Skýrsla umboðsmanns Alþingis

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 18:08:54 (4374)


[18:08]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Fyrir rúmu ári ræddum við á hv. Alþingi skýrslu umboðsmanns fyrir árið 1992. Þá barst m.a. í tal mál sem nú er gerð grein fyrir í skýrslu umboðsmanns fyrir árið 1993. Þetta mál fjallar um leyfisveitingu til þess að gera samninga um tiltekin verk við varnarliðið og sá aðili sem með þessi verk hafði farið var sviptur því leyfi og hann ásakar utanrrh. um valdníðslu. Umboðsmaður tekur undir með þeim sem kvartar og telur að utanrrn. hafi ekki sýnt fram á að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar fyrir ákvörðun ráðuneytisins að neita viðkomandi aðila um það að gera samninga við varnarliðið. Um þetta mál var fjallað þó nokkuð fyrir rúmu ári og ég ætla ekki að fara frekar út í þá umræðu að öðru leyti en því að við umræðuna komu fram frekari upplýsingar frá hæstv. utanrrh. Þetta varð tilefni til þess að umboðsmaður Alþingis skrifaði utanrrh. bréf sem hljóðar svo að hluta til:
    ,,Við umræður á Alþingi 18. nóv. 1993 um skýrslu umboðsmanns Alþingis komi til umræðu álit mitt frá 30. ágúst 1993 í máli [A] hf., (nr. 630/1992). Í máli yðar kom fram að ástæðan fyrir því að [X] hf. var úthlutað þessari vinnu hefði verið óvenjubágt ástand á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysið var orðið tvöfalt á við það sem það var að landsmeðaltali.``
    Síðar í bréfinu segir: ,,Að ofangreindu tilefni er þess óskað, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti yðar skýri hvers vegna ekki var í bréfi ráðuneytisins frá 6. ágúst 1992 gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem nú er haldið fram að legið hafi umræddri ákvörðun til grundvallar. Þá óska ég einnig upplýsinga um það hvort fleiri sjónarmið sem enn hefur ekki verið gerð grein fyrir hafi komið til athugunar við nefnda ákvörðun.``
    Af lestri skýrslu umboðsmannsins verður ekki séð að hæstv. utanrrh. hafi gert fullnægjandi grein fyrir þessu máli eða svarað athugasemdum umboðsmanns. Þegar maður veltir þessu máli fyrir sér eru tveir möguleikar í stöðunni. Annaðhvort hefur utanrrn. ekki uppfyllt lagalega skyldu sína gagnvart umboðsmanni og gert honum grein fyrir öllum málsatvikum eða öllum ástæðum fyrir úrskurði ráðherrans eða úrskurði ráðuneytisins eða utanrrh. hefur verið með eftiráskýringu í umræðunum á Alþingi. Ef haft er í huga að sá aðili er hóf þetta mál á Alþingi fyrir rúmu ári síðan, hv. þáv. þm. Steingrímur Hermannsson, var einnig þingmaður þess kjördæmis sem ráðherrann vísaði til að þar væri bágt atvinnuástand þá gæti manni komið til hugar að eftiráskýringin hefði að einhverju leyti átt ástæðu að rekja til þess frá hvaða kjördæmi þingmaðurinn kom og hefði verið sett fram til að koma honum sérstaklega illa í málinu og að gera erfiðara fyrir hann að taka upp málið og fylgja því eftir á Alþingi.
    Ég held að það sé nauðsynlegt bæði fyrir hv. Alþingi og hæstv. utanrrh. að hann geri fullnægjandi grein fyrir þessu máli. Ég held að það sé öllum þessum aðilum fyrir bestu og ég vil minna á það að í umræðunum fyrir rúmu ári, þá í víðara samhengi, skoraði ég á hæstv. utanrrh. að breyta vinnubrögðum sínum í tilteknum atriðum. Ég ætla ekki að endurtaka þá áskorun, hún er í fullu gildi og ég vona að ráðherrann hafi tekið tillit til hennar í sínum verkum. Ég ætla að leggja fram þá ósk að í skýrslum umboðsmanns Alþingis á næstu árum munum við ekki sjá mikið af slíkum málum frá ráðuneyti hæstv. utanrrh. eins og þau sem við höfum þurft að ræða um síðustu tvö ár.