Grunnskóli

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 17:38:46 (4414)

[17:38]
     Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla að mæla fyrir nál. 2. minni hluta menntmn. sem skipaður er þeirri sem hér stendur og hv. þm. Jóni Kristjánssyni. En áður en ég kem að því vildi ég, eins og hv. síðasti ræðumaður, nefna aðeins þá auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu nýlega þar sem óskað var eftir þingmönnum sem treystu sér til þess að tala máli grunnskólans á hv. Alþingi. Ég tel mig hafa gert það og mun sækja um að fá að gera það áfram og ég þarf sennilega að senda formlega umsókn þar um. En ég get líka tekið undir með hv. þm. þar sem hún sagði í lok sinnar ræðu að það er mikils vert að það sé sátt í þjóðfélaginu um grunnskólann og það að hv. menntmn. skuli ekki hafa náð saman um frv. og um stefnu í grunnskólamálum finnst mér miður og hef látið það koma fram því að ég hef ekki trú á því að skoðanir fólks á hvernig grunnskólinn eigi að vera geti farið svo nákvæmlega eftir flokkspólitík.
    Hæstv. forseti. Ég mun þá fara yfir þetta nefndarálit.
    Nefndin hefur fjallað um frv. á allmörgum fundum enda um mjög vandmeðfarið mál að ræða. Frv. fjallar annars vegar um flutning grunnskólans að fullu til sveitarfélaganna og ýmsar breytingar sem því tengjast og hins vegar um ýmsar grundvallarbreytingar á grunnskólastarfi og þeirri stoðþjónustu sem fræðsluskrifstofur hafa veitt og hefur verið að eflast með ári hverju.
    Annar minni hluti nefndarinnar gagnrýnir vinnubrögð meiri hluta nefndarinnar og er þeirrar skoðunar að málið hafi ekki verið unnið nægilega vel í nefndinni og að nefndarmenn hafi ekki fengið tækifæri til að skiptast á skoðunum um einstaka umsagnir og breytingartillögur. Þar að auki gafst ekki tími til að ræða áherslur minni hlutans á efnisinnihald frv. Það reyndi því aldrei á það að fullu hvort samstaða gat náðst við 2. minni hluta um sjálft innihald frv., þ.e. það sem snýr að skólastarfinu sjálfu.
    Annar minni hluti gagnrýnir harkalega vinnubrögð formanns nefndarinnar við afgreiðslu málsins úr nefndinni. Ætlun hans var sú að afgreiða málið á fyrsta fundi eftir að breytingartillögum meiri hlutans hafði verið dreift. Þá var beiðni 2. minni hluta hafnað um að fá til viðræðna við nefndina fulltrúa frá landsbyggðarkjördæmi, t.d. Norðurl. v., til þess að greina nefndinni frá því hvar vinna við yfirtöku á starfsemi fræðsluskrifstofa væri á vegi stödd. Enn fremur var hafnað beiðni um að menntmn. fengi að sjá réttindafrv. vegna réttindamála kennara sem sögur fara af að sé til í kerfinu. Þessu var líka hafnað. Beiðni um að menntmrh., fjmrh. og fulltrúar frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og kennarafélögunum kæmu á fund nefndarinnar var hins vegar tekin til greina og var ákveðið að halda fund næsta dag. Á þeim fundi kom fram hjá menntmrh. að réttindamál kennara yrðu tekin til umfjöllunar í tengslum við meðferð réttindamála starfsfólks heilbrigðisstofnana. Hann sagði jafnframt að engum hefði dottið í hug að réttindi kennara skyldu skerðast við yfirfærsluna. Spurningin snerist meira um það hver réttindi þeirra sem verða ráðnir eftir breytinguna skuli verða. Það kom jafnframt fram að kennarar munu fá réttindafrv. til umsagnar áður en það verður lagt fram á Alþingi.
