Grunnskóli

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 16:46:52 (4411)


[16:46]
     Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. talaði um grafalvarlegt mál ef sveitarfélög stæðu ekki við lög um grunnskóla og ég er sammála henni um það.
    Nú er það svo að sveitarfélögin eru sjálfstætt stjórnsýslustig og það hefur sýnt sig t.d. í Noregi þar sem Stórþingið ákvað að veita fjármagni til grunnskólans með því að fjölga kennslustundum en sveitarfélögin notuðu ekki þetta fjármagn til grunnskólans heldur í eitthvað allt, allt annað. Það mál fór fyrir Hæstarétt og sveitarfélögin unnu það mál vegna þess að Stórþingið gat ekki sagt þeim fyrir verkum og þetta vil ég benda hv. þm. á í þessu sambandi.
    Varðandi hitt atriðið sagði hv. þm. að hún hafi af fullri nauðsyn samþykkt skerðingu á framlögum til grunnskóla öll þau ár sem hún hefur setið á hv. Alþingi. Nú er það svo að sami hv. þm. sagði í viðtali á Stöð 2 ekki alls fyrir löngu að það væri samband á milli efnahagsmála og menntamála, það væru tengsl þarna á milli. Samt sem áður notaði hv. þm. það sem rök að það væri samdráttur í þjóðfélaginu en rétt áður hafði hún sagt að menntamál ættu að hafa forgang þar sem þau væru í raun efnahagsmál þannig að hv. þm. er kannski ekki búinn að sjá enn þá hvaða afleiðingar það hefur, þessi niðurskurður sem hefur verið viðhafður í grunnskólum landsins einmitt á þessu kjörtímabili og það á e.t.v. eftir að valda efnahagserfiðleikum síðar meir.