Náttúruvernd

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 12:24:44 (4391)

[12:24]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Það frv. sem er til umræðu varðar mikilvægan málaflokk sem er náttúruvernd í landinu. Það má segja að í þessum málum hafi orðið stökkbreyting á undanförnum árum, ekki síst í hugarfarinu. Mönnum er að verða sífellt betur ljóst að mikilvægi óspilltrar náttúru er mikið, bæði fyrir sálarlíf landsmanna og efnahagslífið. Þessi tengsl við efnahagslífið eru að verða meira og meira áberandi og það snertir umhverfismál almennt.
    Ég man svo langt í Alþingi að hér stóðu um það harðar deilur hvort það ætti að setja umhverfismál undir sérstakt ráðuneyti. Ég tók þátt í þeim slag á sínum tíma sem var mjög harður svo að ekki sé meira sagt, var mesta deilumál þingsins á þeim vetri meðan þau átök stóðu yfir. Ég held að það sé alveg ljóst að það hefur verið rétt skref að setja umhverfismálin í þennan ákveðna farveg.
    Þetta mál er angi af þeim breytingum sem var ýtt úr vör með stofnun umhvrn. Með þessu frv. er verið að aðlaga starfsemi Náttúruverndarráðs að þessum nýju viðhorfum í stjórnsýslunni. Það er svo að tengsl atvinnulífsins við umhverfismál eru afar mikilvæg, en þetta frv. snýr kannski meira að þjóðgörðum og friðuðum svæðum og hvernig á að standa að verndun þeirra.
    Ég vil ekki láta hjá líða í þeim orðum sem ég legg inn í umræðuna að geta um það að það er auðvitað nauðsyn sem ber til þess að huga að vernd allrar náttúrunnar, hvort sem það er um friðuð svæði að ræða eða ekki og umhverfisins alls. Því miður er allt of algengt að koma jafnvel í þéttbýli, jafnvel við sjávarsíðuna þar sem úir og grúir af rusli í kringum fyrirtæki sem eru þó í matvælaframleiðslu og eiga að selja á erlendan markað undir þeirri ímynd að hér sé um hreina og jafnvel náttúruvæna vöru að ræða. Þessi mál þarf auðvitað að tengja saman, breyta hugarfarinu og auðvitað hefur orðið stökkbreyting í þeim efnum. Ég vil undirstrika að stofnun umhvrn. á sínum tíma var rétt og þörf á því að marka þessum málaflokki sérstakan stað í stjórnsýslunni.
    Hér hafa verið ítarlegar umræður um þetta frv. og hv. 2. þm. Suðurl. hefur haldið ítarlega ræðu um málið, enda hefur hann átt sæti í þeirri nefnd sem um það hefur fjallað. Ég hef ekki átt aðild að þessu máli í Alþingi en eigi að síður vil ég fara um það nokkrum orðum af því að ég hef áhuga á þessum málaflokki. Brtt. í þessu frv. eru í afar mörgum liðum og ég hef satt að segja heldur illan bifur á málum sem koma með svona miklum skjölum um brtt. því að auðvitað bendir það til þess að það hafi verið í upphafi margt sem þurfti athugunar við og þá geti allt eins verið að það sé stefnt í ranga átt með frv.
    Það hefur komið fram í umræðunni að þeir sem talað hafa finnst frv. stefna um of í átt að miðstýringu á mörgum sviðum og ég verð að taka undir það að ég held að margt í þessu frv. stefni þvert á nútímahugmyndir um stjórnsýsluna. Það er svo að það er annað mál til umræðu og á dagskrá í dag um það að færa grunnskóla frá ríkinu til sveitarfélaganna. Sú hugmynd sem á bak við það er er að dreifa valdi og dreifa stjórnsýslunni. Hér er aftur eftirlitsþáttur þessara mála settur undir umhvrn. Ég er í stórum dráttum sammála því að auðvitað hefur umhvrn. yfirstjórn yfir þessum málaflokki en ég held að þessi stefna sé samt í þveröfuga átt við þær valddreifingarhugmyndir sem núna eru efst á baugi í þjóðfélaginu enda stendur í

umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga eða athugasemdum um málið, en það hafa margir fengið þetta mál til meðferðar, að stefna frv. gangi í þveröfuga átt og miðstýring umhvrn. er aukin og náttúrunefndir sveitarfélaga og héraðsnefnda hafa einungis það hlutverk að stuðla að náttúruvernd með ábendingum og tillögugerð. Síðan kemur m.a. fram í 6. gr. þar sem kveðið er á um að umhvrh. skipi alla þrjá stjórnarmenn Landvörslu ríkisins án tilnefningar.