    Á fundinum kom fram hjá formönnum kennarafélaganna að kennarar eru andvígir því að grunnskólafrv. verði samþykkt sem lög nú, m.a. vegna réttindamálanna sem eru algjörlega ,,fljótandi``. Það kom jafnframt fram að mögulegt hefði verið að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna án þess að það væri í andstöðu við kennara ef öðruvísi hefði verið að málum staðið.
    Á fundinum kom fram hjá formanni og framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga að fundur yrði haldinn í stjórn sambandsins mjög fljótt um það hver afstaða sambandsins væri til þess að grunnskólafrv. yrði samþykkt við núverandi aðstæður. Seinna sama dag var haldinn fundur í stjórninni en á sama tíma boðaði formaður menntmn. til fundar í menntmn. og tók málið út með atkvæðum fulltrúa Sjálfstfl. og Alþfl. gegn atkvæðum Framfl., Alþb. og Kvennalista. Tillaga þess efnis að beðið yrði eftir niðurstöðu stjórnarfundar Sambands ísl. sveitarfélaga fékkst ekki borin upp á fundinum.
    Stjórnin ályktaði m.a. eftirfarandi (þ.e. stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga), með leyfi forseta:
    ,,Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga ítrekar fyrri umsagnir sínar um frv. til laga um grunnskóla og samþykkt 15. landsþings Sambands ísl. sveitarfélaga um yfirfærslu á öllum grunnskólakostnaði frá ríki til sveitarfélaga.
    Stjórn sambandsins telur að heppilegra hefði verið að sameiginleg undirbúningsvinna ríkis, sveitarfélaga og samtaka kennara vegna yfirfærslu alls grunnskólakostnaðar frá ríki til sveitarfélaga væri að mestu lokið áður en ný lög um grunnskóla eru samþykkt.``
    Þá segir enn fremur, með leyfi forseta: ,,Verði frv. til nýrra grunnskólalaga samþykkt á yfirstandandi Alþingi er lögð áhersla á að sveitarfélögin hafi nægan tíma til að undirbúa flutninginn. Því er lagt til ef frv. verður samþykkt að lögin komi í fyrsta lagi til framkvæmda 1. ágúst 1996.``

    Það er skoðun 2. minni hluta að það sé rangt að samþykkja frv. á þessu þingi sem lög þar sem ekki hefur náðst niðurstaða um kostnaðartilfærslu til sveitarfélaganna, réttindamál kennara og þjónustu fræðsluskrifstofa. Þannig er tekið undir þær skoðanir Sambands ísl. sveitarfélaga og kennarafélaganna að fresta beri afgreiðslu málsins.
    Annar minni hluti tekur undir með formanni Sambands ísl. sveitarfélaga sem sagði á fundi nefndarinnar að engin hætta væri á því að um of drægist á langinn að grunnskólinn flyttist að fullu til sveitarfélaganna þótt ekki yrði af samþykkt laganna nú.
    Samkvæmt fylgiskjali fjmrn. er áætlað að frv. hafi í för með sér kostnaðarauka upp á 680--910 millj. kr. Þá er einungis átt við skólastarfið sem slíkt en þegar allt er talið á því tímabili þar til lögin hafa öðlast gildi að fullu er kostnaður sá sem flyst yfir til höfuðborgarsvæðisins og sér 5--6 milljarðar kr. að mati Sambands ísl. sveitarfélaga og eru þá lífeyrisskuldbindingar vegna kennara ekki taldar með. Í fjárlögum fyrir árið 1995 er heildarfjárveiting til grunnskóla 1995 5.390 millj. kr.
    Öðrum minni hluta finnst það grátbroslegt að horfa upp á þá þversögn sem kemur fram í meðferð ríkisstjórnarflokkanna á grunnskólanum. Annars vegar er hamast við að skera niður um 100--200 millj. kr. á ári með sérstökum lögum allt kjörtímabilið með því að fækka kennslustundum og fjölga í bekkjum. Hins vegar er, þegar kjörtímabilinu lýkur og ríkisstjórnin veit að hún er að fara frá, hægt að vera með metnað fyrir hönd grunnskólans með fjölgun kennslustunda. Það mun hins vegar ekki nýtast þeim börnum sem hafa verið svo ólánsöm að vera í grunnskóla þau ár sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur setið að völdum.
