Náttúruvernd

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 11:35:36 (4436)


[11:35]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt hér í þessum ræðustól í umræðum um það dagskrármál sem er nú til umræðu að það er ekki svo að þessi uppstokkun sem hér er verið að ræða á málum náttúruverndar í landinu sé eitthvað sem hafi fyrst og fremst skotið rótum í mínum huga eða starfsmanna umhvrn. Ég bendi á það að innan Náttúruverndarráðs hefur árum saman verið talað um nauðsyn þess að breyta skipan náttúruverndarmála og aðlaga hana þeim breytingum sem hafa orðið síðustu árin. Hér á ég við t.d. stofnun umhvrn og síðan setningu ýmissa laga sem hafa komið í kjölfar þess, ekki síst setningu laga um umhverfismál sem eru afskaplega yfirgripsmikil og hafa mikil áhrif, ekki síst á eftirlit með framkvæmdum í landinu. Ég vil aftur, virðulegi forseti, minna á það sem þáv. varaformaður Náttúruverndarráðs, Elín Pálmadóttir, mælti fyrir hönd Náttúruverndarráðs árið 1987 þegar hún sem varaformaður Náttúruverndarráðs lýsti kerfinu þannig að það væri orðið hálfgerður bastarður. Svo ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna beint til orða Elínar Pálmadóttur: ,,Stjórnskipulega er Náttúruverndarráð því hálfgerður bastarður.``
    Hún tekur það líka fram að það hafi strax verið skiptar skoðanir um þetta mál árið 1971 þegar núgildandi lög voru sett. Það sem mér finnst mikilvægt í þessari umræðu er að menn geri sér grein fyrir því að það sem verið er að gera með þessu frv. er að breyta stöðunni eins og hún er í dag. Í dag er hún nánast orðin þannig að það er tvöfalt kerfi, það er tvöfalt stjórnkerfi og það er tvöfalt eftirlitskerfi. Þannig er það.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir ræddi það talsvert í ræðu sinni um gjaldtöku og hún lýsti þeirri skoðun sinni og það voru reyndar fleiri þingmenn sem ræddu hér um gjaldtöku enda er það eitt af þeim pólitísku málum sem ég skil vel að er afskaplega umdeilt í þessu frv. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að hafa heimild til gjaldtöku, annars vegar til þess að standa undir kostnaði ýmissa hluta, eins og t.d. bæklinga og þjónustu sem veitt er. Ég kalla það þjónustu þegar menn t.d. leggja og viðhalda göngustígum sem lagðir eru til þess að vernda landið þannig að þar er um eins konar forvarnastarf að ræða.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gat þess í sinni ræðu einnig að það væri vafasamt hvort hægt væri að ná því markmiði frv. að draga úr aðsókn ferðamanna á tiltekin svæði sem sæta álagi með því að nota gjaldtöku. Hann sagði að það væri allavega nauðsynlegt að slík gjaldtaka yrði talsvert umfangsmikil til þess að stemma stigu við aðsókn manna á svæðinu. Ég vil þess vegna benda á svæðið Höfða í Mývatnssveit þar sem ég hef komið nokkrum sinnum. Þegar maður kemur þangað á afskaplega lítið svæði, snyrtilegt og sem er vel við haldið, þá greiðir maður 100 kr. Hvaða áhrif hefur það? Mér er sagt það af landvörðum í Mývatnssveit að ein afleiðing þess sé sú að stærri hópar ferðamanna séu teknir að sneiða hjá þessu svæði þannig að þarna er um það að ræða að afskaplega hófleg gjaldtaka bersýnilega hefur áhrif. Ég dreg því þá ályktun að það sé með þessu hægt að beita gjaldtöku til þess að stýra ef menn vilja. Ég tel að það sé réttlætanlegt ef um er að ræða svæði sem sæta ánauð vegna of mikillar ágengni. Ég bendi á það að allar spár vísa til þess að fjöldi erlendra ferðamanna muni stóraukast á næstu árum og það er nauðsynlegt fyrir okkur að byggja upp ný svæði og það kann að vera nauðsynlegt líka að beita gjaldtöku með þessum hætti til þess að vernda fjölfarin lítil svæði. En auðvitað er þetta umdeilt mál og ég skil það óskaplega vel.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir ræddi líka um eftirlitshlutverk Landvörslunnar. Nú er það svo að 5. gr. frv. kemur í staðinn fyrir 29. gr. núgildandi laga. Það er hins vegar ekki ætlunin að breyta hinu raunverulega eftirlitskerfi á neinn máta. Náttúruverndarráð hefur í dag haft eftirlitsmenn, u.þ.b. einn í hverju kjördæmi sem hafa eftirlit með þeim framkvæmdum sem ástæða er til. Það má nefna vegagerð, línulagnir, virkjanir o.s.frv. Hátturinn hefur verið sá að viðkomandi framkvæmdaraðili hefur greitt kostnaðinn við þetta eftirlit. Lagastoðin fyrir þessu er hæpin, en það er verið að festa hana hérna. Þetta kerfi hefur reynst vel og það hefur verið gott samstarf við framkvæmdaraðilana.
