Grunnskóli

96. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 00:15:24 (4430)


[00:15]
     Jón Kristjánsson :

    Herra forseti. Það er dálítið merkilegur skilningur á því hvenær sé kvöld þegar hv. þingmenn eru látnir halda ræður eftir kl. 12 á kvöldfundum. Ég er viss um að það tímatal gildir í Húnavatnssýslu að það sé komin nótt kl. 12 en eigi að síður ætla ég að leggja nokkur orð inn í þessa umræðu sem hér hefur staðið í dag.
    Það hefur verið deilt um þetta mál einkum á þeim forsendum að afgreiðsla þess sé ekki tímabær nú. Það hafa verið færð rök fyrir þeirri frávísunartillögu sem minni hluti hv. menntmn. flytur.
    Það hefur einnig verið rifjað upp hvernig þetta frv. varð til og þær aðferðir sem voru í kringum það að undirbúa það. Ég vil segja það eitt um það mál að mér dettur ekki í hug að telja að það hafi ekki verið hæfir menn í þeirri 18 manna nefnd sem undirbjó frv. Hins vegar var skipun hennar óskynsamleg og óskynsamleg byrjun á þessu máli. Ég ætla svo sem ekki að hafa fleiri orð um það.
    En það hefur komið fram að auðvitað eru ýmis atriði í þessu frv. til bóta en það er nú svo að það hafa verið samþykkt grunnskólalög fyrr og það er ekki búið að framkvæma þau grunnskólalög sem í gildi eru þannig að það vill verða svo að góður vilji gerir enga stoð.
    Það er þannig með þessa löggjöf sem við erum að samþykkja hér ef af verður að Alþingi samþykkir lögin en ætlar síðan sveitarfélögunum að framkvæma þau. En það er þátturinn sem snýr að sveitarfélögunum í þessu máli sem hefur verið mest til umræðu hér og ég ætla að víkja örlítið að honum. Auðvitað er það einn veigamesti þátturinn í þessu frv. að laun kennara við grunnskóla eiga að færast yfir til sveitarfélaganna en árið 1989 var samkvæmt nýrri verkaskiptingu rekstur grunnskóla fluttur til sveitarfélaganna. Það var umdeilt mál á sínum tíma og einnig var það umdeilt mál að t.d. rekstur tónlistarskóla fór þá algerlega yfir til sveitarfélaga. Það var tortryggni um það mál og fleiri kennarar og starfsmenn tónlistarskólanna báru kvíðboga fyrir því. En ég má segja að það hefur reynst vel og það varð til þess að áfram var haldið að hugsa um þessi efni og fyrstu tillögur í þessu efni eftir gömlu verkaskiptinguna 1989 má rekja til starfs svokallaðrar sveitarfélaganefndar sem var skipuð árið 1991 og hélt áfram að íhuga nýja verkaskiptingu.
    Það hefur verið fullyrt hér við þessa umræðu í dag, m.a. af hæstv. menntmrh., að það sé mikil samstaða hjá sveitarfélögunum í landinu um þetta mál. Ég verð því miður að hryggja hæstv. menntmrh. með því að það er ekki alger samstaða hjá sveitarfélögum í landinu um málið. Stóru sveitarfélögin kalla á breytta verkaskiptingu í þessu efni en þau minni bera kvíðboga fyrir þessari breytingu. Það er spurt mjög að því hvort þetta mál fari í gegn á Alþingi í vetur og það er einmitt vegna þess að minni sveitarfélögin bera kvíðboga fyrir þessari breytingu og telja sig fara út í óvissuna, eru óviss um það með hverjum hætti þau geta staðið að rekstri skólanna eftir þessa breytingu, þá er þessi afgreiðsla hér alveg ómögulegt svo ekki sé meira sagt, að málið sé afgreitt í þvílíkri óvissu sem það er nú því að það er hreinlega ekki búið að klára málið.
    Það hefði verið rétt afgreiðsla á þessu máli að það fylgdist að afgreiðsla tekjustofna sveitarfélaga, og afgreiðsla á réttindamálum kennara og að það hefðu verið lögð fram frumvörp um nauðsynlegar lagabreytingar varðandi þetta um leið og þetta frv. er samþykkt. En það er ekki gert og þess vegna er málið í þvílíkri óvissu sem það er nú.
    Það er alveg ljóst að aðstaða sveitarfélaganna til þess að taka öll þessi verkefni að sér er afar misjöfn og auðvitað eru lagðar á þeirra herðar margvíslegar skyldur með þessu grunnskólafrv. sem hér er verið að ræða um, margvíslegar skyldur fram yfir það að greiða kennurunum laun. Og aðstaða sveitarfélaganna til þess að svara þeim skyldum er afar misjöfn.
    Ég sat í hinni svokölluðu sveitarfélaganefnd á sínum tíma þar sem m.a. þessi verkaskipting var til umræðu. Og það var alveg ljóst af þeim viðræðum, nefndin átti viðræður við nánast hverja einustu sveitarstjórn í landinu, að málefni grunnskólans voru númer eitt, tvö og þrjú í huga þessara sveitarstjórnarmanna og alviðkvæmasta málið í sambandi við sameiningu sveitarfélaga og nýja verkaskiptingu sveitarfélaga. Öllum sveitarstjórnarmönnum var grunnskólinn og málefni skólanna efst í huga varðandi þessi mál. Ég tala þar af reynslu því að ég sat fjölmarga fundi víða um land um þetta mál þar sem það var til umræðu hvernig þessi mál yrðu leyst eftir sameiningu sveitarfélaga og breytta verkaskiptingu. Og ég vil undirstrika að það má ekki gleymast í framhaldsvinnu þessa máls, hvað sem verður um afgreiðslu hér sem við reiknum með að ríkisstjórninni og stjórnarliðum sé full alvara að knýja þetta mál í gegn fyrir þinglok, þá má það ekki gleymast hver aðstaða smærri sveitarfélaganna er til að sinna þessum verkefnum. Þetta mál má ekki koma niður á jafnrétti til náms sem á að vera fyrsta takmark með þessum grunnskólalögum.
    ( Forseti (PJ) : Mætti ég biðja hv. þm. að slota fundi þarna á einum stað í þingsalnum?) ( Gripið fram í: Skal gert, forseti.)
    Hér hefur verið nokkur umræða um áhrif og áhrifaleysi Sjálfstfl. í menntamálum. Ég ætla svo sem ekki að blanda mér mikið inn í þá umræðu. Hæstv. menntmrh. sagði að það væri svo vont að skipta oft um menntmrh. Það má vel vera en það vill nú svo til að það eru kosningar hér á fjögurra ára fresti og það er nú yfirleitt skipt um ráðherra og verður vonandi skipt um ráðherra eftir kosningar í vor ( Gripið fram í: Láttu ekki svona.) og það komi önnur og betri ríkisstjórn. Ég held satt að segja að Sjálfstfl. hafi ekki af sérstaklega miklu að státa í menntamálum á þessu kjörtímabili. Ég ætla svo sem ekki að fara út í það nánar en mér finnst hæstv. ráðherra tala af nokkurri svona sjálfumgleði í þessu efni.
    Hæstv. menntmrh. sagði að sveitarfélögin hefðu sótt mjög fast að fá grunnskólann. Það er rétt, það

