Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 13:21:49 (4445)


[13:21]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem við ræðum er ekki hið fyrsta sinnar tegundar sem fjallar um húsnæðismál eða málefni félagslegs íbúðarhúsnæðis heldur hafa þessi mál dúkkað upp nokkuð reglubundið ár eftir ár vegna þess að menn hafa einfaldlega staðið frammi fyrir nýjum verkefnum og nýjum aðstæðum. Það frv. sem litið hefur dagsins ljós og er til umræðu er ekkert frábrugðið að því leytinu að það hefur tekið býsna langan tíma að vinna að því einfaldlega vegna þess að hagsmunirnir eru býsna stríðir í málinu og mjög mörg álitaefni sem koma upp. Það kom í ljós við undirbúning þessa frv. að ýmislegt af því sem menn höfðu kannski ekki séð fyrir þegar farið var af stað í upphafi kom upp á yfirborðið og menn urðu að taka á því með ýmsum hætti.
    Ég hef tekið eftir því stundum í umræðum að hv. stjórnarandstæðingar láta í ljósi mikinn söknuð yfir fjarvistum einstakra ráðherra. Ég verð að vísu að játa það að svona söknuður hefur aldrei gripið mig neitt sérstaklega. En vegna þess að við erum að ræða um þetta húsnæðisfrv., sem er mikið að vöxtum og á sér aðdraganda allt til ársins 1992, vekja athygli á því að hv. 12. þm. Reykv., félmrh. til margra ára, er fjarstödd og hefði mörgum held ég þótt nokkuð kyn að hv. þm. léti það henda sig að vera fjarstödd þegar við erum að ræða annað eins mál og þetta, mál sem lýtur að endurskoðun sjálfs húsnæðiskerfisins og eins veigamesta þáttar þess, þ.e. hins félagslega þáttar húsnæðiskerfisins sem hv. þm. hefur borið mjög fyrir brjósti. Ég geri ekki lítið úr hlut hv. þm. í því máli, síst af öllu meðan hún var félmrh. En það vekur óneitanlega athygli, skapar að vísu engan sérstakan söknuð, að hv. þm. er fjarstödd og ég tel ástæðu til að vekja athygli á því.
    Ég vil segja varðandi þetta mál annars almennt að það hefur verið býsna lengi í undirbúningi. Það var kallað eftir áliti fjölda fólks sem starfar að þessum málum, m.a. í húsnæðisnefndum, vítt og breitt um landið. Sérstök nefnd fór um og hlustaði á þau sjónarmið sem uppi voru. Það var kallað eftir áliti fólks á ráðstefnum um þessi mál og þar fram eftir götunum. Síðan var farið til þess verks að reyna að moða úr þessu og vinna heillegt frv. Ég get vel fallist á að þetta mál hefur tekið býsna langan tíma einfaldlega vegna þess að þetta er flókið mál, viðkvæmt og flókið, og grípur inn á marga þætti. Það eru mjög mörg álitamál uppi í þessu sambandi.
    Ég vil áður en ég vík að efnislegri umfjöllun minni um frv. segja að ég hlýddi á hæstv. félmrh. kynna tilteknar breytingar sem hæstv. ráðherra vildi gera á þessu frv. Ég mun ekki leggjast gegn þeim breytingum ef þær gætu orðið til að greiða fyrir framgangi málsins sem ég held að standi mjög til bóta. Ég vil hins vegar að það komi mjög skýrt fram að ég held að það bæti síst af öllu lagasetninguna sú hugmynd að taka út það ákvæði frv. þar sem kveðið er á um skipan húsnæðisnefnda. Ég held að það sé miklu eðlilegra það form sem gert er ráð fyrir í frv. sjálfu, þ.e. að húsnæðisnefndirnar séu kosnar af sveitarstjórnunum eingöngu vegna þess að það er hinn rauði þráður þessa frv. að auka völd og áhrif sveitarfélaganna og um leið ábyrgð þeirra. Það er auðvitað rétt sem hv. 5. þm. Vestf. sagði að þetta er dálítið vandamál vegna þess að ríkið annast í fyrsta lagi fjármögnunina. Síðan er gert ráð fyrir því að sveitarstjórnin beri ábyrgð á framkvæmdinni og þess vegna finnst mér það vera til hins verra þegar þriðji angi þessa máls er gerður þannig að gert er ráð fyrir því að meiri hluti sveitarstjórna sem samt sem áður á að bera ábyrgð á málinu sé kominn í minni hluta húsnæðisnefndarinnar. Það var einfaldlega það sem bjó að baki þegar við undirbjuggum þetta frv. í nefndinni sem ég sat í. Okkar hugsun var sú að segja sem svo: Það má segja að annars vegar er um það að ræða að fjármagnið komi frá ríkinu en að ábyrgðin sé klárlega á hendi þeirrar sveitarstjórnar sem situr og menn geti ekki í meiri hluta sveitarstjórnar sagt sem svo: Við tókum ekki þessa ákvörðun, ákvörðunin var húsnæðisnefndar sem við höfðum ekki fullt vald á.
