Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 14:11:28 (4449)



[14:11]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir þetta allt saman hjá hv. 6. þm. Vestf. Ég held einmitt að þarna liggi ástæðurnar fyrir því af hverju húsnæði úti á landsbyggðinni stendur autt. Ég var ekkert að gera lítið úr þeim vanda sem þarna er við að etja, síður en svo. Það voru hins vegar fréttir fyrir mig við þessa umræðu að svo væri komið hjá mörgum sveitarfélögum að félagslega eignaríbúðahúsnæðið stæði autt og það er miður. Ástæðan er eins og hv. þm. sagði: Það eru gerðar of miklar kröfur, þetta er of dýrt út af þeim kröfum sem menn gera. Þetta er allt saman tilbúið í hendurnar á fólki þegar það á að flytja inn og í þriðja lagi eru það tekjurnar. En það er sama vandamálið yfir allt landið, sama hvort menn búa í Reykjavík eða úti á landsbyggðinni. Það er kannski að verða eitt stærsta vandamálið í félagslega eignaríbúðakerfinu. Ríkisstjórnin hefur gengið þannig fram í sinni kjara- og efnahagsstefnu að kjörin hjá þessu fólki eru orðin svo bág, tekjuskerðingin hefur orðið svo gríðarleg í tíð þessarar ríkisstjórnar að fólk sem fær úthlutað íbúðarhúsnæði --- og úthlutun er eitt, síðan er það að geta sýnt fram á að það geti staðið við þær skuldbindingar --- og þegar farið er að reikna það allt saman í Húsnæðisstofnun og bankakerfinu þá kemur því miður í ljós að tekjurnar eru það litlar hjá fólki að það stendur ekki undir greiðslubyrðinni. Og þetta er ekki bara vandamál á landsbyggðinni. Þetta er vandamál um allt land og ekkert síður í Reykjavík.