    Það hefur verið gagnrýnt m.a. af hv. þm. Kristínu Einarsdóttur og fleirum að það sé ekki alveg ljóst hver gæti hagsmuna náttúruverndar vegna mats á umhverfisáhrifum. Nú er það svo að menn verða að gera sér grein fyrir því að mat á umhverfisáhrifum er opið ferli þar sem allir geta gert athugasemdir til skipulagsstjóra um þau mál.

    Samkvæmt 5. gr. frv. á Landvarslan að gæta þess að framkvæmdirnar spilli ekki náttúrunni og stofnuninni ber að gera athugasemdir til skipulagsstjóra ef hún telur þess þörf og samkvæmt 12. gr. ber Náttúruverndarráði að gera slíkt hið sama. En menn verða að gera sér grein fyrir því að undirbúningur framkvæmda hefur gjörbreyst við lög um mat á umhverfisáhrifum. Þar er sleginn ansi gildur varnagli. Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því.
    Mér fannst hv. þm. Jón Helgason misskilja 5. gr. í þeirri ræðu sem hann flutti hérna og hann taldi að verið væri að setja eins konar lögreglu sem fylgdist með athöfnum hvers einasta manns í landinu. Ég tók mál hv. þm. Jóns Helgasonar þannig en það er auðvitað alls ekki svo. Ég vil bara ítreka það að ætlunin er ekki að breyta á neinn hátt hinu raunverulega eftirlitskerfi sem núna er á. Það er ekki verið að búa til hlutverk einhvers stóra bróður. En það kann vel að vera að það væri nauðsynlegt að skýra þetta með einhverjum hætti betur. Ég segi það að ég er alveg til viðræðu um það.
    Menn hafa gagnrýnt að eftirlitshlutverkið og framkvæmdarvaldið séu á sömu hendi. Ég lít svo á að hér sé um nokkurn misskilning að ræða. Eftirlitshlutverk Landvörslunnar er fyrst og fremst hlutverk eftirlits hins opinbera með framkvæmdum sem eru ekki á vegum stofnunarinnar eða umhvrn. þannig að ég lít ekki svo á að hér sé um hagsmunaárekstur að ræða. Ég bendi á það að í frv. sem var lagt fram í fyrra var eftirlitshlutverkið á hendi Náttúruverndarráðs. Ég hef skilið mál þingmanna þannig, til að mynda hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar sem ræddi snjallt mál og langt áðan, að menn séu óhressir með það að þetta eftirlitshlutverk sé með þeirri breytingu að það sé nú komið yfir á Landvörsluna. Það kann að vera, ég lít ekki svo á, en ég er til viðræðu um þetta mál. Þarna er um að ræða að því er mér finnst í máli þingmanna sem hafa rætt um þetta mál sennilega einn stærsta ásteytingssteininn, annars vegar á skoðun minni og frv. og hins vegar skoðun þeirra sem hér hafa rætt. Ég er alveg reiðubúinn að fara að ráðum hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson og gera það sem hægt er í samráði við menn til að mölva þann ásteytingsstein.
