Grunnskóli

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 16:44:29 (4410)


[16:44]
     Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var beint til mín tveimur spurningum annars vegar um það hvernig yrði tekið á því ef sveitarfélögin stæðu ekki við sitt gagnvart grunnskólanum. Það er auðvitað alveg grafalvarlegt mál ef sveitarfélögin standa ekki við það sem lög kveða á um, það er augljóst, og ég tel að sterkasta aðhaldið gagnvart því muni koma frá almenningi í því sveitarfélagi. En síðan eru auðvitað til viðbótar þessu mjög mörg ákvæði í frv. sem eiga að tryggja eftirlit ráðuneytisins og menntmrh. er síðan æðsti yfirmaður þessa málaflokks.
    Hvað varðar skert framlög til grunnskólans á undanförnum árum, þá get ég upplýst hv. þm. um að það var ekki af neinni gleði sem sú sem hér talar stóð að því að skera niður framlög í menntamálum. Það var einfaldlega af illri nauðsyn eftir slæman viðskilnað fyrri ríkisstjórnar að við stóðum frammi fyrir því að það þurfti að draga saman í útgjöldum ríkisins. Það voru einfaldlega ekki til fjármunir til að standa undir öllu okkar velferðarkerfi og þar að auki hefur eins og allir vita verið hér stórkostlegur niðurskurður í aflakvóta þannig að þjóðartekjurnar höfðu minnkað. Þetta eru ástæðurnar, það er svo einfalt. Það voru einfaldlega ekki til fjármunir, en forgangsröðin held ég að sýni sig best í þeirri vinnu sem búið er að vinna á vegum hæstv. menntmrh. og liggur hér frammi í frv. í þinginu, bæði grunnskólafrv. og framhaldsskólafrv. Þar kemur fram vilji til að taka þessi mál í forgangsröð.