Atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 19:02:36 (4385)


[19:02]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Hæstv. forseti. Samgn. hefur fjallað um frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum og fengið á sinn fund Svein Snorrason hrl., Pál Hjartarson aðstoðarsiglingamálastjóra og Einar Hermannsson, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra kaupskipaútgerða. Enn fremur Helga Jóhannesson, lögfræðing í samgönguráðuneyti. Þessir menn komu allir að samningu þess frv. sem hér er verið að fjalla um.
    Ásamt þeim áttu sæti í nefnd sem samdi frv. Jónas Haraldsson skrifstofustjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, Guðjón Ármann Eyjólfsson, skólameistari Stýrimannaskólans í Reykjavík, Guðjón A. Kristjánsson, formaður Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Guðlaugur Gíslason, framkvæmdastjóri Stýrimannafélags Íslands, og Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
    Því er þetta rakið hér við 2. umr. að ég vil gjarnan sýna fram á að þeir aðilar sem komu að samningu þessa frv. voru frá hinum margbreytilegustu sviðum hagsmunaaðila sem tengjast þessu máli. Nefndin fjallaði allítarlega um frv. og var sammála um afgreiðslu þess. Nefndin ákvað að leggja til að frumvarpið verði samþykkt með tveimur brtt. sem birtar eru á þskj. 622 og fjallar fyrri brtt. um það að taka af allan vafa um að skipstjórnarmenn þurfi að hafa atvinnuskírteini sín meðferðis á skipi til að auðvelda Landhelgisgæslu ríkisins eftirlitsstörf að þessu leyti. Síðari brtt. er gerð til samræmis við frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, 315. mál.
    Þetta frv. ásamt frv. því sem hér er getið um, um breytingu á lögum um atvinnuréttindi vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, eru mjög samhangandi. Svo er einnig um frv. til laga um áhafnir íslenskra skipa sem nefndin hefur enn eigi afgreitt. Það er þó von mín að samgn. takist einnig að afgreiða það mál samhljóða en með tilliti til þess að þau mál tengjast nokkuð þykir mér rétt að 3. umr. um dagskrármálið og einnig um frv. um breytingu á lögum um atvinnuréttindi vélstjóra og vélavarða doki þangað til séð verður hvort afgreiðsla tekst ekki á hinu þriðja frv. sem þessu eru tengd, þ.e. frv. til laga um áhafnir íslenskra skipa.

    En samgn. leggur einróma til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem hér hefur verið kynnt og þeim brtt. sem prentaðar eru á þskj. 622.