Skýrsla umboðsmanns Alþingis

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 18:30:34 (4379)


[18:30]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér var ekki um neinar eftiráskýringar að ræða. Ég minni hv. þm. á að það var hv. þáv. þm. Steingrímur Hermannsson sem tók þetta mál hér upp til umræðu óundirbúið þrátt fyrir að það var þá ekki efni skýrslu umboðsmanns og þau svör sem ég gaf, nefnilega að þarna hefði verið höfð hliðsjón af bágbornu atvinnuástandi á Suðurnesjum, koma fram í okkar skýringum eins og ég hef þegar farið með.
    Að því er varðar umfjöllun um málefni einstaklinga þá vil ég bara geta þess að í framhaldi af málflutningi hv. þm. hafa fjölmiðlar fjallað um þetta mál með þeim hætti að er meiðandi fyrir viðkomandi einstaklinga. T.d. vík ég að því að vegna skipulagsbreytinga við Tollgæsluna þá fengu fjórir menn stöðuhækkun um þetta leyti. Fjölmiðlar héldu því blákalt fram að hér hefði verið um að ræða alþýðuflokksmenn þó sannanlegt sé að svo hafi ekki verið.
    Að því er varðar Suðurvirkismálið, þ.e. spurninguna um tilnefningu verktaka, þá vek ég athygli hv.

þm. á því að utanríkisráðherrar hafa farið með ákveðið vald á grundvelli varnarsamningsins um áratuga skeið. Meðferð mín á því máli hefur verið nákvæmlega sú hin sama og í engu frábrugðin meðferð forvera minna. Sú gagnrýni sem hv. þm. er því að bera fram á það kerfi beinist ekki síður að forverum mínum, þ.e. hv. fyrrv. þm. og utanríkisráðherrum Matthíasi Á. Mathiesen, svo ég nefni aðeins eitt nafn. Ég hef á hinn bóginn hafið breytingar á þessu kerfi í frjálsræðisátt með stuðningi af samþykkt ríkisstjórnar, eins og ég hef þegar greint frá, og það er sú stefnubreyting á því kerfi sem við búum við sem verið er að gagnrýna sem væntanlega mun þá verða til bóta þegar við lítum til framtíðar. Að því er þetta mál varðar, þ.e. verktökumálið, þá árétta ég það og stend við það fyrir hönd utanrrn. að það eru góð rök fyrir þeirri ákvörðun eins og rakið hefur verið af hálfu ráðuneytisins.