Skýrsla umboðsmanns Alþingis

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 18:15:00 (4375)


[18:15]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Umboðsmaður Alþingis gerir athugasemd við tvö mál sem falla undir utanrrn. í skýrslu sinni. Annars vegar er um að ræða ráðningu í fasta stöðu tollvarðar hjá Tollgæslunni í Keflavík árið 1990. Hins vegar er um að ræða tilnefningu varnarmálaskrifstofu utanrrn. á tilteknu fyrirtæki við sorphirðu og sorpförgun fyrir varnarliðið.
    Til þess að átta sig á þeim upplýsingum sem fram komu í skýrslu umboðsmanns um veitingu fyrrgreindrar stöðu er nauðsynlegt að hafa hliðsjón af áliti umboðsmanns í skýrslu hans árið 1992. Aðfinnslur hans voru eftirfarandi:
    1. Annmarkar voru á auglýsingu stöðunnar þar sem hún var auglýst í helstu dagblöðum landsmanna en ekki jafnframt í Lögbirtingablaði.
    2. Embættismenn utanrrn. hafi ekki kallað eftir öllum gögnum áður en ákvörðun var tekin um ráðningu. Embættismenn hefðu því ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni eins og lög kveða á um og skal þó skýrt tekið fram að ráðherra ber fulla stjórnskipulega ábyrgð á þeirra störfum.
    3. Þar sem enginn umsækjenda uppfyllti öll hæfniskilyrði hefði ráðuneytið átt tveggja kosta völ. Annars vegar að auglýsa stöðuna að nýju eða, eins og lög heimiluðu, að víkja frá skilyrðum samkvæmt heimild í reglugerðarákvæði. Umboðsmaður gagnrýndi hins vegar að utanrrn. hefði ekki sýnt fram á tilvik í þessu máli sem réttlætti frávik frá hæfniskilyrðum.
    Eitt alvarlegasta aðfinnsluefnið að mínu mati er það að utanrrn. svaraði ekki erindum umboðsmanns samviskusamlega og uppfyllti þar með ekki ákvæði laga um upplýsingaskyldu stjórnvalda gagnvart umboðsmanni Alþingis.
    Utanrrn. hefur tekið athugasemdir umboðsmanns Alþingis til alvarlegrar athugunar og gert umboðsmanni grein fyrir aðgerðum sem gripið hefur verið til í þeim tilgangi að lagfæra þá galla sem á hefur verið bent sem í ljós hafa komið varðandi málsmeðferð ráðuneytisins.
    Í grg. sem fylgir áliti umboðsmanns er gerð grein fyrir aðgerðum ráðuneytisins sem stuðla munu að vandaðri afgreiðslu og stjórnsýsluháttum. Í því felst m.a. leiðrétting atriða sem tíðkast hafa við opinbera stöðuveitingar á Keflavíkurflugvelli um áratuga skeið. Umboðsmaður Alþingis hefur ekki talið tilefni til frekari athugasemda af sinni hálfu í ljósi aðgerða utanrrn. Hann lítur með öðrum orðum svo á að málinu sé af hans hálfu lokið.
    Ég vil taka það sérstaklega fram að því er varðaði þessar mannaráðningar og það undirstrikar það að ég hef persónulega tekið málið alvarlega að ég hef haft samband við þann einstakling sem ber bókstafsheitið B í þessum greinargerðum, ég hef beðið hann velvirðingar á því að hann var ekki kallaður til viðtals á sínum tíma og honum þannig gefinn kostur á að upplýsa nánar um sín framtíðaráform.
    Það skal tekið fram að þessi ágæti maður starfar við góðan orðstír í stofnun sem fellur undir utanrrn. Hann hefur verið fullvissaður um það að sjálfsögðu að þetta mál muni ekki varpa skugga á starfsferil hans í þágu íslenskra stjórnvalda. Einnig má geta þess að ég hef tilnefnt tvo embættismenn sem sérstaka tengiliði við umboðsmann Alþingis í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að mistök endurtaki sig í framtíðinni og tryggja gott samband og gott verklag í samskiptum við embætti umboðsmanns.