    Annar minni hluti er þeirrar skoðunar að þær breytingartillögur, sem lagðar eru fram af meiri hlutanum, séu flestar til bóta þó að í sumum tilfellum sé ekki gengið nægilega langt. Stærstu gallar frv., þegar tekið er tillit til breytingartillagna meiri hlutans, eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi. Óeðlilega mikið er dregið úr áhrifum kennara á stjórn skóla og má segja að það sé gegnumgangandi nokkuð áberandi í frv.
    Í öðru lagi. Ekki er gert ráð fyrir fjöldatakmörkunum í bekkjardeildir. Þarna finnst okkur að sé um mjög stórt mál að ræða og eitt af þeim málum sem stendur öllu skólastarfi mjög fyrir þrifum, sérstaklega á Stór-Reykjavíkursvæðinu og einnig má nefna Akureyri í því sambandi.
    Þegar sú grundvallarbreyting var gerð á grunnskólanum að hætt var að flokka nemendur í bekki eftir námsgetu þá hlaut það að hafa það í för með sér að það þyrfti að fækka í bekkjardeildum til þess að einn kennari nái að sinna svo stórum hóp. Með sérstökum lögum eins og áður hefur komið fram í tíð núv. ríkisstjórnar hefur verið sett inn ákvæði sem heimilar að fjölga í bekkjum og þá hefur ekkert tillit verið tekið til aðstæðna, til stærðar skólastofa né annars. Og þetta er það sem hefur valdið miklum erfiðleikum og mikilli óánægju á meðal kennara og meðal alls þess fólks sem lætur sig grunnskólamál varða og mér finnst það mjög hættulegt að hafa ekki ákvæði í lögum hvað þetta varðar.
    Í þriðja lagi. Þá nefni ég að of mikil áhersla er lögð á samræmd próf að okkar mati og skal þeim beitt niður í 4. bekk grunnskólans. Það sem við óttumst ekki síst í því sambandi er að það að hafa yfir höfði sér samræmt próf verði of ráðandi í skólastarfi og þar að auki er þetta óskaplega kostnaðarsamt. Miðað við það hvernig staðið hefur verið að fjárveitingum til skóla upp á síðkastið þá finnst mér það með ólíkindum að svo mikil áhersla skuli vera lögð á þetta atriði. Ég er ekki að tala gegn samræmdum prófum. Mér finnst þau mjög mikilvæg við lok grunnskóla og gæti hugsað mér líka að þau yrðu að einhverju leyti tekin upp í 12 ára bekk en að fara með þau alveg niður í 4. bekk er ég einfaldlega andvíg.
    Í fjórða lagi. Þá gagnrýnum við að sérfræðiþjónusta og sérkennsla er illa skilgreind. Ákvæði um sérþarfir nemenda eru óljósar. Þetta höfum við fengið mjög margar ábendingar um í hv. menntmn. og vil ég leyfa mér, hæstv. forseti, að koma lítillega inn á það. En í 2. mgr. 9. gr. frv. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Ráðuneytið skal fylgjast með að allir grunnskólar landsins eigi kost á sérfræðiþjónustu . . . `` Þetta er í sjálfu sér gott svo langt sem það nær en það er spurning hvort það er nægilega skýrt orðað og þetta er málefni sem eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni er nokkur ósamstaða um í þjóðfélaginu, þetta með blöndun eða sérskóla. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki rétt að leggja niður sérskóla en að sjálfsögðu þarf að vera matsatriði hverju sinni hvenær nemendur eiga að sækja slíka skóla. Mig langar, hæstv. forseti, að vitna lítillega í nokkrar umsagnir sem snúa að þessu atriði.