    Ég ætla hins vegar ekki að gera stóran ágreining um þetta mál en vildi að það kæmi fram strax við þessa umræðu að ég tel að þessi breyting sé ekki til bóta og sé alls ekki sjálfsögð eins og kannski er verið að tala um en þetta er ekki meginatriði málsins.
    Ég nefndi það að í þeirri vinnu sem átti sér stað við undirbúning frv. hefðu komið upp ýmis vandamál sem menn sáu kannski ekki fyrir í upphafi. Það sem ég hafði ekki hvað síst í huga var það vandamál sem við höfum verið að kynnast, ekki síst þingmenn víða af landsbyggðinni, sem lýtur að því að fjölmörg hús og íbúðir á vegum hins félagslega íbúðakerfis standa nú skyndilega auð. Ég segi skyndilega en auðvitað væri réttara að segja að þetta hefur verið þróunin, þetta hefur verið að gerast á undanförnum árum. Það er ekki þannig að ein ástæða sé fyrir þessu. Þetta gerðist á ákveðnum tíma og á sér ýmsar skýringar, breyttir atvinnuhættir, minni aflaheimildir, færra fólk, minni yfirvinna, minni tekjumöguleikar og enn fremur ýmsar aðstæður í hinu félagslega kerfi, hækkandi vextir að einhverju leyti og fyrningarreglur o.s.frv. Stærstu máli skiptir þó ábyggilega í þessu sambandi að atvinnuástand hefur verið í ýmsum tilvikum ótryggara og tekjurnar minni. Þetta er ekkert sem hefur gerst á einu, tveimur eða þremur árum, þetta er hlutur sem hefur þróast yfir ákveðinn tíma. Við sem þekkjum til á landsbyggðinni vitum að það hefur orðið vaxandi verðbil á milli annars vegar hins félagslega íbúðarhúsnæðis sem hefur verið verðlagt eftir tiltekinni reglu, að mestu án tillits til markaðsaðstæðna, og hins vegar íbúðarhúsnæðis sem er verðlagt eingöngu á hinum almenna markaði, á markaðsverði. Þar hefur komið að gagnstætt því sem manni sýndist í upphafi að menn væru að flýja hinn almenna markað inn í skjól félagslega íbúðarhúsnæðisins, eins og mér fannst málið standa fyrir svona fjórum árum, þá hefur það verið að gerast núna að menn hafa verið að flýja hið félagslega íbúðarhúsnæði, einmitt tekjulægra fólkið sem þetta húsnæði er þó ætlað fyrir. Einmitt það fólk hefur verið að flýja félagslega íbúðarhúsnæðið inn á hinn almenna markað og eftir stendur félagslega húsnæðið autt og yfirgefið á kostnað og ábyrgð sveitarfélagsins.
    Ég hygg að flestir þingmenn úr kjördæmum landsbyggðarinnar a.m.k. kannist við þetta vandamál. Þetta er misalvarlegt vandamál. Ég vek t.d. athygli á því að sveitarfélagið Stöðvarfjörður sendi okkur í fjárln. Alþingis minnisblað þar sem þetta var dregið fram. Mjög mörg dæmi um þetta þekkjast einmitt í mínu kjördæmi á Vestfjörðum þó misalvarleg séu að sjálfsögðu.
    Þetta mál var mjög mikið til umræðu á seinni stigum nefndarvinnunnar sem miðaði að því að undirbúa þetta frv. Það er þannig og verður bara að játast, og ég held að það sé ekki rétt að vera með neina sýndarmennsku í þeim efnum, að þetta mál er ekkert auðvelt viðfangs. Það eru engar einfaldar töfra- eða patentlausnir á þessu máli frekar en flestum öðrum. Menn eiga bara að átta sig á því og viðurkenna að það er ekkert einfalt að leysa þetta mál. Þegar það gerist að markaðsverð íbúðarhúsnæðis úti á landi er innan við helming af brunabótamati og jafnvel dæmi um lægri tölur en hið félagslega íbúðarhúsnæði er verðlagt á eitthvað nálægt brunabótamati mínus fyrningu þá verður auðvitað þarna gríðarlegt verðbil.
