Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 14:14:13 (4451)


[14:14]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil náttúrlega taka þær efnislegu athugasemdir sem komu fram í ræðu þingmannsins fyrir þegar ég svara ræðum þingmanna á eftir og fer yfir það sem spurt hefur verið um og reyni að veita svör eins og hægt er. En ég má til að svara örstutt þeirri djörfu framsögu sem þingmaðurinn hélt og sem mér fannst nokkuð hávær og bera nokkurn keim af því að vera eins konar framboðsræða. Ég er ekkert að harma það þó menn noti þennan ræðustól til slíkra hluta en hins vegar finnst mér það mjög mikilvægt í þessu góða máli sem við erum að ræða hér að menn haldi sig við það.
    Ég vil segja það, virðulegi forseti, að mér finnst það ótrúleg skammsýni af þingmanni að halda því fram að ekkert sé verið að vinna og ekkert að gerast í málum sem snúa t.d. að skuldum heimilanna sem ég kýs venjulega að segja: Sem snúa að ákveðinni tegund vanskila heimilanna. Ég hafna því að sífellt sé notað að skuldir heimilanna séu af hinu slæma vegna þess að síaukin hlutdeild góðra húsnæðislána í lánum til húsnæðisöflunar er mjög mikilvæg og lán til félagslegra íbúða eru mjög mikilvæg. Í hvert skipti sem hefur verið úthlutað þúsund íbúðum þá hafa skuldir heimilanna verið auknar um 6 milljarða og ég segi: Það er góð skuldaaukning.
    Það er skammsýni að telja að ekkert sé verið að gera ef ekki er verið með málin á þinginu. Ég minni á að það eru stöðugt skuldbreytingar í gangi hjá Húsnæðisstofnun ríkisins og heimild til þess að halda því áfram þegar sú upphæð er búin sem veitt var fyrir ári síðan. Það er verið að vinna að þessum málum af fullum krafti á mörgum vígstöðvum. Ég er með náið og gott samstarf við stóran hóp fólks frá verkalýðshreyfingu og bönkum og ég vil minna á að það frv. sem verið er að ræða núna hefur verið unnið í frá

1993 og það er verið að taka á ákvæðum sem þingmenn þekkja mjög vel, næstum hvert einasta ákvæði. Það er búið að vera hér uppi í fyrirspurnatímum aftur og aftur. Samt sem áður hika menn við og hafa áhyggjur af hversu skammt er eftir af þingi þegar frv. er lagt fram. Ég minni bara á að það er ekki eins einfalt að koma löggjöf hér inn og þingmenn láta stundum.