Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 13:19:05 (4443)


[13:19]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ekki ætla ég að halda því fram að slík kraftaverkakona sé ég að ég sé búin að sætta öll öfl í þjóðfélaginu en einhver þeirra hef ég verið að fást við. Hins vegar kem ég hér til að lýsa því yfir að það er alveg fráleitt að áfellast forsrh. fyrir þetta mál sem ég er að mæla fyrir í dag, hvort sem í því felst handvömm eða seinagangur. Sé það svo þá er það mínu ráðuneyti um að kenna og engu öðru og ekki hægt að búast við því að forsrh. sé að fylgja því eftir hvað líði störfum nefndar í félmrn.
    Það má ekki gleyma því að slíkar breytingar sem þessar verða til við það að það er skipuð nefnd í málið og slík nefnd starfar og skilar skýrslu. Þegar þeirri skýrslu hefur verið skilað fer ríkisstjórnin yfir málið og fellst á að frv. komi. Það gekk mjög skjótt fyrir sig frá því að skýrslan kom, frumvarpssmíðin sem slík gekk skjótt fyrir sig en skýrslan var bara ekki komin fyrr en það seint á haustdögum að þó vel væri haldið á spilum þá náðist ekki að leggja þetta mál fram fyrr en laust fyrir áramót. Það verður því að ásaka einhverja aðra um það og þótt það sé kannski ekki eitthvað sem ég þarf að vera að hafa áhyggjur af að hv. þm. áfellist forsrh. þá kem ég hins vegar í þessu máli á fullu til varnar honum.