Skýrsla umboðsmanns Alþingis

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 18:02:21 (4373)

[18:02]
     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Enn á ný hlýtur það að vekja athygli okkar þingmanna þegar við fjöllum um skýrslu umboðsmanns Alþingis að málafjöldi fer vaxandi og nærfellt 20% aukning á fjölda mála frá árinu á undan. Fyrir mér er það alvarlegt umhugsunarefni hvers vegna það er að nærfellt öll ráðuneyti, hvers konar viðfangsefni sem þau hafa í stjórnkerfinu, skuli sæta alvarlegum ábendingum umboðsmanns um framgöngu þeirra og ákvarðanir sem hafa bein áhrif á hag og möguleika einstaklinga og fyrirtækja í landinu. Þessar athugasemdir eru allar varðandi það hvernig þau framkvæma raunverulegan stjórnsýslurétt.
    Eitt ráðuneyti hefur sérstaklega vakið athygli mína hvað þetta varðar í skýrslunni nú og raunar líka í skýrslu fyrra árs sem við ræddum fyrir um það bil ári síðan. Það er utanrrn. sem samkvæmt sérstökum ákvæðum í varnarsamningi okkar og Bandaríkjanna fjallar sérstaklega um leyfi fyrirtækja til að sinna viðskiptum við varnarliðið auk þess sem það hlýtur að fjalla um ráðningar eða val einstakra manna sem starfsmanna við ríkisstofnanir á varnarsvæðunum en ekki einungis þeirra stofnana sem sinna varnarsamstarfinu heldur einnig stofnana sem sinna eðlilegum flugsamgöngum, eins og við sögðum fyrr í dag, á viðskiptalegum forsendum. Mér finnst það skipta máli að í skýrslu umboðsmanns eru nú atriði sem ég hef aldrei séð áður. Umboðsmaður sér sérstaklega ástæðu til að taka upp í sérstökum kafla skýrslunnar framhaldsumræðu um álit sem hann taldi sig hafa gert endanlega grein fyrir í skýrslu fyrir um það bil ári síðan vegna þess að við umræðu um þá skýrslu viðhafði hæstv. utanrrh., sem því miður er ekki hér í salnum, orð sem kölluðu á framhaldsathugun af hálfu umboðsmanns. Það er stórmerkilegt að það skyldi koma fram í þeim gögnum og þeim orðum sem umboðsmaður viðhefur að þar greindi hæstv. utanrrh. frá því að hann hefði í höndum bréf varðandi mál sem álit umboðsmanns frá árinu áður hafði fjallað um, mál sem þá var orðið nærfellt fjögurra ára en bréfið sem ráðherra nefndi um það bil ársgamalt en reyndist samt sem áður skrifað löngu eftir að málinu lauk. Mér finnst þetta stórfurðulegar athafnir og stórfurðuleg framkvæmd á stjórnsýslurétti sem varðar rétt borgara, einstaklinga og fyrirtækja til að njóta jafnræðis, til að njóta samræmis, til að vera bornir saman á mælikvarða sem þeir vita fyrir fram hverjir eru. Og einmitt þessi atriði eru þau sem umboðsmaður Alþingis hefur gert stóralvarlegar athugasemdir við, framkvæmd utanrrn. undir stjórn hæstv. núv. utanrrh. enn og aftur.
    Vegna þess sem ráðherra hefur sagt um þessi mál fyrr á þingi verður að taka fram, það geri ég a.m.k., að þó að hann hafi sagt að slíkar athafnir hafi hann gert vegna slæms atvinnuástands á Suðurnesjum þá hlýt ég að taka fram að það virðist mér vera fyrirsláttur vegna þess að því fer fjarri að ákvarðanir sem hann hefur framkvæmt á þeim forsendum hafi bætt hag Suðurnesjamanna sem eiga skipti við eða starfa fyrir þá aðila sem um ræðir, varnarliðið eða stofnanir í kringum varnarstarfsemina. Mér finnst skipta miklu meiri fyrir Suðurnesjamenn sem borgara, sem einstaklinga, sem eigenda að fyrirtækjum sem eru nánast einu tekjumöguleikar þeirra sem þau eiga, að þeir njóti faglegrar meðferðar á umsóknum um störf eða leyfi til að starfa. Það verður að segjast að eftir þá reynslu sem þeir hafa af ákvörðunum af þessu tagi þá er þeim algerlega óljóst enn þá hvort til efnis verður tekið eða til athugunar kemur menntun þeirra, kunnátta, reynsla, tæknilegir burðir fyrirtækja þeirra eða sérhæfing í formi tækja eða annars búnaðar. Kannski skiptir meiru máli það sem við höfum haft á orði áður og ég vil leyfa mér að nefna, flokksleg tengsl við sjálfan ráðherrann en þessi faglegu atriði.
    Ég vil eindregið hvetja hæstv. utanrrh. til þess í þessari umræðu ef hann sér ástæðu til þess að svara orðum mínum að gera grein fyrir því hvort hann hyggst setja sjáanlegar, skiljanlegar og fyrir fram þekktar reglur fyrr en ákvörðun liggur fyrir í hverju tilviki um hæfi einstaklinga til starfa, um hæfi verktakafyrirtækja eða annarra til að eiga viðskipti við varnarliðið á Íslandi. Ég tel að þessa aðila og þá ekki síst Suðurnesjamenn skipti miklu að þarna verði faglegar ákvarðanir teknar á faglegum forsendum og samkvæmt venjum stjórnsýsluréttar.