Náttúruvernd

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 13:00:26 (4392)


[13:00]
     Kristinn H. Gunnarsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það er nú svo á síðustu dögum þingsins að menn eru að funda nokkuð stíft í nefndum og þingsölum eins og eðlilegt er og um það er jafnan nokkuð gott samkomulag. Hins vegar verður að gæta þess að ganga ekki of langt í að láta fundahöld skarast. Ég vil minna á að nú er að hefjast fundur í allshn., einmitt í þessum töluðu orðum, þar sem nefndarmenn eru einhuga um að reyna að vinna í og afgreiða mál sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að hljóti afgreiðslu á þessu þingi og vonir standa til að takist að ná nokkuð góðu samkomulagi um. Því höfum við haldið aukafundi í þeirri nefnd og munum væntanlega gera eins og kostur er til þess að ljúka þessum verkum.
    Mér þætti verra ef þingfundur stæði hins vegar yfir nú að þessu sinni á meðan allshn. heldur sinn fund sem er löngu ákveðinn og var ekki annað vitað, að ég held, þegar hann var ákveðinn að það yrði fundarhlé hér og því er fundartíminn miðaður við það, milli kl. eitt og tvö. Að því loknu er nefndarmönnum síðan boðið til athafnar hér í bænum vegna afmælis Hæstaréttar og teljum við okkur að sjálfsögðu skylt að mæta þar.

    Ég vildi því í allri vinsemd, virðulegi forseti, fara þess á leit við forseta að fundahöld í þingsalnum nú verði skorin verulega niður eða verði jafnvel ekki á meðan allshn. heldur sinn fund núna.