    Eitt af því sem nánast hver einasti hv. þm. stjórnarandstöðunnar hefur drepið á er stjórn Landvörslunnar. Einn þingmaður nefndi það sjö sinnum. Svo mikið var honum niðri fyrir. Það sem menn sætta sig illa við er að umhvrh., eins og einhver orðaði það, sé að safna að sér miklu valdi og setja þrjá menn í stjórn Landvörslunnar og skipa þá alla sjálfur. Skiljanlegt sjónarmið. Muna menn hvernig þessu var varið í fyrra? Þá var gert ráð fyrir því að þarna væri um stjórn að ræða þar sem væru tvær tilnefningar. Það spunnust harðar deilur um þessar tilnefningar. Ýmis samtök sem ekki höfðu tilnefningarrétt í þessa litlu stjórn mótmæltu þessu harðlega og vildu koma sínum fulltrúa þar að. Þetta var gagnrýnt mjög harðlega af mörgum umsagnaraðilum og margir þeirra töldu að þeir ættu ekki síður en einhverjir aðrir að fá menn í stjórnina.
    Ég minni á að í þessari umræðu komu fram ýmis sjónarmið um það hvernig eigi að hafa þessa stjórn. Áður en við ræðum það verða menn að gera sér grein fyrir því að hér er ekki um að ræða stóra stofnun. Þarna er um að ræða stofnun sem í framtíðinni munu starfa við einhvers staðar á bilinu 7--10 manns. Kannski fleiri ef umsvif hennar aukast sem ég á ekki von á. Ég á frekar von á því að það dragi úr þeim einmitt vegna ákvæða sem er að finna í frv.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hugsaði upphátt í þessum ræðustól og sagði: Til hvers að hafa stjórn? Það er svo sannarlega sjónarmið sem er vert að íhuga. En mér finnst sjálfum að það væri mjög óþægilegt og óhentugt að hafa stóra stjórn með mörgum tilnefningum yfir svona lítilli stofnun. Mér finnst hins vegar vel koma til greina að yfir svona stofnun sé engin stjórn en þá erum við náttúrlega komin enn meira undir vald umhvrh. sem ég skil vel að menn vilji ekki. Ég segi að það var ekki ætlun mín að safna miklu valdi í hendur umhvrn. Þær breytingar sem menn hafa bent á í frv. og talið dæmi um það eru einungis aðlaganir að því nýja kerfi sem verið er að leggja til í frv. Það er hins vegar heppilegt, tel ég, að hafa einhvers konar yfirstjórn sem fer yfir starfs- og fjárhagsáætlun frekar að það sé einungis á hendi eins framkvæmdastjóra. En þetta mál, eins og ég lýsti yfir í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur þegar ég hafði framsögu fyrir frv. í nóvember, er mér svo sannarlega ekki fast í hendi.
    Þá kem ég að öðrum þætti sem menn hafa gagnrýnt mjög og það er að hér sé um að ræða aukna miðstýringu. Ég get alls ekki fallist á það að hér sé um að ræða aukna miðstýringu. En ég bendi á það að í dag er það svo að Náttúruverndarráð sem hefur þessi mál á sinni hendi er gríðarlega miðstýrt apparat, gríðarlega valdamikið og miðstýrt apparat.
    Eins og kemur skýrt fram í athugasemdum með frv. þá er Landvarsla ríkisins í rauninni að stofni til skrifstofa núverandi Náttúruverndarráðs. Hún er ekki nýtt bákn, síður en svo. En það finnst mér að margir hafi misskilið. Það er því jafnvel hæpið að kalla hana nýja stofnun. Það sem við erum að gera er að við erum að laga stjórnsýsluna að breytingum. Þessar breytingar felast annars vegar í stofnun umhvrn. og nýjum lögum á sviði umhverfismála. Ég ítreka að það er sérstaklega mikilvægt að benda á áhrif nýrra laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og lög um mat á umhverfisáhrifum.
    Ein leið til þess að draga úr miðstýringunni sem er fyrir í núverandi kerfi er einmitt að efla náttúruverndarnefndirnar. Hv. þm. Jón Helgason benti á það. Má vera að ég hafi misskilið mál hv. þm. en mér fannst hann misskilja hlutverk náttúruverndarnefndanna eins og það er í dag. Mér fannst eins og hann skildi það svo að vægi þeirra væri mjög mikið og þær væru í rauninni undirstaða kerfisins. Það væri æskilegt að það væri þannig. En hið rétta er að nefndirnar eru valdalitlar, það er lögð lítil áhersla á þær af sveitarfélögunum og þær hafa aldrei virkað eins og til var ætlast. Það var einmitt þess vegna sem Náttúruverndarráð hefur lengi haft það á sinni stefnu að stækka umdæmi þessara nefnda. Það var gert í hinu upphaflega frv. sem var lagt fram í fyrra. Það sætti mjög harðri gagnrýni sveitarstjórnarmanna og það var í samræmi við vilja sveitarstjórnarmanna að það var fallið frá því. Ég hef ítrekað sagt það að með þessu frv. er verið að fara í fyrri af tveimur hlutum á uppstokkun náttúruverndarmála, þ.e. núna erum við að taka á stjórnkerfinu síðan verður farið í afganginn á endurskoðuninni.