    Nú nálgast kosningar eins og heyra mátti á máli tveggja hv. þm. vegna þess að í stað málefnalegrar umræðu um vandaðri stjórnsýsluhætti hefur þetta mál verið notað til þess að þyrla upp pólitísku moldvirði í þeim tilgangi að ráðast að mér persónulega og Alþfl. Það hirði ég ekki um og er maður til að bera það. Hitt þykir mér öllu verra að fórnarlömb þessarar umræðu eru þeir einstaklingar sem allir í þeirra heimabyggð þekkja og vita hverjir eru. Ég hef, eins og ég vék að, reynt í þessu máli að rétta hlut starfsmanns B eins og ég hef áður greint frá. Hins vegar hefur verið erfiðara að leiðrétta hlut þess manns sem ráðinn var og ber bókstafsheitið C. Að því hefur nefnilega verið látið liggja að algjörlega óhæfur maður hafi verið ráðinn og hann þar af leiðandi sætt ámæli. Slík staðhæfing kemur hvergi fram af hálfu umboðsmanns Alþingis. Í álitinu kemur eingöngu fram gagnrýni á embættisfærslu en ekki á einstaklinginn eða starfhæfi hans.
    Mér er því ljúft og skylt að staðfesta hér að hann hefur reynst hæfur og farsæll starfsmaður að mati samstarfsmanna sinna. Og til þess að svara dylgjum sem farið var með áðan eru hvorki hann né foreldrar hans flokksbundin í Alþfl. og þetta mál er gjörsamlega og með öllu óviðkomandi flokkslegum tengslum.
    Ég vil því leyfa mér að beina því til þeirra sem um þetta mál fjalla á flokkspólitískum nótum að

kynna sér málið gaumgæfilega og sýna lágmarkstillitssemi, ekki vegna mín eða Alþfl., það er óþarfi og ég fer ekki fram á það, heldur vegna þeirra einstaklinga sem hafa saklausir blandast inn í þetta mál. Slík málefnaleg umræða mundi auk þess verða til þess fallin að stuðla að vandaðri stjórnsýsluháttum sem er markmiðið með starfi umboðsmanns Alþingis.
    Þá vík ég að máli númer tvö. Tvö fyrirtæki sóttu eftir samningum við varnarliðið um sorpförgun á árinu 1992. Annað fyrirtækið, fyrirtæki A, hafði sinnt verkefnum um sjö ára skeið og hafði við það tvo menn í vinnu. Hitt fyrirtækið, fyrirtæki B, var tilbúið að vinna verkið fyrir sama verð og fyrirtæki A en ætlaði að skapa 11 manns atvinnu. Það hefur verið opinber stefna utanrrn., ekki bara í minni tíð heldur á undanförnum árum, að Suðurnesjamenn njóti sem mest þeirra atvinnutækifæra sem bjóðast í vinnu fyrir varnarliðið, sérstaklega í ljósi bágborins atvinnuástands á Suðurnesjum á þeim tíma sem hér um ræðir.
    Gagnrýni umboðsmanns Alþingis á utanrrn. byggir ekki á því að utanrrn. hafi tekið sér vald sem það ekki hafði. Gagnrýnin byggir á því að ráðuneytið hafi ekki gætt þess að færa efnisleg rök fyrir vali sínu á fyrirtæki til verktöku í þessu ákveðna tilviki.