    Ég nefni fyrst umsögn frá Heyrnleysingjaskólanum. Ég tek undir það með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að mér finnst að það hefði átt að kveða sterkar á um að táknmál skuli viðurkennt sem fullgilt mál. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta, undir lok umsagnar frá Heyrnleysingjaskólanum:
    ,,Við teljum og nauðsynlegt að sérmerkja fjármagn frá ríkissjóði til útgáfu á sérhæfðu námsefni sem nýtist fáum nemendum. Við bendum á að námsefni á táknmáli er nánast ekkert og þar af leiðandi tilfinnanlegur skortur á slíku námsefni í skóla sem kennir táknmál sem móðurmál.``
    Nú gerðist það við afgreiðslu fjárlaga fyrir jólin að veitt var 3,8 millj. kr. til þess að Heyrnleysingjaskólinn geti áfram rekið leikskóla og ber að þakka það því að það var mjög mikilvægt fyrir skólann. Mér finnst að framtíð hans sé óljós og legg áherslu á að þeir nemendur sem eru heyrnarlausir þurfa á sérkennslu að halda og blöndun hvorki í leikskóla né í grunnskóla getur verið úrræði fyrir slík börn.
    Safamýrarskólinn er sérskóli á grunnskólastigi sem hefur verið starfandi alllengi. Þar segir m.a., með

leyfi forseta:
    ,,Erfitt er að taka afstöðu til hvort rétt sé að færa rekstur sérskóla til sveitarfélaga þar sem afar óljóst er um útfærslu, einkum hvað varðar fjármál. Hugsanlegt er að fleiri en eitt sveitarfélag standi að rekstri einstakra sérdeilda eða sérskóla og deili rekstrarkostnaði eftir nánari reglum sem þau koma sér saman um.`` Síðan segir og er það sérstaklega dregið hér út, með leyfi forseta:
    ,,Mikilvægt er:
    1. að tryggja að þeim nemendum sem á þurfa að halda standi til boða nám í sérskóla ef þess er óskað, skýr þörf og aðstæður leyfa, t.d. vegna búsetu,
    2. að hægt verði að leita eftir ráðgjöf til sérskólanna varðandi nemendur sem stunda nám í öðrum grunnskólum,
    3. að sérskólarnir hafi áfram það hlutverk að safna og miðla fagþekkingu og þróa frekar vinnubrögð og framkvæmd og séu búin skilyrði til þess (þekkingarmiðstöð á sínu sérsviði).``
    Ég er með bréf úr mínu kjördæmi frá Hvammshlíðarskóla sem er á Akureyri. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Engum blöðum er um það að fletta að skoðanir eru og verða skiptar um aðgreiningu eða blöndun og gott eitt um það að segja að stefna verði skýrt mörkuð. Frá mínum sjónarhóli er það óábyrgt af ríki að afsala sér allri ábyrgð hvað varðar sérhæfða þjónustu vegna ólíkra fatlana.`` Síðar segir: ,,Samkvæmt frv. verður enn aukið á mismunun til sérúrræða fyrir fötluð börn eftir búsetu því að eins og skilja má á gr. 38 verða Reykjavíkurborg afhentar byggingar og búnaður þessara sérstofnana á meðan önnur sveitarfélög virðast eiga að byggja upp þjónustu sína frá grunni.``
    Við þessu vildi ég gjarnan fá viðbrögð frá hv. formanni menntmn. þar sem ekki gafst tími til þess að fjalla um umsagnir í hv. menntmn. áður en málið var tekið þar út. Eins og ég hafði áður sagt verður það að sjálfsögðu til þess að lengja umræðuna í þingsalnum á hv. Alþingi.
    Fræðsluskrifstofa Reykjavíkurumdæmis bendir líka á ákvæði sem snúa að sérfræðiþjónustunni en það virðist vera einhver feluleikur í frv. varðandi orðanotkun og er varla nokkurs staðar minnst á sálfræðiþjónustu. Það hafa komið nokkuð margar ábendingar um að í sérfræðiþjónustu ætti í ýmsum tilfellum að tala um t.d. skólasálfræðinga eða sálfræðing skóla. En þetta er ekki nægilega skýrt í frv. eins og það liggur fyrir Alþingi á þessari stundu og ég tek undir að það hefði verið áhugavert að fjalla miklu meira í hv. menntmn. um þetta mikilvæga úrræði sem má ekki misfarast við yfirfærslu til sveitarfélaganna.
