Hrefnuveiðar

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:56:25 (4370)


[15:56]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það eru vissulega mjög mikil vonbrigði að ekki skuli takast að hefja hrefnuveiðar þegar á þessu ári. Ég verð að játa það að eftir þær umræður sem urðu um þessi mál á sl. hausti þegar í ljós kom að það var mikill stuðningur við þetta sjónarmið hér á Alþingi og við vitum að þetta sjónarmið nýtur mikils stuðnings úti í þjóðfélaginu, þá hafði ég satt að segja vænst þess að það mundi takast að hefja hrefnuveiðar og jafnvel hvalveiðar í vísindaskyni að einhverju marki á þessu ári.
    Það vita allir og hefur margoft komið fram og því hefur raunar aldrei verið mótmælt að rök hníga til þess að hefja þessar veiðar. Það eru líffræðileg rök, það eru vísindaleg rök, það eru öll rök sem menn skoða í þessu sambandi sem segja okkur að það sé sjálfsagt og eðlilegt að hefja hrefnuveiðar tafarlaust. Það er ekkert sem segir að það geti skaðað þennan stofn eða haft nokkur áhrif nema þá jákvæð á lífríkið í sjónum í kringum landið þannig að þetta eru auðvitað himinhrópandi rök. Maður hefði þess vegna gert ráð fyrir því að það mætti takast á þessu ári að hefja veiðar að nýju og ég er alveg sammála því sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði hér áðan að eftir því sem þetta mál dregst lengur þeim mun verra verður að koma því aftur af stað.
    Ég lít hins vegar þannig á að sú þáltill. sem hæstv. sjútvrh. kynnti að hefði orðið samkomulag um í ríkisstjórninni og ætti að kynna í stjórnarflokkunum núna á eftir væri vísbending um ásetning um það að menn vildu hefja þessar veiðar að nýju. Ég lýsi hins vegar aftur yfir sárum vonbrigðum mínu yfir því hversu seint þetta er á ferðinni og hversu seint ætlar að ganga að hefja þessar veiðar að nýju. Ég tek undir með hv. 4. þm. og 5. þm. Norðurl. e. um að það er ekki hægt að þeim hrefnuveiðisjómönnum sem urðu fyrir því að þeir voru sviptir raunverulega lífsbjörginni að hluta með því að taka af þeim réttinn til þess að veiða hrefnuna skuli ekki vera útvegaðar einhverjar bætur til þess að komast yfir þetta tímabil. Þeir hafa orðið fyrir mjög miklum tekjumissi og möguleiki þeirra til þess að afla sér tekna er minni vegna þess að veiðireynsla þeirra skertist í þorski meðan þeir voru að veiða hrefnuna.