Grunnskóli

96. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 00:06:48 (4425)


[00:06]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vissulega getur það gerst að alþingismenn geti orðið hagsmunasamtökum fyllilega sammála, það er rétt. En það er hins vegar athyglisvert að stjórnarandstaðan hefur á þessu kjörtímabili yfirleitt alltaf tekið upp óbreyttan málflutning sérhverra hagsmunasamtaka sem hafa fjallað um þau mál sem hér hefur verið meginmál þessarar ríkisstjórnar, þ.e. að ná böndum á ríkisútgjöldunum sem hefur gengið erfiðlega og var raunar líka helsta viðfangsefni fyrri ríkisstjórnar. Þeir hafa gerst málsvarar allra athugasemda hagsmunasamtaka, undantekningarlaust. ( Gripið fram í: Sjávarútvegsmálin.) Undantekningarlaust. Og þá er nú rétt að heyra það hér úti í sal sagt að það sé undantekning um sjávarútvegsmálin. Það er að vísu rétt af því að þar eru allir flokkar klofnir.
    Síðan var verið að mótmæla því að menn hefðu haft gamanmál í frammi varðandi verkfallið sem ég var að minnast á hér frá 1989. Það er bara því miður ekki rétt. Hafi hv. þm. sjálfur ekki haft slík ummæli í frammi þá var með frammíköllum verið að reyna að gera lítið úr þessu hér af hálfu hv. þm. Svavars Gestssonar og það býst ég við að hafi heyrst. Þannig að ég tek því ekki þegjandi og hljóðalaust sem kennari að menn geri lítið úr þessu verkfalli. Ég mun aldrei gera það. Ég býst við að ég hafi öðlast þarna reynslu fyrir lífið og það hafa margir aðrir kennarar gert og m.a. kinkar nú hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir kolli því hún þekkir þessa reynslu.