Grunnskóli

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 18:14:53 (4415)


[18:14]
     Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður beindi til mín nokkrum spurningum. Það er ljóst að ég get ekki svarað þeim öllum í stuttu andsvari en ég mun gera það síðar í umræðunni. En þó var fátt eitt sem ég vildi bregðast við strax.
    Mér hefur fundist í umfjöllun hv. þm. koma fram töluvert vantraust á sveitarfélögin og ég er mjög undrandi á því að heyra þann tón í öllum þeim málflutningi. Mér finnst það ósanngjarnt í garð sveitarfélaganna. Ég treysti þeim mjög vel fyrir verkefninu og ég ítreka það að mér finnst þau hafa sýnt það í verki að þau hafi fullan hug á því að standa vel að yfirfærslu grunnskóla.
    Það var spurt sérstaklega um verkefni fræðsluskrifstofanna. Mér var ekki alveg ljóst í hverju þær athugasemdir voru fólgnar nema það væri það eftirlit sem ráðuneytinu er fengið. Ég vildi upplýsa það hér vegna þess að þingmaðurinn fullyrti að þau mál væru öll í lausu lofti að í ýmsum fræðsluumdæmum hefur verið unnið mjög vel að því að koma þessum verkefnum fyrir eftir yfirtöku sveitarfélaganna á grunnskólanum. Ég veit að sú vinna er mjög langt komin og ég get nefnt að á Suðurlandi hafa menn unnið mikla vinnu, Reykjanesi, Norðurlandi eystra og fleiri umdæmi mætti nefna þannig að ég tel að það sé verið að vinna mjög markvisst að þessu máli. Ég vísa líka í ályktun frá landsþingi sveitarfélagana sl. haust þar sem sérstaklega er beint til sveitarfélaganna að þau fari að huga að þessum málum.