    Þetta er veigamikill þáttur í þeirri gagnrýni sem frv. hefur fengið við 2. umr. Ég tel að þessi þáttur frv. þurfi endurskoðunar við. Það þurfi að skoða þennan þátt þess miklu betur og hann er ekki síst ástæða þess að það hafa verið slíkar umræður við 2. umr. málsins. Ég tel e.t.v. að þetta frv. hafi liðið fyrir þá stefnu sem virðist vera efst á baugi hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar að láta keyra mál út úr nefndum eða reyna að hafa áhrif á það án þess að um það sé samkomulag og án þess að málin hafi verið nægilega vel skoðuð.
    Einn er sá þáttur í þessum málum sem ég vildi koma sérstaklega inn á þó að ég hafi undirstrikað mikilvægi þess að varðveita og halda hreinni eftir því sem kostur er allri náttúru landsins eru þó svæði sem þurfa sérstakrar umhirðu við en það eru þær dýrmætu perlur sem við höfum tekið frá og eru þjóðgarðar í landinu. Skipulag þeirra og varsla er afar mikilvæg og það fer saman að þessir þjóðgarðar eru dýrmætar perlur fyrir Íslendinga og þeir eru einnig fjölsóttir og vinsælir ferðamannastaðir fyrir vaxandi ferðamennsku.
    Það er einnig svo að þar sem þessir þjóðgarðar eru þá eru þeir miðpunktar í þeim byggðarlögum sem hlut eiga að máli. Þeir eru þungamiðjan í þeirri ferðamennsku sem þar er og þeir eru aðdráttarafl fyrir bæði fyrir íslenska og erlenda menn. Ég þekki a.m.k. til þess í því kjördæmi sem ég fulltrúi fyrir. Þar er einn þjóðgarður, í Skaftafelli, og hann er afar mikilvægur miðpunktur fyrir þá ferðamannaþjónustu sem er að byggjast upp þar í sveitinni sem er gríðarlega mikil og þar lifir fólk í vaxandi mæli á og hefur sótt inn í ferðaþjónustu þegar dregst saman í landbúnaði. En þjóðgarðurinn í Skaftafelli spilar mikið hlutverk í þeirri uppbyggingu sem þar er.
    Það þarf ekki að lýsa fyrir ykkur, hv. alþingismönnum, Skaftafelli eða öðrum þjóðgörðum í þessu landi. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum þar að en þetta eru dýrmætar perlur sem ekki er sama hvernig gengið er um. En eigi að síður verður að fara saman í þeirri umgengni ást á landinu og náttúrunni og þjónustulund við það fólk sem vill sækja þessa staði heim. Þess vegna skiptir miklu máli hvernig að vörslu þeirra er staðið. Það gildi um það skýrar og ákveðnar reglur hvernig á að ganga um þessa staði en eigi að síður að þær séu þannig að fólk hafi aðgang að þeim og geti verið þar sér til ánægju. Ég held satt að segja að það þurfi að varast að miðstýra þessari vörslu of mikið. Það verður að finna til þess leiðir að heimafólk geti komið í ríkara mæli að þessum málum heldur en þetta frv. gerir ráð fyrir.
    Það er nú svo með þeim breyttu sjónarmiðum sem eru til náttúruverndar í landinu að fólk hefur og vill ganga vel um landið og þeir sem búa á stöðunum og hafa þar sitt lífsviðurværi eru ekki síðri vörslumenn landsins en aðrir og alls ekki. Það er því mín eindregna skoðun að það þurfi að búa svo um hnútana varðandi vörslu þjóðgarðanna að heimafólk komi þar að í meira mæli en hefur verið.