    Ég féllst á það sjónarmið eftir viðræður við sveitarstjórnarmenn að þeim hluta sem lýtur að valdi, verksviði og umdæmum náttúruverndarnefndanna yrði frestað til seinni hluta, það var gert samkvæmt þeirra ósk. En ég er sammála því að náttúruverndarnefndirnar gætu orðið, ef tækist að fella undir þær traustar stoðir, undirstaðan í þessu kerfi. Þær eiga að vera það. Ég er sammála því.
    Einhver hv. þm. sem hér tók til máls ræddi málið þannig að kleift væri að hafa þetta hvort tveggja. Annars vegar að hafa náttúruverndarnefndir einstakra sveitarfélaga og hins vegar einhvers konar yfirnefndir sem tækju þá þess vegna á náttúruvernd í heilum kjördæmum. Ég segi það sem mína skoðun að mér lýst ekki á slíkt kerfi sem er í rauninni tvöfalt kerfi. Ég vil benda á það, sem mér finnst menn einfaldlega ekki skilja í þessari umræðu, að eitt veigamikið atriði er að finna í frv. sem dregur alveg stórlega úr miðstýringu. Í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir því að sveitarfélög, að heimamenn, að félagasamtök, eins og t.d. ferðafélögin, geti tekið að sér umsjón með svæðum sem eru undir í þessum efnum, þ.e. með friðlöndum. Það skiptir auðvitað alveg gríðarlega miklu máli. Þar með er þessi umhvrh. að lýsa yfir þeim vilja sínum að valdið verði fært út til sveitarfélaganna. Auðvitað skiptir þetta verulega miklu máli.
    Ég bendi líka á það nýmæli sem er í frv. að í kringum þjóðgarðana verði settar upp ráðgjafarnefndir sem hafa lagastoð með þátttöku heimamanna. Þetta er ekki hægt annað en túlka sem vilja til þess að færa aukið vald út til heimamanna.
    Hv. þm. Jón Kristjánsson ræddi nauðsyn þess að stíga skrefi lengra og fela þeim t.d. umsjón með þjóðgörðunum. Ég tók undir slíkar hugmyndir í ræðu sem ég flutti, mig minnir að það hafi verið á síðasta ári, að það væri í rauninni æskilegt vegna þess að það er vilji minn að reyna að flytja vald í þessum efnum út til sveitarfélaga. Ég er ekki viss um hvort það tækist samkomulag um það að lögin mundu einnig kveða á um það að eins og með önnur friðlönd væri hægt að fela umsjón þjóðgarða í hendur heimamanna. Það kann vel að vera að það sé mögulegt. Þjóðgarðar, eins og orðið segir, eru garðar sem þjóðin á að njóta öll. Ég bendi á það að í frv. er talað um að umhvrh. setji reglur um meðferð og rekstur þjóðgarða. Það er hægt að taka með einhverjum hætti á því frekar í þeim reglum að færa umsjónina með þjóðgörðunum út til sveitarfélaganna en það verður aldrei hægt að ganga frá því að það verður að vera Landvarslan sem hefur hina eiginlegu náttúruverndarumsjón með þjóðgörðunum.
    Hér hefur einnig verið rætt talsvert um gagnrýni Páls Sigurðssonar en margir hafa gagnrýnt ýmis atriði í frv. á grundvelli þeirra ábendinga sem fram komu hjá Páli Sigurðssyni. Ég held að óhætt sé að segja að það sé einn af veigamestu gagnrýnispunktunum sem fram hafa komið.