eru til sveitarfélög sem sækja það fast. En það eru stór sveitarfélög, sveitarfélög sem eru með t.d. skólaskrifstofur innan sinna vébanda og það eru ekki miklar skipulagsbreytingar. Það eru einfaldari stjórnunarhættir í stórum skólum þar sem allur kostnaður við skólana heyrir undir sama aðilann. En hins vegar er það svo að a.m.k. úti á landsbyggðinni þar sem ég þekki til skipa fræðsluskrifstofurnar veglegan sess í þessu kerfi. Það er eitt af því sem ég vil vara mjög við að stefna þeim málum út í óvissuna eins og gert er. Það er jú sagt: Sveitarfélögin sjá um þetta, þau munu koma sér upp skrifstofum til að sjá um þessa þjónustu sem fræðsluskrifstofurnar hafa séð um hingað til. En er nokkur trygging fyrir því? Er nokkur trygging fyrir öðru en að stærri sveitarfélögin taki sig út úr með þessa þjóustu og skilji minni sveitarfélögin eftir? Þetta er eitt af þeim málum sem eru í óvissu varðandi þetta mál.
    Það er einnig borin von að minni sveitarfélögin ráði við þann kostnað sem fylgir grunnskólanum nema Jöfnunarsjóður sveitarfélaga komi inn í það mál. Það er eitt af því sem er alveg í óvissu einnig eftir hvaða reglum jöfnunarsjóðurinn fer í þessu efni. Það getur farið svo þegar þessi breyting er um garð gengin að rekstur grunnskólanna verði smærri sveitarfélögunum um megn og það verði farið að sameina skóla í stórum stíl í sparnaðarskyni. Það er viðkvæmt mál það get ég sagt hæstv. menntmrh. Það eru til dæmi um það hve þau átök geta orðið harðvítug þegar á að fara að leggja niður skóla ef það verður í auknum mæli.
    Ég ætla nú ekki að hafa að þessu sinni öllu fleiri orð um þetta mál. Mitt innlegg í þessa umræðu eru varnaðarorð að gá að sér að taka þessa ákvörðun nú og stefna síðan að allri útfærslunni út í óvissuna. Þetta er það viðkvæmt mál að það getur leitt til ófarnaðar, það getur leitt til þess að þessi verkefnatilflutningur sem er nokkuð víðtækt samkomulag um þó að það sé langt frá því að sveitarstjórnarmenn séu einhuga um þetta mál, það getur leitt til ófarnaðar að ganga illa frá málinu og flaustra að því að afgreiða þessa löggjöf áður en það er sýnt hvernig sveitarfélögin eigi að taka við þessum verkefnum.