    Í fimmta lagi gerum við athugasemdir við að ekki er kveðið á um að hægt sé að grípa til aðgerða ef sveitarfélög uppfylla ekki ákvæði laga og reglugerða um grunnskólann. Að þessu máli kom ég lítillega í andsvari við hv. formann menntmn. og í hennar svari kom fram að hún telur fyllilega hægt að treysta sveitarfélögunum til að reka grunnskóla. Það má ekki túlka mín orð þannig og það er ekki mín hugsun að það sé eitthvert vantraust á sveitarfélögin að velta því fyrir sér að þegar löggjafinn er um það bil að samþykkja lög eða einhver hluti hv. alþm. ætlar sér að samþykkja ný lög um grunnskóla þar sem grunnskólinn er fluttur að fullu yfir til sveitarfélaganna. Þegar slíkt gerist veltir maður því svolítið fyrir sér hvernig verði tekið á málum ef sveitarfélög standa sig ekki í stykkinu og framfylgi ekki þessum lögum. Það þarf ekkert að leggja það út á versta veg þó að maður velti þessu fyrir sér.
    Ég minntist áðan á atvik sem átti sér stað í Noregi þar sem sveitarfélögin höfðu fullan rétt til þess að nota fjármagn sem Stórþingið hafði ætlast til að yrði notað til grunnskólans í annað. Það er einmitt þetta sem ég hef áhyggjur af og finnst að sé ekki nægilega skýrt og hefði viljað taka á með öðrum hætti í frv.
    Sveitarfélögin eru sjálfstætt stjórnsýslustig eins og allir vita en það var athyglisvert að sjá það í umsögn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga að þeir velta því upp hvort e.t.v. þurfi að setja á laggirnar sérstaka úrskurðar- og samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um grunnskólamál. Þangað væri hægt að vísa ágreiningsmálum sem upp kunna að koma varðandi það hvort farið er að lögum og reglugerðum en samkvæmt frv. hefur menntmrn. ákveðna eftirlitsskyldu en eftirlitsskylda er eitt og það að geta gripið til einhverra aðgerða er annað. Þetta atriði um sérstaka úrskurðar- og samráðsnefnd var aldrei rætt neitt í hv. menntmn. þannig að ég vildi gjarnan fá skoðun hv. formanns á þessari ábendingu sem kemur frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Einhvers staðar verður að vera vettvangur til þess að geta lokið málum sem upp kunna að koma og varða það að sveitarfélögin standi sig hvað varðar lög og reglugerðir.
    Í sjötta lagi höfum við áhyggjur af því að hlutverk skólanefnda sé of umfangsmikið, sérstaklega með tilliti til lítilla sveitarfélaga. Það hefur verið gagnrýnt í litlum sveitarfélögum og fólk hefur kvartað yfir því að það sé erfitt að sitja í barnaverndarnefnd þar sem fámennið er hvað mest þegar erfið mál koma upp. Ég get alveg séð það fyrir mér að það geti verið alveg það sama með skólanefndirnar því að skólastjóri vísar samkvæmt frv. ýmsum viðkvæmum málum til skólanefndar sem hún á síðan að taka á. Þetta er atriði sem hefur verið gagnrýnt og ég tek undir þá gagnrýni. Mér finnst gengið of langt þarna en ég geri mér grein fyrir því að ýmislegt sem fræðsluskrifstofurnar höfðu með höndum áður verður annaðhvort að flytjst heim í sveitarfélögin eða til ráðuneytis sem er í Reykjavík og ekki finnst mér það betra.
