Skýrsla umboðsmanns Alþingis

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 18:26:07 (4377)


[18:26]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hefur komið skýrt fram að utanrrn. hefur tekið gagnrýni umboðsmanns Alþingis alvarlega. Að utanrrn. hefur gert fulla grein fyrir sínum málum og að það hefur gripið til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að mistök af þessu tagi endurtaki sig. Og að umboðsmaður Alþingis segir í skýrslu sinni, í ljósi þess sem gert hefur verið, að hann líti svo á að málinu sé lokið af hans hálfu. Með öðrum orðum, það hlutverk umboðsmanns Alþingis að gagnrýna það sem miður fer í stjórnsýslu hefur borið árangur og það er ekki ástæða til þess að fjölyrða frekar um það. Þetta varðar mannaráðningar
    Að því er varðar seinna málið þá hef ég gert rækilega grein fyrir því og þar er einfaldlega um það að ræða að ef farið yrði eftir þeirri gagnrýni að gefa ætti öðrum kost á þegar verið er að tilnefna einn verktaka, eins og við höfum gert á grundvelli varnarsamningsins og viðauka við hann áratugum saman, þá er þar nýr skilningur á íslenskri stjórnsýslu. Og hvernig höfum við brugðist við? Jú, við höfum brugðist við með þeim hætti í fyrsta lagi með ákvörðun ríkisstjórnar að við höfum tekið upp breytingar sem enginn forveri minn í stóli utanrrh. hefur beitt sér fyrir. Annars vegar að því er varðar allar framkvæmdir á vegum Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins. Þar er búið að gera samkomulag sem var lengi í undirbúningi og var erfitt í samningum þar sem þurfti að þræða bil beggja, annars vegar að fara út í útboð en hins vegar að tryggja að um málin yrði fjallað á grundvelli íslenskra staðla og byggingarákvæða o.s.frv.
    Að því er varðar síðan frekari framkvæmdir í þágu varnarliðsins, sem kostaðar eru af Bandaríkjamönnum, þá varð ég að gera grein fyrir því að við erum að fitja upp á þeim nýjungum á grundvelli samkomulagsins frá 4. jan. 1994 að auka frjálsræði í þeim efnum. Það er stefnubreyting frá því sem verið hefur, stefnubreyting í frjálsræðisátt sem hv. þm. telur væntanlega ekki gagnrýnivert. En ég undirstrika að þetta er vandasamt að því leyti að ef við ætlum að hafa frjáls útboð en jafnframt tryggja hagsmuni Suðurnesjamanna og forgang þá verður að vanda þar vel til verka.