Framleiðsla og markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 19:07:34 (4386)


[19:07]
     Flm. (Geir H. Haarde) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. um átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Hér er á ferðinni frv. sem lætur ekki mikið yfir sér og er flutt í samkomulagi allra þingflokka af formönnum þeirra. Efni þessa máls er það að hér er lagt til að sett verði á laggirnar sérstakt átaksverkefni um vöruþróun og sölu íslenskra afurða undir merkjum hollustu, hreinleika og sjálfbærrar þróunar.
    Í frv. er gert ráð fyrir því að sérstök þriggja manna stjórn annist þetta verkefni og í henni verði fulltrúar frá landbrn., umhvrn. og bændasamtökunum. Síðan eru nánari ákvæði um þessi verkefni. Sömuleiðis er gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi þessu verkefni til 25 millj. kr. á ári næstu fjögur árin en jafnframt án þess að það standi í lögunum er þess vænst að Framleiðnisjóður landbúnaðarins leggi fram jafnháa fjárhæð þennan tíma.
    Ég vil vekja á því athygli að það er heldur óvenjulegt að það skuli mælt fyrir í lögum um að ríkissjóður skuli leggja ákveðna fjárhæð til tiltekins verkefnis um ákveðið árabil og má segja að slík lagafyrirmæli séu á undanhaldi og sjaldséðari en áður var. En tilefni málsins er hins vegar það að þetta var eitt af þeim verkefnum sem til greina kom þegar valin voru mál til að styrkja í tengslum við þjóðargjöfina 17. júní sl. Þá var að vísu ekki samkomulag um að hafa þetta mál, framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða, inni í þeim pakka ef svo mætti segja en samkomulag um að taka það upp að nýju að hausti. Niðurstaðan í því er þetta frv. sem nú liggur fyrir. En til samræmis við það sem ákveðið var um lýðveldissjóð og þau verkefni sem hann fæst við var ákveðið að festa þarna ákveðna tölu sem færi til verkefna er tengdust fyrst og fremst landbúnaði og má segja að það sé til samræmis við þau framlög sem ákveðin voru í lýðveldissjóð til verkefna tengdum sjávarútvegi og hafrannsóknum.
    Ég tel að landbn. þurfi að fjalla nokkuð ítarlega um þetta mál. M.a. eru áhöld um hvort hægt sé að gera ráð fyrir því að Framleiðnisjóður leggi fram framlög eftir árið 1997 vegna þess að þá er óvíst um framtíð hans. Þetta er eitt af þeim atriðum sem nefndin þyrfti að kanna.
    Aftur á móti vil ég láta það sömuleiðis koma fram að ýmsir aðilar sem starfa að framleiðslu lífrænna afurða og kalla sig sameiginlega hina lífrænu hreyfingu hafa hreyft athugasemdum við frv. við okkur flm. Ég hef beint því til þeirra aðila að þeir komi athugasemdum sínum á framfæri við landbn. og ég vænti þess að þær athugasemdir fái málefnalega skoðun í landbn.
    Ég held að efni þessa máls horfi mjög til framfara og um það geti allir í raun og veru sameinast að skynsamlegt sé og tekjuaukandi fyrir okkur Íslendinga að reyna að leggja áherslu á að koma á erlenda markaði því sem nú er kallað vistvænar og lífrænar afurðir. Ég tel að við eigum meiri möguleika í þeim efnum en mörg önnur lönd. Það þarf hins vegar að vinna markvisst að því máli og ég hef fulla trú á því að stjórn í verkefni sem þessu mundi taka á verkefni sínu af fullri ábyrgð. Hér er um að ræða mikla fjármuni sem er auðvitað brýn nauðsyn að sé vel varið og skynsamlega.
    Að svo mæltu legg ég til, virðulegi forseti, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.