    Í sjöunda lagi gerum við athugasemdir við það að okkur finnst samkvæmt frv. að verkefni séu flutt frá fræðsluskrifstofum til menntmrn. Í dag vitum við lítið um það hvernig sú starfsemi verður sem á að taka við af fræðsluskrifstofunum. Það er eitt af því sem ég vildi skoða miklu betur í hv. menntmn. og fannst það vera ábyrgðarhluti af nefndinni að afgreiða málið án þess að hafa fengið nokkra hugmynd um það

hvernig þessi mál standa víðs vegar um landið. Sú tillaga sem ég gerði um að fá fulltrúa frá Norðurlandi vestra til viðræðu við nefndina, og ég nefndi sérstaklega það kjördæmi vegna þess að Samband ísl. sveitarfélaga sýndi málinu áhuga með því að senda okkur vandaða umsögn um það, en því var hafnað að þeir kæmu á fund og ég held að hv. formaður menntmn. hafi bara ekki nokkra hugmynd um hvernig þessi mál standa, það sé bara treyst á guð og lukkuna að sveitarfélögin nái einhverri samstöðu. Það sem er kannski hvað varhugaverðast er það að bæirnir taki sig út og þeir móti einhverja skólamálaskrifstofu en sveitarhrepparnir verði út undan. Þetta er mjög stórt mál því að auðvitað er þetta geysiviðfangsmikið og mikilvægt starf og mikilvæg þjónusta sem er innt af hendi á fræðsluskrifstofum og hefur verið að eflast mjög mikið á síðustu árum.
    Hér er aðeins fátt upp talið sem 2. minni hluti telur að sé ekki útrætt og hefur efasemdir um og snertir það grunnskólafrv. sem hér er til umfjöllunar.
    Aðalathugasemdir 2. minni hluta lúta að afgreiðslu málsins nú í andstöðu við sveitarfélögin og kennarafélögin þar sem lausn hefur ekki fundist á mikilvægum skilyrðum sem þessir aðilar setja við því að grunnskólinn flytjist til sveitarfélaganna. Auk þess hefur málið ekki fengið fullnægjandi umfjöllun í hv. menntmn.
    Þess vegna er lögð fram tillaga til rökstuddrar dagskrár um að vísa málinu frá. Verði sú tillaga felld, sem mér finnst mjög ótrúlegt að verði, þá munu fulltrúar Framsfl. sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Undir nál. ritar auk þeirrar sem hér stendur Jón Kristjánsson.
    Ég vil aðeins koma frekar inn á það sem kemur fram í lok okkar nál. og það er þetta með að sitja hjá við afgreiðslu á svo mikilvægu máli sem grunnskólafrv. er. Auðvitað hefði verið miklu ánægjulegra að geta greitt því atkvæði en til þess að svo hefði getað orðið hefði þurft að vinna meira í hv. menntmn. og taka tillit til ýmissa athugasemda sem við höfum við frv. og ekki gafst tími til að ræða.
    Hæstv. forseti. Í lok míns máls, ég hef víst leyfi til þess að tala þrisvar og ætla ekki að orðlengja þetta sérstaklega núna, eru nokkur atriði sem ég vil spyrja hv. formann um vegna þess að hún er viðstödd umræðuna. Það varðar t.d. ábendingu frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Mér finnst eins og það sé ekki almennilega ljóst miðað við brtt. meiri hlutans og frv. eins og það liggur fyrir hver það er sem tekur ákvörðun um það hvort námsgögn eru afhent nemendum ókeypis eða ekki. Ég veit ekki hvort þetta er eitthvað sem er ljóst en ég hef ekki tekið nógu vel eftir en mér finnst að þessi ábending sem kemur fram frá Sambandi ísl. sveitarfélaga eigi við rök að styðjast að þarna þurfi að vera skýrar að orði kveðið.
