Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 13:14:43 (4441)


[13:14]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því og lagði áherslu á það í inngangi minnar ræðu að vissulega væri þetta mál seint fram komið og ég hefði kosið að þetta væri á annan hátt. Ég er þess meðvituð að það er teflt á tæpasta vað með að þetta mál nái fram að ganga en ég vil geta þess að málinu var skilað mjög seint í frumvarpsformi til mín. Það náðist til ríkisstjórnar rétt fyrir jól og ég lagði mikla áherslu á að frv. kæmi fram til þess að það væri sýnilegt og möguleiki á að fá sátt um málið frá öllum þeim aðilum öðrum en hv. Alþingi sem hafa skoðun á þessu máli og hafa um það að segja hvernig húsnæðismálunum er skipað hjá okkur. Síðan er það svo að hæstv. fjmrh. var í burtu mun lengur en ég hafði vitað um en við hann þurfti ég að sjálfsögðu að eiga viðræður um margt í þessu frv. sem vissulega felur í sér meiri útgjöld en áður, alla vega felur það í sér breytingar sem geta kallað á meiri útgjöld. Hins vegar er það svo að það eru mörg mál sem hafa þurft að komast að eftir að frá þessum málum var gengið af minni hálfu. Mér finnst það mjög miður að hafa ekki komist að fyrr með þetta mál en ég vona að það takist sátt um að afgreiða eins mikið og menn treysta sér til af þessu máli. Ég held að það liggi það ljóst fyrir og um það sé það mikil sátt hjá öllum þeim sem félmn. venjulega ræðir við um frv. þessarar gerðar að það eigi að vera nokkuð auðvelt og fljótlegt fyrir félmn. að átta sig á hvar ágreiningur liggur og hverju félmn. kýs að sleppa úr frv.