    Um áratuga skeið hefur verið byggt á því fyrirkomulagi við úthlutun á verkum á Keflavíkurflugvelli að eitt fyrirtæki hefur verið tilnefnt til samninga um ákveðið verk. Það hefur verið gert á grundvelli skýrrar heimildar í varnarsamningnum. Umboðsmaður segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Í gögnum málsins kemur hins vegar ekkert fram um það að af þessari ástæðu hafi verið talið óheppilegt að veita Suðurvirki hf. auk annarra heimild til að leita eftir samningum við varnarliðið um umrætt verk.``
    Með þessu leggur umboðsmaður nýjan skilning í ákvæði varnarsamningsins og viðauka við hann þannig að utanrrn. beri að rökstyðja það sérstaklega ef aðeins eitt fyrirtæki er tilnefnt til samninga við varnarliðið eins og hefur verið hin almenna regla áratugum saman. Almenna reglan eigi sem sagt að vera að fleiri fyrirtæki en eitt fái heimild til samninga við varnarliðið. Þessi túlkun umboðsmanns er í fullkomnu ósamræmi við 40 ára stjórnsýsluvenju á þessu sviði og á sér ekki stoð í fordæmi Hæstaréttar frá árinu 1961 sem snertir svipað mál.
    Utanríkisráðherrar hafa um áratuga skeið farið þá leið að velja einn verktaka og heimila honum einum að semja við varnarliðið um viðkomandi verk. Lögfræðingar utanrrn. hafa haft í frammi efasemdir um að álit umboðsmanns Alþingis standist ákvæði í viðauka við varnarsamninginn og þá stjórnsýsluvenju sem skapast hefur á þessu sviði. Ég tel hins vegar ekki rétt að þræta við umboðsmann um lögfræði þessa máls enda er það að mínu viti ekki síður pólitísks eðlis en tæknilegs. Hins vegar verður að taka tillit til fjölmargra þátta sem ég mun víkja nánar að. Mikilvægast er að menn átti sig á því að Ísland ákveður ekki einhliða breytingar á þessu fyrirkomulagi vegna þess að þarna höfum við samningsskuldbindingar við varnarliðið.
    Að mínu viti stendur eftir ein spurning sem þarf að svara: Hvernig ber að haga þessum málum í framtíðinni? Hvernig er hægt að skapa umgjörð fyrir samninga íslenskra fyrirtækja við varnarliðið sem uppfyllir þær kröfur sem eðlilegt er að gera til stjórnsýslunnar á þessu sviði?
    Þá vík ég að því að í febrúar árið 1992 samþykkti núv. ríkisstjórn í kjölfar þeirrar stefnu sem ég hafði mótað um breytingar á fyrirkomulagi í verktöku í frjálsræðisátt og afnám einokunar, að verktaka varnarframkvæmda yrði aðlöguð venjulegum háttum verktöku innan NATO-ríkja á yfirstandandi kjörtímabili. Í kjölfar þessarar ákvörðunar náðist samkomulag við Mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins um að verk sem kostuð eru af sjóðnum yrðu boðin út frá og með 1. apríl 1995. Nú nýlega gengu svo fulltrúar íslenskra og bandarískra stjórnvalda frá framkvæmdaatriðum vegna þessa samkomulags og náðu samkomulagi um útboðsskilmála vegna þessara framkvæmda og undirbúningur fyrsta útboðs er nú langt á veg kominn. Þau verk sem greidd eru af Bandaríkjamönnum eru hins vegar bæði fleiri og umfangsmeiri. Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur því verið tekið mið af bágbornu atvinnuástandi á Suðurnesjum á síðustu árum þegar horft hefur verið til þess hvert framhaldið gæti orðið í auknu frjálsræði á þessum markaði. Markvisst hefur verið unnið að samráði við varnarliðið um að auka frjálsræði í verktökunni stig af stigi. Af hálfu utanrrn. er horft til þess að niðurstaða þessa samráðs geti haft í för með sér sátt um verktöku fyrir varnarliðið til frambúðar, sátt sem byggir á því að seljendum vöru eða þjónustu verði ekki mismunað og tryggðir verði heilbrigðir viðskiptahættir ásamt því að tekið verði eðlilegt tillit til þeirra sérstöku hagsmuna sem Suðurnesjamenn hafa af atvinnu fyrir varnarliðið auk annarra atriða.
    Það þarf að hafa í huga að kerfi það sem komið verði á fót taki mið af þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands og Bandaríkjanna, öryggishagsmunum og þeim skuldbindingum ríkjanna sem kom fram í bókun sem undirrituð var 4. jan. 1944 af þáv. aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna og utanrrh. Íslands.