    Þá langar mig til að tala um stóran þátt í öllu skólastarfi og mjög mikilvægan þátt sem reyndar hefur verið vanræktur bæði á grunnskólastigi og framhaldsskólastigi og þar á ég við námsráðgjöf. Við höfum fengið bréf frá Félagi námsráðgjafa sem harmar að í frv. til laga um grunnskóla er lítil sem engin umfjöllun um námsráðgjöf og hlutverk námsráðgjafa líkt og er í 14. gr. frv. til laga um framhaldsskóla. Hér segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Eins og fram kemur í greinargerð með frv. til laga um framhaldsskóla þá er mikið fall við upphaf framhaldsskóla og margir nemendur hverfa frá námi.`` Á bls. 18 segir orðrétt: ,,Einnig er gert ráð fyrir að nemendum standi til boða námsráðgjöf til að auðvelda námsval í upphafi náms og á síðari stigum þess. Með inntökuskilyrðum, námsráðgjöf og aukinni áherslu á náms- og starfsfræðslu í unglingadeildum grunnskóla skapast forsenda fyrir því að nemendur velji sér nám í framhaldsskóla sem hentar námsundirbúningi þeirra og áhugasviði.``
    Þetta finnst mér vera eitt af stóru málunum, þ.e. að hjálpa börnunum og það strax í grunnskóla til að finna sér rétta leið og um það eru ekki nægilega skýr ákvæði í frv. sem við erum hér að fjalla um.
    Þá langar mig að koma aðeins að foreldraráðunum sem kveðið er á um í frv. og er það ágætismál í sjálfu sér. Þar kem ég aftur að litlu sveitarfélögunum en um þetta efni var ábending frá Sambandi sveitarfélaga í Norðurlandi vestra sem telja ekki að þetta sé úrræði í litlum sveitarfélögum. Það er spurning hvort í slíkum tilfellum þar sem enn þá eru óskaplega litlir hreppar á Íslandi og það liggur við að allir séu komnir í nefndirnar þegar við tökum sveitarstjórnina, skólanefndina og þetta foreldraráð, hvort ekki hefði verið miklu aðgengilegra að foreldrar hefðu átt beina aðild að skólanefndum og spurning hvort það er ekki einmitt skref sem hefði átt að stíga til fulls.
    Ég nefndi áðan að menntmrn. fengi mikið hlutverk samkvæmt frv. Eitt af því sem menntmrn. þarf að sjá um að verði gert, hvort sem það ætlar að gera það sjálft eða með því að fá aðra í það verkefni og hafa vottunarstofur verið nefndar í því sambandi, þá verður það óneitanlega yfirþyrmandi starf að gera úttekt á sjálfsmati skóla á fimm ára fresti. Ég viðurkenni það að ég sé ekki fyrir mér hvernig það getur gerst. En þar erum við að skapa heilmikla vinnu og það er kannski gott og þá er kannski eitthvað jákvætt við þetta frv. Ég veit að þetta er eitt af því sem hefur ekki verið hugsað til enda en ég geri hins vegar ekki lítið úr því að það þarf að hafa eftirlit með sjálfsmati og það mat á skólastarfi sem tekið er inn í þetta frv. finnst mér vera mikilvægt og ég styð það eindregið. En mér þætti mjög forvitnilegt að frétta eitthvað frekar af því hvort meiri hluti hv. menntmn. sér fyrir sér þetta ferli varðandi úttekt á mati á skólastarfi, eftirlitið sem sagt. Það sé ég fyrir mér sem mikið starf. Fleira mætti nefna í því sambandi. Það er geysilega mikið sem menntmrn. ætlar samkvæmt frv. að hafa eftirlit með og fylgjast með þannig að ég er ekki búin að sjá að hér sé verið að auka mikið valddreifingu. Ýmislegt finnst mér frekar bera merki miðstýringar.
    Hæstv. forseti. Það er af mörgu að taka og ástæða til að hafa allnokkra umræðu um grunnskólann og grunnskólamálin. En ég vil þó bara ítreka það í lokin að ástæða þess að við leggjum fram frávísunartillögu í þessu máli er fyrst og fremst sú að það er engin samstaða um að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna í dag sem hefði verið svo mikilvægt að hefði getað náðst.