaust hefði verið unnt að jafna ef menn hefðu viljað.