    Ég hef í höndum bréf sem Páll Sigurðsson skrifaði umhvn. 16. des. sl. þar sem hann segir að frv. geri með óheppilegum eða varasömum hætti ráð fyrir ákvarðanatöku umhvrn. á frumstigi sem skaði í reynd möguleika á stjórnsýslukærum.
    Það er rétt að það komi fram að auðvitað tók ég þessa gagnrýni alvarlega. Ég var að vísu staddur erlendis þegar þetta kom en mér var greint frá þessu og ég óskaði eftir því að það yrði haldinn fundur með Páli og ráðuneytisstjóri og tveir lögfræðingar ráðuneytisins áttu fund með honum 16. des. Þegar farið var mjög nákvæmt yfir málið þá kom í ljós þegar beðið var um hin rökstuddu dæmi að hér var fyrst og fremst átt við 9. og 17. gr. frv. sem varðar gjaldtökuheimildir. Það er rétt að ítreka að það var komið til móts við sjónarmið Páls í þessum efnum og í brtt. meiri hluta umhvn. er gert ráð fyrir breytingum á þessu. 9. gr. fjallar um samninga ráðuneytis og annarra aðila, t.d. ferðafélaga, um umsjón með landi. 17. gr. fjallar um gjaldtöku.
    Í upphaflegri gerð frv. hefðu þeir aðilar sem tóku að sér umsjón með svæðunum þurft að lúta ákvörðunum ráðherra um gjaldtöku án þess að hafa heimild til málskots. Í brtt. er hins vegar gjaldtakan samningsatriði og það er Landvarslan sem ákveður gjaldtöku á þeim svæðum sem hún hefur umsjón með og þar með er hægt að skjóta þeim ákvörðunum til ráðherra. Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að þetta var helsti gagnrýnispunktur Páls Sigurðssonar. Það er líka rétt að geta þess að meiri hlutinn hefur komið til móts við sjónarmið Páls t.d. um það að gert er ráð fyrir því að stjórn Landvörslunnar skipi þjóðgarðsverði en ekki ráðherra eins og hið upphaflega frv. segir til um.
    Í brtt. meiri hlutans í umhvn. er þannig búið í mjög veigamiklum og veigaþyngstu atriðunum að koma til móts við þessi sjónarmið.
    Ég á erfitt með að sjá önnur rökstudd dæmi sem hægt er að taka úr þessu sem gætu fallið undir þessa gagnrýni Páls. Ég get auðvitað farið yfir þau lið fyrir lið. Í c-lið 1. gr. kemur hann fram með ákveðna gagnrýni en með brtt. umhvn. getur ráðherra falið Landvörslunni umsjón með öðrum svæðum en náttúruverndarsvæðum. Þetta telur Páll óeðlilegt. Ég er því ósammála vegna þess að hér gæti ekki verið um að ræða stjórnsýsluákvarðanir sem varða þriðja aðila án hans samþykkis. Það er ekki um að ræða úrskurð sem hægt væri að kæra. Ég bendi líka á það að umsjón af þessu tagi hefur í för með sér aukin umsvif Landvörslunnar og hún hefur í för með sér fjárútlát. Ég tel ekki óeðlilegt að ráðuneytið komi að slíkum

ákvörðunum.
    Að því er varðar t.d. f-liðinn þá er búið að breyta honum. Stjórn Landvörslunnar getur falið þjóðgarðsvörðum stjórn á öðrum svæðum. En hér er hins vegar um að ræða innra málefni stjórnsýslunnar og það fellur ekki undir stjórnsýslulög.
    Varðandi 2. gr. frv. er búið að breyta henni og koma til móts við sjónarmið Páls að því er varðar, mig minnir að það hafi verið b-liður 3. mgr. Þar var um að ræða skilyrta undanþáguheimild og ég tel að ráðherra verði að hafa hana, m.a. vegna ákvæða um gjaldtöku í samningum við aðra aðila sem taka að sér umsjón með svæðunum.
    Varðandi 3. gr. Er það ekki rétt munað hjá mér að hún varði að það verði ráðherra í stað Náttúruverndarráðs sem setji reglur um berjatínslu ef nauðsyn krefur? Í því kerfi sem við setjum upp þá tel ég ekki eðlilegt að Náttúruverndarráð geri það en það er kannski eðlilegt að það væri frekar Landvarslan en þetta er ekki mjög stórt atriði. ( Gripið fram í: En skattstjórunum?)
