Hrefnuveiðar

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:34:06 (4361)


[15:34]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Hv. málshefjandi hefur ágætlega gert grein fyrir aðdraganda þessa máls, en eins og fram kom í máli hans skilaði sérstök nefnd sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka undir forustu hv. 1. þm. Vestf. áliti sl. vor þar sem talið var eðlilegt að Íslendingar hæfu á ný hvalveiðar í atvinnuskyni. Í nefndarálitinu segir: ,, . . .  þó þannig að farið sé að öllu með gát. Gætt sé heildarhagsmuna Íslands með tilliti til stöðu landsins á alþjóðavettvangi, markaða fyrir hvalaafurðir og áhrifa hvalveiða á aðra útflutningsmarkaði landsmanna.``
    Nefndin taldi eðlilegt að byrja á hrefnuveiðum og takmarka leyfi í upphafi við sölu afurða á innanlandsmarkaði.
    Það er rétt sem fram kom hjá hv. málshefjanda að á sl. hausti lagði ég fyrir ríkisstjórnina till. til þál. sem byggðist í öllum meginatriðum á nefndaráliti því sem þingmannanefndin skilaði sl. vor. Sú tillaga var til umfjöllunar í ríkisstjórninni. Það er rétt að taka það skýrt fram að ég hef litið svo á að hvalveiðar yrðu ekki hafnar á ný nema Alþingi samþykkti ályktun þar að lútandi. Það er að vísu svo að samkvæmt lögum hefur sjútvrh. heimildir til þess að gefa út leyfi til hvalveiða en á sínum tíma kaus ríkisstjórn Íslands að leggja fyrir Alþingi þá ákvörðun hvort mótmæla ætti hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins eða ekki. Formlega hafði ríkisstjórnin vald til þess að taka afstöðu til þess sjálf á þeim tíma en hún kaus að leggja það fyrir Alþingi og fyrir þá sök hef ég litið svo á að hvalveiðar yrðu ekki hafnar á ný nema Alþingi hefði samþykkt um það ályktun sem heimilaði sjútvrh. að beita gildandi lagaákvæðum.
    Það varð sammæli sjútvrn. og utanrrn. eftir að tillaga af minni hálfu hafði verið lögð fram og greinargerðir af hálfu utanrrh. að skipaður var starfshópur embættismanna á vegum þessara tveggja ráðuneyta sem unnið hafa að skoðun og athugun málsins síðan. Og á ríkisstjórnarfundi í gær lagði ég fram að nýju endurskoðaða útgáfu að till. til þál. sem samkomulag varð um í starfshópi þessara tveggja ráðuneyta. Þar er gert ráð fyrir því að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að hvalveiðar geti hafist á ný að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar og skýrslu starfshóps embættismanna um halveiðihagsmuni Íslendinga á alþjóðavettvangi og það er ráð fyrir því gert að þær skýrslur liggi fyrir í mars 1996. Það er jafnframt gert ráð fyrir því að fullnægt sé skilyrðum og alþjóðlega viðurkenndum reglum um eftirlit með hvalveiðum og ég geri ráð fyrir því að í framhaldi af samþykkt ríkisstjórnarinnar í gær um þetta efni fái þingflokkar ríkisstjórnarinnar þetta til umfjöllunar á þingflokksfundum sínum í dag. Þannig hefur verið haldið á málinu og ríkisstjórnin fyrir sitt leyti lagt til að þáltill. af þessu tagi verði lögð fyrir Alþingi. Það er í fullu samræmi við nefndarálit þingmannanefndarinnar frá því í vor sem leið þó að útfærsla tillögunnar sé með nokkrum öðrum blæbrigðum en í upphafi var ráðgert.