Hrefnuveiðar

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:45:22 (4365)


[15:45]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Mig langar til að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvað ríkisstjórnin hafi gert til að vinna heimavinnuna sína varðandi kynningu málsins erlendis. Það er alveg ljóst að það er hluti af því dæmi sem við erum að ræða hér enda kom það glöggt fram bæði í máli hæstv. ráðherra og hv. málshefjanda að það var beinlínis í verkahring ríkisstjórnarinnar að athuga það og mig langar að spyrja hvað því máli líði. Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að það er alveg ljóst að þau rök sem hafa komið m.a. frá sölusamtökum um að e.t.v. þurfi að fara sér hægt hér, eru ekki vistfræðileg, það eru ekki líffræðileg rök sem eru þarna heldur efnahagsleg rök og ég tel að með góðri vinnu megi alveg ná árangri þannig að við séum ekki að taka þá óþarfa áhættu sem við gerum ef við sinnum ekki þessum málum svo sómasamlegt sé. Þetta kom glöggt fram þegar utanrmn. fór til Bandaríkjanna sl. vor og þá var mikið rætt um hvalveiðar og ég held að það sé alveg áreiðanlegt eftir þá ferð að með góðri og öflugri kynningu á málstað okkar þá er hægt að ná töluverðum árangri. Við munum aldrei sannfæra alla en það sem við getum gert er að fylgja eftir okkar málflutningi og þá gjarnan í samráði við aðra sem eiga svipaðra hagsmuna að gæta og þetta ber okkur að sjálfsögðu að gera. Hvað er ríkisstjórnin að gera í þessu máli?