    Páll gagnrýnir, að því er mér virðist, líka þau ákvæði sem varða friðlýsingarnar. Þess vegna er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að í dag þá þarf ráðherra að staðfesta ákvarðanir Náttúruverndarráðs í þeim efnum þannig að í dag er ekki möguleiki á stjórnsýslukærum í þeim. Það er ekki málskotsréttur þar. Páll virðist vera þeirrar skoðunar, að því er mér virðist á bréfi hans, að Náttúruverndarráð eigi áfram að friðlýsa eins og í dag. Þar er ekki um lögfræðilega skoðun að ræða heldur pólitíska skoðun hjá honum. Ég tel að svo eigi ekki að vera en ég ítreka það að í dag er það þannig að það er ráðherrann sem staðfestir friðlýsingarnar.
    Ég tel að þegar búið er að gera hinar veigaþyngstu breytingar sem ráðist var í til að koma til móts við sjónarmið Páls Sigurðssonar þá sé í rauninni búið að skjóta undir þennan leka sem hv. þm. hafa bent á að sé í hinni upphaflegu gerð frv. og vísa til gagnrýni Páls Sigurðssonar í þeim efnum.
    Þetta hygg ég, virðulegi forseti, að sé að mestu leyti þau stærstu ágreiningsefni sem hér hafa komið fram. Ef ég vísa líka til þeirrar ræðu sem ég flutti fyrir nokkrum dögum þá held ég að ég sé búin að drepa á mest af þeim ágreiningsatriðum og þeim ádeiluatriðum sem fram hafa komið. Ég hef svarað spurningum um málefni starfsmanna, ég hef svarað spurningum um gagnrýni Páls Sigurðssonar og ég hef svarað gagnrýni á miðstýringu.
    Það er kannski eitt atriði sem ég hef ekki drepið á og það varðar friðlýsinguna. Friðlýsingarákvæði þessa frv. eru að mestu aðlögun að breyttu stjórnkerfi náttúruverndarmála. Það eru fyrst og fremst tvær undantekningar frá því. Það er annars vegar náttúruminjaskráin sem menn hafa gagnrýnt að sé í höndum ráðuneytisins og hins vegar er það víkkun á friðlýsingarheimildunum en þær eru m.a. vegna samningsins um líffræðilega fjölbreytni. Að öðru leyti, eins og hefur margoft komið fram hjá mér, bíða friðlýsingarákvæði og margt annað í þessu seinna þreps endurskoðunar á þeim lögum sem nú eru í gildi. Við erum með þessu frv. fyrst og fremst að taka á stjórnkerfinu og gera ýmsar breytingar sem leiða af breytingum á því.
    Í dag er það svo að í frv. hefur ráðherra frumkvæðisvald varðandi friðlýsingar. Ég tel það ekki óeðlilegt, ég verð að segja það. Mér finnst þetta raunar vera í hæsta máta eðlilegt. Það er hins vegar Landvarsla ríkisins sem vinnur alla undirbúningsvinnu friðlýsingar en það eru aðrir sem geta haft frumkvæði þar að. Ég er þeirrar skoðunar að sem flestir eigi að geta komið að því ferli og sem flestir eigi að geta bent á og komið með tillögur um það hvar eigi að friðlýsa vegna þess að við eigum öll landið. Þess vegna er þetta opið ferli þó að ráðherra hafi frumkvæðisvald og Landvarslan vinni alla undirbúningsvinnu. Hverjir aðrir geta haft frumkvæðið? Landvarsla ríkisins, Náttúruverndarráð, stofnanir og einstaklingar. Hver einasti Íslendingur getur komið með tillögur til friðlýsingar sem samkvæmt frv. er lagaleg skylda að taka afstöðu til. Er ekki þar með verið að færa aukið vald, aukið frumkvæði út til fólksins? Friðlýsingarferillinn verður opnari og hann verður markvissari en ekki miðstýrðari. Þetta þykja mér vera veigamikil rök í málinu.
    Með náttúruminjaskránni sem fær miklu meira vægi en áður er líka verið að gera undirbúning friðlýsinganna markvissari og stefnumörkunina skýrari. Markmiðið er að rökstyðja sem best og sem fræðilegast, með sem vísindalegustum hætti, markmið friðlýsinga og hvaða svæði sé æskilegt að friðlýsa og hvers vegna. Það er gert ráð fyrir því að umhvrn. gefi skrána út, auglýsi í Stjórnartíðindum, en vinnan við undirbúning hennar færist yfir til stofnana ráðuneytisins, þ.e. Landvörslu ríkisins og Náttúrufræðistofnunar.
