Hrefnuveiðar

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:39:05 (4362)


[15:39]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þetta mál er búið að vefjast allmikið fyrir ríkisstjórninni allt þetta kjörtímabil. Sú nefnd sem minnst var á hér áðan og ráðherra fékk til að fjalla um málið var sammála um að hefja ætti hrefnuveiðar a.m.k. fyrir innanlandsmarkað til að byrja með og Hafrannsóknastofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sé alveg ótvírætt að hrefnustofninn við Ísland þoli veiðar. Hún benti á í því sambandi að það sé hæfilegt að veiða 120--200 dýr. Ég skil satt að segja ekki þennan seinagang alltaf hjá hæstv. ráðherra og nú er alveg greinilegt að hann er búinn að fresta þessu máli fram á næsta ár, fram á árið 1996. Það er auðvitað alveg sjálfsagt að fara að öllu með gát en það er alveg ótvírætt að það er óhætt samkvæmt öllum vistfræðilegum rannsóknum að hefja veiðar. Við verðum líka að skoða það að samkvæmt því sem sjómenn og þeir sem á hafinu eru segja þá er allt orðið svo vaðandi í hrefnu að það er stundum ekki hægt að komast að því að veiða neinar aðrar tegundir fyrir þessari hrefnu. Ég vil skora á hæstv. ráðherra að hafa svolítið meiri hraða á í þessum málum en hingað til hefur verið gert.