    Það eru og hafa verið árekstrar varðandi þjóðgarðana og umgengni þar. Þessir árekstrar stafa að sumu leyti af ólíkum tilgangi ferðamanna með ferðum sínum og ólíku mannlegu eðli. Þeir stafa af ólíkum umgengnisháttum erlendra manna sem eru hér á ferðalögum og Íslendinga. Erlendir menn sem eru á ferðalögum fara yfirleitt snemma í háttinn en Íslendingar sem eru á ferðalögum lifa kannski margir hverjir í anda setningarinnar eða anda ljóðlínunnar: Hver getur sofið um sumarnætur? Og þessir þjóðgarðar verða að rúma allt þetta fólk. Það má ekki vera neinn einstrengingsháttur í því. Auðvitað verða allir að fara eftir settum reglum um umgengni á þessum stöðum, en eigi að síður verða þjóðgarðarnir að rúma ólíka lífshætti, þeim verður að stjórna fólk sem hefur bæði ást á landinu og þjónustulund til að sinna því fólki sem þar kemur.
    Ég nefni þetta vegna þess að ég tel að það sé viss hætta í því fólgin að koma upp miðstýrðri stofnun til þess að annast þessi mál og ég hefði ráðlagt heilt í því að skoða það mál miklu betur hvernig að þessu verður staðið. ( Gripið fram í: Hvaða hættu?) Ég tel vissa hættu í því fólgna, segi ég, að miðstýra vörslu þjóðgarðanna, að vörslu þjóðgarðanna annist miðstýrð stofnun undir umhvrn. Ég tel eðlilegt að umhvrn. hafi yfirstjórn þessara mála en heimamönnum verði falið aukið hlutverk í þessu efni og ég hefði ráðlagt að þau ákvæði frv. sem hníga að þessu verði skoðuð betur. Það kæmi t.d. vissulega til greina að bjóða hreinlega út rekstur þessara þjóðgarða undir ákveðnum formerkjum og ákveðinni lýsingu á því sem þar á að fara fram og þeim reglum sem þar á að viðhafa og fela þeim aðilum sem vildu bjóða í rekstur þeirra. Ég held að það væri alveg athugandi sú hugmynd.
    Ég hef orðið þess áskynja að ýmsum hugmyndum hefur verið velt upp í störfum nefndarinnar. Ef sú niðurstaða verður að Landvörslu ríkisins verði komið á fót þá eru ýmsar stofnanir til sem gætu sinnt þessu hlutverki. Það hefur m.a. komið fram, veit ég, í störfum nefndarinnar ábendingar um að Skógrækt ríkisins geti annast þetta hlutverk. Ég hygg að sú hugmynd sé fullrar athugunar verð. Mér kann að verða bent á það til baka að Skógrækt ríkisins heyri ekki undir umhvrn. Hún heyrir undir landbrn. Ég man vel eftir þegar átökin voru um umhvrn., þá voru átök um hvar ætti að vista skógrækt og landgræðslu. Niðurstaðan varð sú að vista Skógræktina undir landbrn. Það var gert á þeim forsendum að þá var verið að fara út í víðtæka skógrækt á bændabýlum, bændaskógrækt, bæði í minni heimabyggð og annars staðar á landinu og það var talið að þessi ræktunarþáttur ætti betur heima undir landbrn. Hins vegar er hlutverk Skógræktarinnar mjög að breytast. Skógræktin er ekki lengur stór atvinnurekandi í því að rækta plöntur eins og hún áður var. Sá þáttur hefur færst frá henni. Hún er orðin leiðbeiningarstofnun. Hún er orðin eftirlitsstofnun og hún er vörslustofnun stórra landsvæða sem eru skógi vaxin þannig að þetta hlutverk, t.d. að fylgjast með þjóðgörðunum, mundi ekkert falla illa að starfsemi Skógræktar ríkisins og væri sú hugmynd alveg fullrar athygli verð. Þess vegna hefði ég viljað skoða þá hugmynd miklu betur og vista þá þessa nýju Landvörslu ríkisins, ef af henni verður, í aðalstöðvum Skógræktar ríkisins. Ég held að þessi hugmynd hafi ekki fengið þá skoðun sem hún verðskuldar í starfi hv. umhvn.
