Skýrsla umboðsmanns Alþingis

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:10:57 (4357)

[15:10]
     Sólveig Pétursdóttir :
    Virðulegi forseti. Skýrsla umboðsmanns Alþingis var tekin fyrir á fundi allshn. 31. janúar sl. Á fundinn kom Páll Hreinsson aðstoðarmaður umboðsmanns til viðræðna við nefndina um efni skýrslunnar. Rætt var sérstaklega um það sem fram kemur í skýrslunni um að lög sé oft óskýr um stöðu stofnana og embætta í stjórnsýslukerfinu og það valdi vafa á því hvort aðila máls er heimilt að kæra ákvörðun hlutaðeigandi stjórnvalds til ráðuneytis, svo og hverjar stjórnarheimildir ráðherra séu gagnvart umræddu stjórnvaldi. Á fundinum kom fram að mikilvægt er að lög séu skýr hvað varðar kæruleiðir en meginreglan er sú að menn geta kært ákvörðun lægra setts stjórnvalds til æðra stjórnvalds. Oft leiki vafi á þessu í nýjum lögum og það sé sérstaklega áberandi í sveitarstjórnarlögunum, þ.e. hvort hægt sé að kæra ákvarðanir sveitarstjórna og með hvaða hætti. Skortur er á að fjallað sé nægilega vel um þetta við samningu frumvarpa og við lagasetningu. Í Danmörku er tekið af skarið í sambærilegum lögum og kveðið beint á um hvaða ákvarðanir séu kæranlegar og með hvaða hætti.
    Hugtakanotkun er líka oft á reiki þegar um er að ræða tengsl og stöðu stofnana og embætta. Dæmi um það er þegar kveðið er á um að stjórnvald starfi í umboði annars stjórnvalds. Þá vakna spurningar um hvort þarna séu á ferðinni valdframsal eða hvað sé í raun átt við með þessu orðalagi.
    Dæmi um þess háttar ákvæði eru 1. mgr. 2. gr. þjóðminjalaga, nr. 88/1989, en þar segir að þjóðminjaráð fari með þjóðminjavörslu í landinu í umboði menntmrh. og í 1. mgr. 3. gr. sömu laga segir að fornleifanefnd fari með yfirstjórn fornleifavörslu og fornleifarannsóknir í landinu í umboði þjóðminjaráðs. Ekki er nægilega skýrt að mæla fyrir um tengsl stjórnvalda með þessum hætti.
    Til þess að skýra hugtakanotkun í stjórnsýslu almennt er sá kostur fyrir hendi að bæta skilgreiningu við stjórnsýslulögin. Hins vegar mætti hugleiða hvort Alþingi eigi að taka af skarið, t.d. með því að setja sér reglur við lagasetningu sem aftur mundi nýtast við reglugerðarsetningu. Samræmi fengist þannig í hugtakanotkunina og þar af leiðandi ætti réttarstaðan að skýrast t.d. hvað varðar kæruleiðir í stjórnsýslu. Því má bæta við að fram kom hjá aðstoðarmanni umboðsmanns að fyrir utan eiginleg mál kæmi embætti umboðsmanns Alþingis borgurum til aðstoðar með hvert þeir ættu að leita ef vafi léki á hvert væri æðra stjórnvald. Borgararnir fengju takmarkaða leiðsögn í stjórnsýslunni sjálfri.
    Það hlýtur að teljast til grundvallaratriða í stjórnsýslu að þessi mál liggi ljós fyrir þannig að borgararnir þurfi ekki að eyða tíma og fyrirhöfn í að leita að réttu stjórnvaldi til að fá úrlausn mála sinna. Kemur fram sú skoðun umboðsmanns í skýrslu hans að hann telji mikilvægt að kæruheimildir séu skýrar, einfaldar og aðgengilegar enda um að ræða mikilsvert úrræði fyrir borgarana sem grundvallist á sjónarmiðum um aukið réttaröryggi.
    Auk þess að fjalla um ársskýrslu umboðsmanns hefur allshn. fengið til meðferðar hjá forsætisnefnd álit umboðsmanns er varðar meinbugi á lögum, sbr. 11. gr. laga um umboðsmann Alþingis, en þar segir að verði umboðsmaður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum skuli hann tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn. Álit þessi eru nú orðin allmörg og hefur allshn. fjallað um þau eftir föngum. Til þess að stuðla að því að brugðist verði við álitum þessum hefur nefndin tekið upp þá venju að senda þar sem við á bréf til ráðuneyta þar sem leitað er eftir upplýsingum um hvað þau hafi aðhafst í málinu. Að jafnaði hafa svör borist frá ráðuneytum og er það skoðun allshn. að með þessum hætti verði aukinn sá þrýstingur að bætt verði úr þeim annmörkum sem fyrir hendi eru enda hafa verið gerðar mikilvægar úrbætur. Þetta er að sjálfsögðu mikilvægt atriði.
    Á fundi nefndarinnar kom einnig fram ánægja af hálfu umboðsmanns með tengsl embættisins við hið háa Alþingi.
    Þessi skýrsla er mjög ítarleg og þar komu margir merkilegir hlutir fram en ég vil að lokum, virðulegi forseti, benda á það sem segir hér í formála skýrslunnar, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Hinn 1. janúar 1994 gengu í gildi stjórnsýslulög, nr. 37/1993, og 30. maí 1994 lög nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu. Þessi lög efla rétt einstaklinga og hafa því mikla þýðingu fyrir starf umboðsmanns Alþingis, svo sem það hefur verið ákveðið 2. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. Má í rauninni fullyrða að lög þessi marki þáttaskil í þeim efnum.``