    Menn geta auðvitað spurt: Hver á að vera ábyrgur? Menn geta sagt að það eigi að vera íbúarnir en það er óréttlátt vegna þess að þeir fara inn í þetta kerfi, gangast undir tiltekna skilmála þar sem alls ekki er gert ráð fyrir því að þeir beri þessa ábyrgð. Það má segja að það séu sveitarfélögin og það má segja að

það sé kannski Húsnæðisstofnun eða Byggingarsjóður verkamanna en ég held að það sé mjög erfitt að alhæfa um það að einhver einn þessara aðila beri þessa ábyrgð einn og sér. Það eru að vísu sveitarfélögin sem taka þessar ákvarðanir að lokum um byggingu eða kaup á húsnæðinu en aðstæðurnar hafa verið að breytast af mörgum ástæðum eins og ég var að rekja hérna áðan. Sú niðurstaða sem hér var fengin, og getur að líta í 92. og 93. gr. á bls. 11 í frv., var það sem mönnum þótti skásta lendingin, eins og það er stundum orðað og var fengin m.a. eftir að hafa rætt mjög ítarlega við sveitarstjórnarmenn úti um landið og fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga sem út af fyrir sig ber ekki ábyrgð á þessari niðurstöðu en sem hafa hins vegar sagt að hún sé athyglisverð og skynsamleg og miði að því að leysa þessi mál.
    Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að í þeim tilvikum sem ég lýsti sé húsnæðismálastjórn heimilt að veita framkvæmdaraðila, þ.e. sveitarfélaginu, lán eða öðrum aðilum sem líkt er á komið, sem nemi söluverði íbúðanna og lánskjör séu þau sömu og gilda um lán til leiguíbúða og miðast lánveiting við innlausnardag.
    Hér er verið að miða við það að þegar það ástand hafi ríkt í hálft ár, sex mánuði, að sveitarfélögin geti ekki selt húsnæðið þá sé heimilt að veita þeim sérstakt nýtt lán á vægari kjörum miðað við innlausnardag þannig að hægt sé að setja íbúðirnar í leigu og hafa af þeim einhverjar tekjur til þess að standa undir þessari fjármögnun á þessum lánskjörum sem þarna er verið að lýsa. Þetta má segja að sé í fyrsta lagi hugmyndin til þess að skapa tiltekið skjól. Ef það er ljóst að þessar íbúðir eru óseljanlegar í þessu félagslega kerfi þá er opnað á heimild sem að vísu er, og ég viðurkenni það fyrstur manna, ákaflega þröng. En að mínu mati er þó verið að viðurkenna og innleiða tiltekið prinsipp sem er það að sveitarfélaginu er í þessu tilviki heimilað að opna á sölu á þessum húsum úti á markaði. Ég er hins vegar alveg með á því að þetta ákvæði verður lítið notað einfaldlega vegna þess að þegar menn eru komnir í þessa nauðvörn þá þýðir sá kostur að selja húsnæðið út á hinn almenna markað þar sem markaðsverðið er lágt í þessum tilvikum að það þarf að afskrifa þennan mun. Við erum því að tala um afar þröng tilvik, tilvik sem þarf hins vegar að mínu mati að vera lagaleg heimild til þess að nota við ýtrustu aðstæður.
    Virðulegi forseti. Ég hefði auðvitað getað farið yfir ýmis önnur nýmæli í frv., svo sem þau að hér er verið að breyta reglum um fyrningu, hér er verið að breyta lánaflokkum og hér er verið að gera breytingar á vaxtakjörum o.s.frv. En það læt ég liggja á milli hluta við 1. umr. Þetta mál fær meðhöndlun og afgreiðslu í félmn. þingsins þar sem ég á sæti og fæ þar tækifæri til að ræða það frekar en ég tel að í meginatriðum sé þetta mál til bóta og tekið á ýmsum álitamálum og áleitnum vandamálum sem uppi hafa verið. Auðvitað er ekkert fullkomið í þeim efnum en ég er sannfærður um það að samþykkt frv. í þessum anda yrði mjög til bóta fyrir það fók sem er notendur í hinu félagslega íbúðarhúsnæði sem er svo mikilvægt fyrir fjölda fólks í okkar landi.