    Mikilvægur þáttur í starfi náttúruverndarmanna er fræðsluþátturinn. Ég bendi á varðandi fræðsluþáttinn að samkvæmt nýjum náttúruverndarlögum er búið að stofna svonefndar náttúrustofur í landshlutunum og m.a. á Austurlandi var ein slík náttúrustofa að taka til starfa og var verið að ráða henni forstöðumann. Einn þáttur í starfi þessarar náttúrustofu og starfslýsingu hennar er einmitt sá að annast fræðslustarfsemi um náttúruvernd svo að ég held að það beri allt að sama brunni í þessu að það má dreifa þessari fræðslustarfsemi meira en orðið er eða frv. gerir ráð fyrir.
    Ég vil undirstrika það hve fræðslan er mikils virði og ég er þeirrar skoðunar með fræðsluþáttinn eins og aðra þætti þessa máls að þeir eru betur komnir ef valdinu er dreift heldur en ef það er dregið allt undir eina stofnun. Ég er með undir höndum umsögn um þetta frv. sem er skrifuð fyrir hönd Náttúruverndar Austur-Skaftafellssýslu af þeim ágæta manni Sigurði Björnssyni á Kvískerjum. Vegna þess að ég tek meira mark á honum heldur en flestum öðrum þegar ég heyri náttúru og náttúruvernd berast í tal þá vil ég vitna í lokaorð þessarar skýrslu varðandi fræðslumálin. Þar segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Þó að sjálfsögðu sé best að náttúruverndarnefndir séu einfærar um allt sem þær þurfa að skipta sér af mun þess vart að vænta í náinni framtíð og því mikil þörf á að þær eigi kost á að leita til manna sem þekkja þau svæði sem þær starfa á og einnig mikilvægt að hann geti veitt þeim hvatningu til starfa.
    Takmark stjórnar náttúruverndarmála verður að vera að gera þjóðina svo vel upplýsta um verndun náttúrunnar að ekki þurfi boð og bönn til þess að menn lifi í sátt við hana. En þó að miðað hafi í rétta átt síðan náttúruverndarlög voru sett og megi sem dæmi nefna hvað minna ber á rusli við vegi nú en þá, þá er mjög langt í land með að komast í það horf að ekki þurfi skýr ákvæði um það hvernig þarf að umgangast landið. Það verður lengi þörf fyrir að lög um náttúruvernd séu svo skýr að þau séu ekki misskilin og stuðli að sem bestum samskiptum við náttúruna. Það er því von náttúruunnenda að þeim sem ljúka gerð þessara laga takist að gera þau svo úr garði að þau þjóni þeim tilgangi svo vel sem verða má.``
    Ég vil undirstrika það að fræðslu er þörf og það er auðvitað þörf að það sé aðili sem hefur yfirumsjón með því fræðsluhlutverki en ég vil minna á að árangur er undir því kominn að valdi sé dreift í þessum efnum og almennum skilningur sé á því. Það er stórhættulegt að draga þessi mál í of ríkum mæli undir eina stofnun, en ég viðurkenni þörfina á því að breyta um skipulag í stjórnsýslunni í þessum efnum eftir að umhvrn. hefur verið sett á stofn. Ég tel að það væri mjög þarft og nauðsynlegt til þess að þetta mál fái farsælar lyktir á hv. Alþingi að kalla inn málið aftur til nefndarinnar, líta betur á það, fara yfir þau atriði sem komið hafa fram og freista þess að ná samkomulagi um afgreiðslu þess frá þinginu. Það er að vísu skammur tími til stefnu. En tímann má auðvitað nota vel. Ég hef trú á því að við framsóknarmenn, og tala ég þar fyrir mig og aðra þá sem hafa lagt orð í belg um þetta mál, séum tilbúnir til þess að leggja á okkur þá vinnu, freista þess að ná landi um þá þætti sem mest hafa verið gagnrýndir í þessu máli. Ég er tilbúinn til þess að leggja lóð á vogarskálina í því efni en það fer auðvitað eftir því hver samkomulagsviljinn er hverjar lyktir þess máls verða. 2. umr. um þetta mál stendur yfir, 3. umr. er eftir. Það er engin goðgá að líta betur á það milli umræðna og freista þess að ná samkomulagi um að afgreiða þær skipulagsbreytingar sem nauðsynlegar eru og reyna að gera það með víðtæku samkomulagi í hv. Alþingi. Ég held að þetta mál sé þannig vaxið að um það eigi ekki að standa pólitískar deilur ef samkomulagsvilji er fyrir hendi.