Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 14:09:07 (4448)


[14:09]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 11. þm. Reykv. taldi að það væri mjög undarlegt ef félagslegt húsnæði og kaupleiguíbúðir stæðu auðar úti á landsbyggðinni á sama tíma og það vantaði húsnæði í Reykjavík. Það eru ýmsar skýringar á þessu og ekki bara einhlítar. Tekjumörkin hafa verið ákveðin það lág að fólk hefur ekkert ráðið við afborganir af íbúðum í þessu kerfi. Ég get nefnt sem dæmi að ef miðað er við lágtekjufólk sem þarf að fara inn í þessar íbúðir þá þarf það að greiða kannski 60--70 þús. kr. í mánaðarlegar greiðslur af kaupleiguíbúðum sem er auðvitað nokkuð sem enginn ræður við.
    Í öðru lagi getur líka verið um félagslegt húsnæði að ræða og þá hefur oft og tíðum orðið breyting tvö síðustu ár eða svo vegna þess að inn í það spilar fækkun íbúa og atvinnuástandið kemur líka inn í dæmið. Ég held að það sé engin einhlít skýring á þessu. Þetta eru hlutir sem alltaf þarf að endurskoða. Í dag er staðan sú að sveitarfélögin eiga mjög erfitt sums staðar, sérstaklega í allra minnstu sjávarplássunum, með að standa undir því að leysa aftur út þetta húsnæði. Þar er því komið upp vandamál.
    Hvað varðar það að þarna hafi fjármunum verið ranglega ráðstafað þá held ég að oft og tíðum hafi verið gerðar of miklar kröfur um það húsnæði sem á að vera félagslegt húsnæði. Ég nefni sem dæmi að það þurfi sífellt að mála alla íbúðina þó að fólk skipti um jafnvel á eins til tveggja ára fresti. Það gerir ekki venjulegt fólk, það málar kannski á fjögurra ára fresti sem dæmi. Ég held að það sé ein skýringin á því að þessu húsnæði hafi verið haldið dýru að það séu gerðar of miklar kröfur.