Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 13:16:39 (4442)


[13:16]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tók það reyndar fram í minni ræðu að ég efast ekkert um vilja hæstv. félmrh. til að koma þessu máli fram enda kom það fram í andsvari ráðherrans að hún hefur verið að vinna í málinu síðan hún fékk það í hendur. En það varð seint. Það staðfestir það sem ég var að segja, verkleysi ríkisstjórnarinnar að koma ekki þessu máli frá sér á síðasta ári. Ég var ekkert að ásaka hæstv. núv. félmrh. fyrir það að hún hefði ráðið ferðinni í þessu máli. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar en ekki hæstv. félmrh., sem er búin að vera í embætti síðan rétt fyrir áramót, hvernig þessi mál eru komin.
    Ég lýsi ábyrgð á hendur ríkisstjórnarinnar fyrir þessi vinnubrögð og önnur vinnubrögð og auðvitað forsrh. sem ræður þessu og er verkstjóri ríkisstjórnarinnar ( Gripið fram í: Hvar er hann?) og hefur látið þessi vinnubrögð viðgangast í hverju málinu á eftir öðru, mánuð eftir mánuð, þar sem hver höndin hefur verið upp á móti annarri. Það hefur reyndar ekkert komið fram í þessari umræðu enn þá hvort Sjálfstfl. er sammála þessu máli en hins vegar sé ég að hv. 3. þm. Vestf. var við umræðuna og tekur vafalaust til máls á eftir og lýsir þá yfir afstöðu síns flokks til málsins. En hæstv. félmrh. er búin að lýsa því yfir að hún sé búin að sætta öll öfl í þjóðfélaginu nema þingið við málið og þá sjáum við hverju fram vindur.