    Einn hv. þm., mig minnir hv. þm. Kristín Einarsdóttir, spurði um það hvert yrði hlutverk Náttúrufræðistofnunnar og náttúrufræðistofa. Í hinu nýja kerfi sem er í uppbyggingu á grundvelli laganna um Náttúrufræðistofnun er gert ráð fyrir því að Náttúrufræðistofnun og náttúrustofurnar þegar þær eru teknar að virka þá verða það þær sem verða hinn fræðilegi bakhjarl friðlýsinganna. Þetta tel ég vera til stórra bóta.
    Það hefur spunnist umræða um friðlýsingar við þessa umræðu. Staðreyndin er sú að það er alveg hárrétt sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að þessi ráðherra hefur mikinn áhuga á friðlýsingum. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði að vísu spott að því en það er mér mikið hjartans mál. Ég vek athygli á því að frá árinu 1988 var ekkert friðlýst fyrr en á síðasta ári. Ég held ég fari með rétt mál þar, hv. þm. Það var ekkert friðlýst. Friðlýsingarstarfið lá niðri. Náttúruverndarráð einfaldlega tókst ekki að koma friðlýsingum fram á þeim tíma. Þegar ég kom í ráðuneytið var það fyrsta sem ég gerði, fyrsta embættisverk mitt, að undirstrika gagnvart Náttúruverndarráði mikinn áhuga minn á því. Það liggja mörg bréf frá mér um þau efni, mörg símtöl, mörg samtöl um friðlýsingar. Ég útvegaði sérstakan starfsmann til þess, ég bauð

að lána starfsmenn úr umhvrn. til þess. Ég útvegaði fjármagn til þess. Því var borið við, sem ég skildi vel, að það væri einfaldlega ekki atgervi innan Náttúruverndarráðs þá til að vinna hinn fræðilega hluta. Það var þess vegna sem það var sett fjármagn og það var settur maður einmitt í það mál, manneskja, ef ég man rétt, sem var sérstaklega menntuð í fræðum sem lúta að þessu. Það er því alveg rétt, ég taldi nauðsynlegt að breyta friðlýsingarferlinu og ég taldi ekkert óeðlilegt við að gera það með þeim hætti sem kemur fram í frv.
    Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi drepið á öll hin stærstu ágreiningsmál sem fram hafa komið. Ég er sannfærður um að ýmsar spurningar um smærri atriði hafa e.t.v. farið fram hjá mér. Ég hef rætt bæði núna og reyndar í miklu ítarlegri málum fyrr í vikunni um gjaldtökumálin. Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að ég láti þessari yfirferð minni og svörum lokið að sinni. En ég ítreka að ég er reiðubúinn til að kanna hvort það er samkomulagsvilji um þetta mál. Ég tel nauðsynlegt að gera þessa breytingu og ég vísa aftur í það sem varaformaður Náttúruverndarráðs sagði 1987, og sem fjölmargir hafa síðan rætt um, það er nauðsynlegt að gera svona breytingu.
    Það hefur komið fram að mönnum þykir ekki gott að tvískipta þessu ferli, þ.e. taka annars vegar fyrst þessa stjórnskipunarlegu uppstokkun og fara síðan í ýmis önnur mál. Það er auðvitað hægt að deila á þá stefnu ráðherra. Ég taldi að það væri rétt að gera það. Við höfum áður rætt um þá nefnd sem sett var niður til þess að vinna málið og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur deilt harðlega á mig fyrir að hafa leyst hana upp. Það var einfaldlega svo að hún átti að vera búin að skila ári fyrr og þegar ég kom í ráðuneytið og kallaði eftir því hvað lægi fyrir var það ljóst að því verkefni, sem var meginhlutverk nefndarinnar í skipunarbréfi fyrrv. umhvrh., hafði lítið verið sinnt. Ég dró þá ályktun ekki bara af viðræðum við menn í nefndinni nokkra heldur líka á þeim frumvarpsdrögum sem mér voru skiluð.